24.04.1926
Efri deild: 58. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í C-deild Alþingistíðinda. (2606)

106. mál, hæstiréttur

Flm. (Sigurður Eggerz):

Jeg verð að segja það, að jeg varð fyrir vonbrigðum, hvernig hæstv. dómsmálaráðherra (JM) tók í málið. Jeg hafði skilið svo ástæðumar á sínum tíma, er hann bar fram frv. um fækkun dómenda, að það væri gert í sparnaðarskyni, en nú heldur hann því fram, að þetta eigi að vera framtíðarskipulag rjettarins. Hann sagði þó, að ef til vill væri það rjett, að láta lögin frá 1924 ekki koma til framkvæmda. Það álít jeg rjett, og þetta er hið eina, sem jeg get þakkað hæstv. stjórn í þessu efni.

Hæstv. forsrh. (JM) áleit rjett, að það væri ekki álitshnekkir fyrir hæstarjett, þótt dómendum væri fækkað. Bar hann þar fyrir sig ummæli erlendra manna. Jeg verð að segja það, að jeg reiði mig ekki neitt á það, sem erlendir menn segja um þetta að órannsökuðu máli. Hjer er í öðru máli komið fram álit útlendinga, en þótt það sjeu glöggir menn, vita þeir ekki, hvernig hagar til í landinu. Jeg á þar við bankamálið. En það getur ekki hafa farið fram hjá hæstv. dómsmálaráðh. (JM), að hjer í landi er það talin veiklun á hæstarjetti, er gerð var með lögum 1924. Hæstv. ráðh. (JM) var kunnur að því að vera góður dómari, og því kemur það úr hörðustu átt, að breytingin á hæstarjetti skyldi koma frá honum. Og jeg get enn eigi skilið hann öðruvísi en svo, að hann telji meira öryggi í 5 manna dómi en 3 manna, þótt hann telji 3 nægja. Þar þarf engum blöðum um að fletta, að tryggari er úrskurður 5 manna en 3.

Það þótti sjálfsagt hjer í gær hjá meiri hl. þessarar hv. deildar, að veita fje til þess að gera kvennaskólann, sem er einkaskóli og vel rekinn, að ríkisskóla. Nú þykir ófært að bæta mönnum í hæstarjett, þótt 70 ára krafa standi þar að baki.

Jeg sagði eigi í fyrri ræðu minni að lífið í landinu væri mjög margbrotið, en í samanburði við fyrri tíma er það svo. Þungamiðja atvinnulífsins hefir altaf verið sjávarútvegur og landbúnaður, en berum við þessa atvinnuvegi saman, þá sjáum við hinn feikilega mismun, sem orðið hefir. Nú eru fluttar út vörur fyrir 88 milj. króna, en árið 1853 var útflutningurinn örlítill í samanburði við þetta. Og ef lífið í öllum þess myndum, eins og það er nú, og eins og það var 1853, er borið saman, er mismunurinn stórkostlegur. En þó lítur út fyrir, að árið 1853 hafi menn haft betri skilning á því en nú, hvers virði það er að hafa rjettaröryggi í landinu.

Hæstv. forsrh. sagði, að mál fyrir hæstarjetti væri fá. Þetta getur rjett verið, en jeg hefi enga skýrslu um það. En þótt þau sjeu ekki mörg, er jafnþýðingarmikið fyrir því að fá sem bestan úrskurð. Í sjálfu sjer er ekkert því til fyrirstöðu, að einn maður gæti dæmt alla dóma í hæstarjetti, en rjettaröryggið heimtar, að einum manni sje ekki falið slíkt starf.

Þá hafði hæstv. forsrh. (JM) það eftir útlending, er hann hafði talað við, að ekkert gerði til, þótt dómarar væru aðeins 3, ef þeir væru svo vel launaðir, að bestu lögfræðingarnir fengjust. En því er ekki til að dreifa. Launin í hæstarjetti eru ekki há. (Forsrh. JM: Það eru þó engir betur launaðir nema bankastjórar!). Ef um það á að ræða, þá hygg jeg, að það sjeu dálítið hærri laun, sem bæjarfógetinn og lögreglustjórinn í Reykjavík hafa. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg sje að öfunda þá, en skýt þessu svona fram að gefnu tilefni.

Út á við hefir það afarmikla þýðingu, hvernig litið er á rjettarfarið, og má sýna það með dæmum frá öðrum löndum. Og jeg vil spyrja alla hv. þdm., hvort það muni ekki borga sig að kaupa aukið rjettaröryggi með 2 dómurum í hæstarjetti? Og þótt spurningin færi út fyrir hv. deild, út til þjóðarinnar, þá mun hún vilja meira rjettaröryggi en með 3 manna dómi. En vill þá ríkissjóður greiða laun 2 dómara til þess að fá meira rjettaröryggi? Jeg er hissa á því, að hæstv. dómsmálaráðh. (JM) skuli hugsa sig tvisvar um að mæla með þeirri litlu fjárhæð, sem hjer er um að ræða.

Jeg skal benda á eina ástæðu enn fyrir mínu máli. Ef illa tekst val á dómara, og það getur altaf komið fyrir, þá hlýtur öllum að verða ljóst, að mistök verða miklu meiri í 3 manna dómi en 5 manna. Og þetta er atriði, sem ekki má ganga fram hjá þegjandi.

Hæstv. forsrh. (JM) sagðist vilja reyna, hvernig 3 manna dómur gæfist. Jeg held, að það væri hyggilegra og meira í samræmi við það, sem á sjer stað annarsstaðar, að reyna, hvernig lögin frá 1919 gefast og 5 manna dómur. Það er háskalegt að breyta hæstarjetti, sem eigi er eldri en frá 1919. Þetta finst mjer altof mikil breytigirni, og einkum þegar það kemur frá hæstv. forsrh. (JM), aðalmanni íslenska Íhaldsflokksins. Það hefir þó altaf verið talið einn af hinum fáu kostum íhaldsins, hvar sem er, að vilja í lengstu lög reyna að halda í þetta gamla og góða. Hjer á að fara að gera breytingu á hæstarjetti, æðsta dómstóli landsins. Mjer skildist á hæstv. forsrh., að hann væri í vafa um, hvort þetta mál ætti að fara til nefndar. Þá kastar nú fyrst tólfunum, ef stórmál, eins og þetta, á ekki að fá að ganga til nefndar. Jeg get búist við, að þá yrði víða spurt um ástandið hjer á hinu háa Alþingi, ef slíku máli sem þessu væri synjað um að ganga til nefndar, og það væri ekki ástæðulaust, þar sem hjer er ekki farið fram á annað en að rjetturinn fái að haldast í þeirri mynd, sem hann var stofnaður í 1919 og er „faktiskt“ í enn.

Jeg vil leyfa mjer að vænta þess, að þetta frv. gangi ekki aðeins til nefndar, heldur gangi í gegn í þinginu, því að þá kæmi breytingin, sem gerð var 1924, ekki til framkvæmda. Ef svo færi, að þetta frv. yrði ekki samþ. hjer á Alþingi nú, þá vil jeg leyfa mjer að beina þeim tilmælum mínum til hæstv. stjórnar, að hún geri sitt til að halda rjettinum óbreyttum til næsta þings. Jeg lít svo á, að nú sje sendiherraembættið gengið í gegn hjer á Alþingi. Þó að mikið væri gert af andstæðingunum til þess að gera það mál óvinsælt hjá þjóðinni, þá var í því fólginn svo mikill kraftur, að gæta sjálfstæðis landsins út á við, að þetta mál hefir nú unnið fullnaðarsigur, ekki aðeins hjer á Alþingi, heldur líka hjá þjóðinni úti um landið. Á fundum, sem jeg hefi haldið úti um landið, hefi jeg ekki orðið var við nein andmæli á móti þessu embætti, þrátt fyrir alt það, sem gert hefir verið til að spilla fyrir málinu. Jeg geri ráð fyrir, að eins fari um hæstarjett. Jeg býst við því, ef Alþingi afgreiðir ekki þetta frv., sem hjer liggur fyrir, að þá muni koma fram ákveðin krafa frá þjóðinni um það að sjá sem best fyrir rjettarörygginu í landinu. Það er þessvegna alveg óhætt að samþ. þetta frv. nú, að það er víst, að það mundi ekki sæta mótmælum hjá þjóðinni. Enda er það víst, að í flokki sjálfrar stjórnarinnar eru margir, sem líta svo á, að sem fyrst þurfi að koma nýju skipulagi á hæstarjett.

Hv. 3. landsk. (JJ), skaut því fram, hvort það væri nokkurt augnabliksástand, sem gerði það að verkum, að jeg flytti þetta frv. nú, og get jeg svarað því, að svo er ekki. Þegar komið var fram með breytingu á hæstarjetti fyrst, var jeg forsætisráðherra, og barðist þá ákveðið á móti því, að breyta rjettinum, og jeg hefi altaf verið sannfærður um, að sú andstaða var rjettmæt. Þær kröfur eru altaf að verða háværari og það lið, sem þeim fylgir, æ fleira, að fjölga þurfi dómendum í rjettinum aftur, og þessar kröfur eru bygðar á þeirri sannfæringu, að 5 dómendur veiti meira rjettaröryggi en 3. Það hefir mátt skilja það á hv. 3. landsk. (JJ) og hans blaði, að hann væri óánægður með rjettaröryggið í landinu, og það væri bein, rökrjett afleiðing af því, að þessi hv. þm. veitti nú sína veigamiklu aðstoð til þess að koma hæstarjetti í það horf, sem hann var í 1919.

Jeg ætla svo ekki að orðlengja meira um þetta mál, en jeg fæ ekki betur sjeð en að þeir hafi sterka aðstöðu, sem vilja fjölga dómendum í rjettinum. Kostnaðarmunurinn er lítill, aðeins laun tveggja dómara, en muninn á rjettarörygginu finnur hver borgari þjóðfjelagsins, þegar hann á að sækja úrslit sinna stærstu mála fyrir þennan rjett, hæstarjett þjóðarinnar.