14.05.1926
Neðri deild: 78. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í C-deild Alþingistíðinda. (2598)

109. mál, landhelgissjóður

Pjetur Ottesen:

Fyrir mitt leyti hygg jeg sje betra og heppilegra að halda áfram að efla landhelgissjóðinn með árlegu tillagi úr ríkissjóði heldur en að tæma hann fyrst, og fara svo að verja fje úr ríkissjóði í sama augnamiði.

Hæstv. forsrh. (JM) sagði, að þá, sem hefðu á hendi stjórnina á danska varðskipinu, vantaði ekki vilja til þess að gera okkur gagn. Í sambandi við það, hvað þeir oft á tíðum hafa verið þaulsætnir á höfninni, ekki hvað síst hjer í Reykjavík, þá verð jeg að segja, að það er undarlegur skilningur á landhelgisgæslustarfinu, ef þeir hyggja, að þeir geri okkur mest gagn með því að liggja í höfnum inni.