28.04.1926
Efri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í C-deild Alþingistíðinda. (2576)

109. mál, landhelgissjóður

Sigurður Eggerz:

Jeg vil enn ítreka það, að ef á að fella niður tillag ríkissjóðs til landhelgissjóðs, þá veikir það landhelgisvarnirnar til mikilla muna. Þá verður minna hugsað um það en áður að efla sjóðinn. En ef hann er altaf látinn aukast, þá er þó sýnilega í landvörnunum mikill styrkur. En jeg vil vekja eftirtekt hv. deildar á því, að þetta er spor aftur á bak, til þess að draga úr strandvörnunum. Og ef á að gera sjóðinn verulega sterkan, þá er þetta, sem hjer um ræðir, langversta sporið, sem hægt er að stíga.

Þótt „Þór“ sje sterkur, þá er hann samt óhentugur til strandvarna. Og þótt jeg greiddi atkvæði með því, að ríkið gerði hann út, þá var það ekki af því, að jeg áliti hann vel fallinn til þeirra, heldur af því, að jeg vildi sýna Vestmannaeyingum sjálfsagðan þakkar vott og viðurkenningu fyrir þann mikla dugnað og áhuga, sem þeir hafa sýnt með því að halda Þór úti. — En það tjáir ekki að deila við dómarann. Jeg geri ráð fyrir því, að frv. nái framgangi í hv. deild, en þeir tímar munu koma, að menn sjái, að hjer hafi verið stigið verulega skakt spor.