24.04.1926
Efri deild: 58. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í C-deild Alþingistíðinda. (2604)

106. mál, hæstiréttur

Forsætisráðherra (JM):

Það er alveg rjett, að sú ástæða var höfð nokkuð framarlega, að nokkur sparnaður yrði að því að fækka dómendum í hæstarjetti, þegar um það var rætt á þingi 1923 og 1924. Og það er líka alveg rjett, að lögin hafa ekki ennþá komið til framkvæmda. Það kom að vísu till. um það á þingi 1924, að þau skyldu koma til framkvæmda fyrst á árinu 1925, en var feld. Það má segja, að það hefði verið rjettara þrátt fyrir það, að láta lögin koma til framkvæmda nú í ár, en jeg ætla ekki að fara frekar út í það. Jeg skal ekki heldur tala neitt um það, hvort sparnaðarástæðan hafi fallið burt. Jeg lít þó þannig á, að á hverjum tíma eigi að spara það, sem hægt er, af fje ríkisins. En um það verða náttúrlega altaf deildar meiningar, hvað megi spara og hvað megi ekki spara.

En um álitshnekkinn, sem hv. flm. (SE) talaði um, er það að segja, að jeg hlýt þar að vera á öðru máli. Jeg get ekki skilið, að í því að reyna að komast af með sem fæsta dómara, þó að í hæstarjetti sje, liggi nokkur orsök til álitshnekkis. Jeg held heldur ekki, að það sje rjett, að menn, sem telja þetta ekki ótækt fyrir okkur, þeir álíti, að í þessu liggi nokkur álitshnekkir. Verð jeg að segja það, hv. flm. (SE), að jeg hefi ekki orðið þessa var, þegar jeg hefi talað við útlenda menn, sem vel hafa haft vit á þessum málum.

En það er önnur veigameiri ástæða, sem háttv. flm. talaði um, það er hvort rjettaröryggið sje rýrt með þessu, og mætti því ekki spara þarna fyrir þá sök. En þar kemur nú einmitt aðalatriðið, sem deilt er um. Jeg álít að rjettarörygginu sje fyllilega borgið með þremur góðum lögfræðingum. Háttv. flm. sagði, að lífið hjer á þessu landi væri orðið svo margbreytt. Tekið hefir það að vísu breytingum. En er það rjett, að lífið hjá okkur sje orðið svo fjarskalega margbreytt, og hvar í liggja þessar stórkostlegu breytingar? Þessi þjóð held jeg lifi nú eins og altaf áður á landbúnaði og fiskiveiðum, auk verslunar. Fiskiveiðarnar hafa að vísu tekið mjög miklum framförum, en landbúnaðurinn stendur að sumu leyti býsna mikið í stað. Jeg held, að þegar þetta er athugað í samanburði við þær þjóðir, sem við þekkjum vel, þá sje lífið hjer ofur einfalt. Það má nefna verslunina, en hún er ekki í svo ægilega stórum stíl, hinir atvinnuvegirnir tveir eru það, sem mest verður að taka tillit til. Þessi þjóð er mjög fámenn, — við erum ekki nema tæpar 100 þús., og málin, sem þessir æðstu dómar taka til meðferðar, eru afarfá. Jeg veit ekki almennilega, hvað þau voru á síðasta ári, en þau hafa stundum ekki verið fleiri á ári en oft og einatt kemur fyrir að einn einasti dómari kveður upp á einum degi.

Nei, í samanburði við aðrar þjóðir er okkar líf einfalt, en ekki margþætt, þótt það eðlilega sje breytt frá því, sem áður var. Þessvegna verður þetta um töluna í rjettinum altaf álitamál. Jeg átti einu sinni tal um þetta við útlending, sem hafði, mjer er óhætt að segja, meira vit á að dæma um þetta en hver okkar, sem erum hjer, og spurði hann, hvað honum sýndist um þetta. Hann sagði: „Ef þið gefið þessum mönnum þau kjör, að líklegt sje, að þið fáið einhverja helstu lögfræðingana í dóminn, þá hygg jeg, að þetta sje alveg örugt.“ Og jeg held, að það sje nokkuð mikið í þessu. Og það hefir verið svo hingað til, að í æðsta dóm landsins hafa valist einhverjir allra bestu lögfræðingar landsins. Jeg man ekki í augnablikinu eftir öllum nöfnum, en jeg held mjer sje óhætt að segja, að það muni í raun og veru hafa verið svo.

Jeg er ekki einu sinni viss um, að það sje betra og hollara fyrir dóminn, að í honum sitji fimm menn yfir fáum málum og hafi afarlítið að gera, en megi í raun og veru ekki skifta sjer af neinu öðru, heldur en að þar sitji þrír menn, sem hafa dálítið meira að gera og sýsla þessvegna meira um málin. Jeg er ekki viss um, að það sje ekki rjett, sem sagt er um lækna, að þeir verði lakari læknar, ef þeir hafa lítið að gera, og væri þá ekki óhugsandi, að slíkt gæti einnig átt við um dómara.

Það má altaf segja, að betur sjái augu en auga. En þá kemur aftur að þessu, sem verður stöðugt álitamál, sem sje, hvort veruleg þörf sje fyrir fimm dómara. Nú getur maður sagt: fyrir 70 árum þurfti fimm menn, eftir því sem hv. flm. (SE) segir, og þá var lífið svo óskaplega einfalt, en nú svo margþætt. Sje nú þetta rjett, þá verður maður að álíta, að nú sje nauðsynlegt að hafa sjö eða fleiri. Svona getur maður altaf talað. Mjer dettur þó ekki í hug að efast um, að það sje álit hv. flm., sem hann heldur fram, þó að jeg telji mig hafa fullkomlega rjett í því, að þrír dómarar sje alveg nóg.

Hv. flm. talaði um það, hvernig farið væri að í þinginu, þegar mikil vandamál bæri að höndum, að það væri bætt við mönnum í nefndir. En það er oftast nær gert sjerstaklega af því, að nefndir fá mjög mikið að gera, svo að þær geta ekki annað öllu. En hæstirjettur hefir aldrei mikið að gera.

Að valið í rjettinn takist illa, tel jeg tæplega ástæðu til að halda, þegar rjetturinn sjálfur velur mennina. En það er í sjálfu sjer rjett, að þess mundi gæta meira í þriggja manna hóp heldur en fimm manna, ef valið mistækist. Það mun þó lítil ástæða til að óttast þetta, ef það er rjett, sem jeg sagði, að hingað til hafi tekist mæta vel að fá menn í dóminn.

Það er ekki nýtt, sem sagt hefir verið hjer, að þetta sje til þess að veikja rjettinn út á við, og þess gæti þá aðallega í viðskiftalífinu. Jeg verð að segja eins og jeg hefi altaf sagt, að þetta hefir minsta þýðingu fyrir viðskiftalífið. Jeg held, að þeir menn, sem vilja versla við okkur, geri það fyrst og fremst af hagnaðarvon fyrir sjálfa sig og hugsi ekki mikið um, hvernig dómar eru skipaðir. Jeg hefi áður tekið fram, að það var sagt hjer, þegar um það var að ræða að fá æðsta dómsvaldið inn í landið, að það mundi hafa áhrif á viskiftalífið, menn mundu síður þora að eiga við Íslendinga. Jeg held það sje óhætt að segja, að það hafi ekki reynst svo. Slíkt hefir ekki áhrif á viðskiftalífið. Og yfir höfuð horfa erlendar þjóðir lítið á það, hvernig aðrar þjóðir skipa þesskonar innanlandsmálum hjá sjer. Og jeg veit ekki einu sinni, hvort það er nokkurt atriði í þessu máli, sem sagt hefir verið um dómstigin tvö.

Málin, sem koma til hæstarjettar, eru svo fá, að altaf geta þrír menn mjög vel athugað þau, og tekið sjer nægan tíma til þess. Að formaðurinn sje kosinn af rjettinum, er í þessu sambandi í raun og veru aukaatriði. Aðalatriðið er þetta: þarf dómurinn að vera skipaður fimm mönnum, eða er það nægilegt eftir öllum ástæðum að hafa þá þrjá? Hitt er líka aukaatriði, hvort rjett sje að skipa sjerstakan hæstarjettarritara með allháum launum. Það er dálítið fjárspursmál, en snertir ekki þetta aðalatriði. En jeg verð að segja það, að ef dómarar eru fimm í dóminum, þá virðist mjer ekki óeðlilegt, að fjórir dómarar gætu skift starfinu alveg á milli sín. Ef dómarar eru þrír, þá má segja, að meiri ástæða sje til að hafa sjerstakan ritara. En af fimm mönnum, sem hafa lítið að gera, mætti í raun og veru ætlast til þessa.

Um það, að hæstirjettur sje samviska þjóðarinnar, — það má náttúrlega segja, að því leyti sem maður talar um samviskuna sem dómara mannsins. En það sannar ekkert í þessu máli, enda getur hann eins verið samviska þjóðarinnar, þótt mennirnir sjeu ekki nema þrír í rjettinum.

Jeg sje þessvegna ekki fyrir mitt leyti, að það sje nein ástæða til að breyta þessum lögum, held þau hafi verið forsvaranleg án tillits til þess, hvort þurfi að spara eða ekki. Að þessu leyti hefi jeg dálítið snúist í málinu, að jeg tel það forsvaranlegt, hvernig sem fjárhagsástæður eru, að hafa dómarana þrjá. En jeg deili alls ekki á álit þeirra manna, sem telja, að nauðsynlegt sje að hafa fimm menn í dóminum. Mjer finst það hefði verið eðlilegt að sjá nú, hvernig þetta reyndist, og síðan má athuga, hvort eigi að bæta við einu stigi eða ekki, sem margir hafa talað um. Við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti, og það má ekki byggja alt of mikið á því, þó tvö uppgangsár hafi nú komið yfir okkur. Það hefir altaf verið svo hjer á landi, að það hafa skifst á nokkur uppgangsár og mögur ár. Það eru eins og hæðir og dalir, bylgjur og bil á milli. Það er svo hjá öllum þjóðum, en tíðara hjá okkur og bylgjumagnið sterkara.

En jeg er samdóma hv. flm. (SE) um það, að væri virkilega nauðsynlegt að hafa fimm menn í hæstarjetti, þá ætti sparnaður ekki að koma til greina. En þá kem jeg enn að því, sem jeg verð að endurtaka, að hjer er um ekkert annað að deila en það, hvort þurfi fimm menn í rjettinn eða þrír megi nægja. Fyrir mjer er þetta mál svo einfalt, að alt annað er aukaatriði í þessu sambandi.

Þá býst jeg ekki við, að jeg þurfi að tala neitt frekar um málið að sinni. Hvort hv. deild vill láta málið fara til nefndar, skal jeg láta hlutlaust. Hjer eru allmargir, sem samþ. lögin 1924, og finst mjer ekkert hafa komið fram, sem líklegt sje til að breyta afstöðu þeirra.