11.02.1926
Efri deild: 4. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

5. mál, myntsamningur Norðurlanda

Fjármálaráðherra (JÞ):

Þetta litla frv. er borið fram í þeim tilgangi aðallega, að ákveðið verði á löglegan hátt, að skiftimyntir þær frá Noregi, Danmörku og Svíþjóð, er þar hafa verið slegnar samkvæmt myntsamningnum frá 1873, megi hætta að vera löglegur gjaldeyrir hjer á landi, vegna þess að von er á því, að bráðlega verði því lokið að slá þá innlendu skiftimynt, sem þörf er á.

Jeg þarf ekki að taka fleira fram viðvíkjandi þessu frv. Það má raunar skoða það sem einskonar framhald af lögunum frá í fyrra um innlenda skiftimynt.

Að lokinni þessari umr. óska jeg, að frv. verði látið ganga til allshn.