03.05.1926
Efri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í C-deild Alþingistíðinda. (2582)

109. mál, landhelgissjóður

Sigurður Eggerz:

Stutt athugasemd. Jeg held það liggi í hlutarins eðli, að þótt sektir og annað, sem í sjóðinn rennur, væri svo mikið á einhverju ári, að ekki þyrfti annað, þá eru þessar 20 þús. þó aukning á sjóðnum, ef þær eru lagðar í hann. Svo að enginn getur borið á móti því, að með þessari till. er verið að draga úr sjóðnum.

Það má altaf segja, að það sje skrítið að leggja fje sjerstaklega úr ríkissjóði í þennan sjóð, en það er áreiðanlegt, að ef það hefði ekki verið gert, að mynda þennan sjerstaka sjóð, þá hefði ekki verið bygt nú skip til landhelgisvarna. Jeg held það sje ekki nema framhald af þeirri hugsun, sem vakti fyrir Sigurði heitnum Stefánssyni, að lofa þessu tillagi ríkissjóðs fyrst um sinn að auka sjóðinn.

Hv. frsm. sagði, að nefndinni hefði komið saman um, að æskilegt væri að endurskoða þessa löggjöf. Jeg held það mætti þá bíða með þetta frv. þangað til þeirri endurskoðun væri lokið undir öllum kringumstæðum; því að allir sjá, að ekki liggur mjög á þessu.