24.04.1926
Efri deild: 58. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í C-deild Alþingistíðinda. (2603)

106. mál, hæstiréttur

Flm. (Sigurður Eggerz):

Það fór hjá oss eins og öðrum þjóðum, þótt vjer stæðum fyrir utan heimsstyrjöldina, að ríkisskuldirnar jukust allmjög. Ýmissa úrræða var leitað til að bæta úr þessu. Tilraunir voru gerðar til þess að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. En flestar af þeim tilraunum mishepnuðust. Ein af þessum tilraunum fór í þá átt að spara útgjöld við hæstarjett. Með lögum 4. júní 1924 var ákveðið að fækka dómendum í hæstarjetti um tvo. Hæstarjettarritaraembættið var lagt niður, en á fjárlögum skyldi þó lögð nokkur upphæð til þessa starfs, manni, er rjetturinn skyldi útnefna. Ákveðið var og, að rjetturinn skyldi kjósa sjer forseta. — Á þessari ráðstöfun hefir ekkert sparast enn, því að lögin hafa, sem betur fer, ekki komið til framkvæmda. Hinsvegar hefir, sjerstaklega vegna mikillar árgæsku 1924, tekist að færa niður skuldir ríkissjóðs að miklum mun. Sparnaðarástæðan, sem rjeð áreiðanlega mestu um skipulagsbreytingu þá, sem gerð var á hæstarjetti 1924, er því nú að þessu

leyti fallin burt. Og fer því nú vel á því að samþykkja þetta frv., því að þá koma lögin frá 1924 aldrei til framkvæmda, og með því er þá hægt að komast hjá þeim álitshnekki, sem hæstarjetti hefði stafað af því.

Jeg var einn þeirra manna, sem leit svo á, að engin sparnaðarráðstöfun væri svo brýn, að hennar vegna mætti veikja rjettaröryggið í landinu. Jeg minni á, að það var innileg þrá allra góðra Íslendinga, að ná æðsta dómsvaldinu inn í landið. Þessu marki var náð með lögunum um hæstarjett frá 1919. Í hinni fróðlegu ritgerð hæstarjettarritara Björns Þórðarsonar um dómendafækkunina er nokkuð skýrt frá baráttu þeirri, sem átti sjer stað um þetta mál. Í bænarskrá þeirri, sem borin var fram á þinginu 1853, er sagt, að yfirrjetturinn hafi verið svo úr garði gerður, bæði um dómendatölu og launakjör, að hann hafi skort það afl og álit, sem svo mikilvægri stofnun sje nauðsynleg. Farið er þá fram á að fjölga dómendum um tvo, um leið og þess er æskt, að æðsta dómsvaldið sje flutt inn í landið. Krafan um 5 dómara í æðsta rjettinum er því ekki ný, hún kemur þegar fram árið 1853, eða fyrir 73 árum. — Og hve mikið er ekki breytt síðan? Líf þessarar þjóðar hefir á þessu tímabili tekið stakkaskiftum á öllum sviðum. Svo stórkostlegar hafa framfarirnar orðið á þessu tímabili. Og hafi þá verið þörf á 5 dómurum, með hinu einfalda og óbrotna lífi voru þá — hver mundi þörfin þá vera nú hjá hinu sjálfstæða íslenska konungsríki, með hinu margþætta lífi voru, sem er í stöðugri framsókn á öllum sviðum? 1855 er enn krafan um 5 dómendur í rjettinum endurtekin, og er þó ekki þá farið fram á að fá honum æðsta dómsvaldið. — Þá kemur krafan um 5 dómendur enn fram 1885, og var jafnan haldið fast við þá kröfu. Árið 1893 var þó tala dómenda aðeins 3. En á þinginu 1895 var málið enn tekið upp og tala dómendanna ákveðin 5. í hinni ágætu ritgerð Björns Þórðarsonar hæstarjettarritara, sem jeg í þessari frásögn fer eftir, eru tilfærð ummæli Benedikts Sveinssonar um þessi atriði, og þar sem þessi ummæli hins mikla þjóðskörungs lýsa svo miklum skilningi á þessu máli, skal jeg leyfa mjer, með leyfi hæstv. forseta, að lesa þau hjer upp:

„Jeg skil ekki í þeirri hugsun hjá Alþingi, að um leið og það vill fá þennan dýrgrip, dómsvaldið, inn í landið, þá skuli það ekki vilja tryggja dómsvaldið innan lands innan skynsamlegra takmarka. Ef 2. gr. frv. verður samþykt með þeirri breytingu, sem hjer er stungið upp á, þá geri jeg ráð fyrir, að kipt sje fótum undan þeirri von, sem jeg og margir aðrir hafa um framgang þessa máls, sem er fólgið í því, að fá trygga innlenda stofnun, sem fram yfir allar aðrar stofnanir getur stuðlað að því, að Íslendingar uni vel í sínu landi, því trygg og áreiðanleg dómgæsla er hinn stærsti dýrgripur hvers lands.“

Þessi krafa um 5 dómendur á því mikla sögu að baki sjer, enda hreyfði enginn mótmælum gegn því, svo jeg muni, er ákveðið var í hæstarjettarlögunum 1919, að dómendur skyldu vera 5. — Sparnaðurinn 1924 varð sterkari en hin eldgamla krafa um rjettaröryggið. En jeg hygg, að krafan um rjettaröryggið sje nú aftur að verða sterkari hjá þjóð vorri en sparnaðarkrafan. Jeg hygg, að varla geti orðið ágreiningur um það, að rjettarörygginu sje betur borgið í 5 manna dómstól en 3 manna dómstól.

Nægir í því efni að vísa til þess, að betur sjá augu en auga. Þegar verulega stór mál koma fyrir í þessu háa þingi, er oft bætt mönnum við í fastanefndir þær, sem eiga að fjalla um þau. Af hverju? Auðvitað vegna þess, að gert er ráð fyrir, að fleiri menn sjái betur hinar margvíslegu hliðar á ýmsum slíkum málum.

En hvar mundi vera meiri þörf á ítarlegri rannsókn málanna en í þeim rjetti, sem hefir úrslitaorðið um mörg örlagaríkustu mál einstaklinga þjóðfjelagsins. Auk þess sem nú, eins og áður er tekið fram, lífið er orðið og verður með hverju árinu margþættara en fyrir 73 árum, þegar krafan um 5 dómara í rjettinum kom fram, og því enn meiri þörf á 5 manna dómi nú en þá, virðist mjer sjálf málfærslan, hin munnlega máfærsla, geri nýjar kröfur einmitt til fleiri manna í rjettinum, því að rök hinnar munnlegu málfærslu glatast síður, þegar fleiri menn hlýða á þau, en ella. Þá virðist mjer og ljóst, ef illa tekst val á einhverjum dómara, en slíkt getur auðvitað altaf komið fyrir, — þá muni slíks óhapps gæta því minna, því fleiri dómendur sem skipa rjettinn. En þetta er atriði, sem einnig verður að taka til greina. Og þó að nú hafi tekist vel skipun í rjettinn, þá gæti slíkt þó altaf komið fyrir. Það mundi nú ekki aðeins veikja rjettinn inn á við, ef tveimur dómurum yrði kipt burt úr honum, heldur mundi það einnig veikja hann út á við. Sumum virðist nú ef til vill ekki skifta miklu um álitið út á við, en mikil fásinna er að gera lítið úr því. Og mikið ógagn vinna þeir yfir höfuð þjóð sinni, sem ófrægja hana út á við, eða þeir sem taka í sama strenginn og þeir menn, sem slíkt gera. Fyrir hvaða þjóð sem er, ekki síst fyrir litla þjóð, hefir álitið út á við afar mikla þýðingu. Og svo sjerstaklega sje vikið að hæstarjetti, þá er það ljóst, að það er hin mesta prýði fyrir hverja þjóð, að æðsti dómstóll hennar sje í miklu áliti. — En það er auk þess beinlínis hægt að sanna það, að þetta getur haft og hefir bein áhrif á viðskifti þjóðarinnar út á við, því að í dómsvaldinu felst ekki aðeins öryggi fyrir borgara landsins, heldur einnig fyrir þá, sem skifta við borgara landsins. Og þetta verður nokkurnveginn ljóst, þegar lagðir eru undir dómstólinn úrskurðir í málum, sem velta á hundruðum þúsunda, eins og nýlega hefir átt sjer stað í hæstarjetti. Þegar nú auk þess rjettarstigin, eins og hjer á sjer stað, eru aðeins tvö, þá verður örðugt að skilja það, að nokkrum vaxi í augum kostnaðurinn við 5 manna rjett. En ef miðstigið yrði sett, þá er það augljóst, ef vel ætti að búa um það, að það mundi reynast kostnaðarsamara en laun tveggja hæstarjettardómara.

Jeg veit ekki, hvort fordæmi er fyrir því annarsstaðar, að forseti dómstólsins sje kosinn af rjettinum. En þessa breytingu tel jeg síst til bóta, því vel gæti farið svo, að í rjettinum skapaðist órói um kosninguna, og ef hinsvegar ætti að skifta árlega um forsetann, eins og t. d. rektor háskólans, þá hygg jeg, að það mundi ekki auka festuna í rjettinum. Þá gætu og vel verið í rjettinum þeir menn, sem í sjálfu sjer væru góðir dómarar, en ekki eins vel fallnir til að hafa forsæti í rjettinum. Jeg verð því að segja, að mjer þótti illa farið, þegar þessi breyting var gerð á hæstarjetti. Um hæstarjettarritarann vil jeg aðeins segja það, að jeg sje enga ástæðu til þess að gera þá breytingu á þeirri stöðu, sem gerð var með lögum frá 1924.

Þó að breytingagirnin sje mikil í heiminum, þá virðast þó öldur umrótsins ekki hafa náð til æðstu dómstólanna; þeir standa óhreyfðir. Það er sjerstök helgi yfir þeim, og það á að vera sjerstök helgi yfir þeim. Einn af merkustu mönnum þessarar þjóðar skrifaði mjer í dag brjef og sagði, að hann gleddist yfir, að frv. um hæstarjett væri komið fram. Hæstirjettur er samviska þjóðarinnar, sagði þessi merki maður. Þetta er rjett, og samviskan verður að vera í góðu lagi, ef þjóðinni á að líða vel.

Jeg verð að biðja afsökunar á því, að jeg flyt ekki frv. þetta fyr en nú. En ástæðurnar fyrir þeim drætti eru þær, að jeg til skamms tíma bjóst við og hafði ástæðu til að búast við, að þm. í hv. Nd. úr stærra flokki en þeim, sem jeg er í, mundu flytja þetta mál þar. En þetta taldi jeg öruggara fyrir málið. Úr þessu hefir þó ekki orðið, og flyt jeg nú því frv. hjer. — Jeg má og fullyrða, að ef málinu yrði sýndur velvilji, þá er enn nægur tími til að koma því í gegnum þingið. Þar sem það voru aðallega fjárhagslegar ástæður, sem voru því valdandi, að lögin frá 1924 voru samþ., og þar sem fjárhagur ríkissjóðs er allmiklu betri nú en þá, vil jeg treysta því, að nú náist samkomulag um þetta mál.

Jeg vildi mega vænta, að hæstv. dómsmálaráðherra, vegna hinna breyttu ástæðna, tæki að sjer að koma þessu máli í gegnum þingið. — Það eru ekki meira en örfáir dagar síðan að í blaði framsóknarflokksins var allmjög veitst að dómsvaldinu hjer í þessu landi. Jeg ætla mjer ekki á neinn hátt að blanda mjer inn í þá deilu, en úr þeirri átt, sem slíkar ádeilur koma fram, ætti að mega vænta stuðnings til að búa sem öruggast um úrslitadómsvaldið.

Jeg vil geta þess, að svo virðist, sem hinir eiginlegu fagmenn, lögfræðingarnir, sjeu svo að segja á einu máli um það, að það megi telja eitthvert allra þýðingarmesta mál þjóðarinnar, að örugglega sje búið um hæstarjett. —

Með þessum fáu orðum vil jeg fela þetta mál velvilja hv. deildar. Og þó jeg hafi gert lítið til að ávinna mjer hylli hinna stærri flokka hjer í þinginu, þá treysti jeg því, að þetta mikla velferðarmál þjóðarinnar verði ekki látið gjalda þess. Jeg vil leyfa mjer að vænta þess, að sú nefnd, sem þetta mál verður falið til meðferðar, afgreiði það sem fyrst. Hjer er aðeins farið fram á, að halda hæstarjetti í sínum upprunalegu skorðum, sem hafa reynst vel, og virðist mjer því hlutverk hv. nefndar ljett.