24.04.1926
Efri deild: 58. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í C-deild Alþingistíðinda. (2607)

106. mál, hæstiréttur

Forsætisráðherra (JM):

Háttv. 3. landsk. (JJ) beindi til mín nokkrum orðum út af því, að jeg hefði eigi framkvæmt lögin frá 1924, um fækkun dómenda í hæstarjetti. Jeg get ekki viðurkent, að jeg hafi gert neitt rangt í því, en hinsvegar get jeg vel skilið það, að þeir, sem óskuðu eftir þessum lögum í sparnaðarskyni og vilja spara á öllum sviðum, deili á mig fyrir þetta. En jeg þykist hafa rjettmæta ástæðu til þess að hafa eigi látið þessi lög koma til framkvæmda ennþá. Það kom fram brtt. við lögin um það, að þau skyldu koma til framkvæmda árið 1925, en þessi till. var feld, og þessvegna þykist jeg hafa haft heimild til þess að láta framkvæmd laganna bíða. Það var sem sje ekkert ákveðið um það, hvenær lögin skyldu koma til framkvæmda, en aftur á móti held jeg, að það hafi komið fram í þinginu, að ekki væri ástæða til þess að fara strax að biðja elsta manninn að fara úr rjettinum. — Að nokkuð hefði sparast við það, að hæstarjettarritari hefði farið frá, það er rjett. Vitanlega er ríkið ekki skyldugt til að sjá þessum góða manni fyrir öðru starfi, þó að embætti hans væri lagt niður. Það er satt, að dómstjórinn er háaldraður maður og kominn á þann aldur, að sjaldgæft er, að dómarar fái að sitja í rjetti svo gamlir. En jeg hefi þó ekki hert á honum að segja af sjer. Það er heldur ekki alveg dæmalaust, að svo gamlir menn gegni dómarastörfum. Til dæmis get jeg sagt hv. þm. það, að sonur Charles Dickens, áttræður maður, er dómari í London og situr í rjettinum á hverjum degi. Þetta er sem sagt ekki eins dæmi.

Hv. flm. (SE) spurði, hvort jeg viðurkendi ekki, að meira rjettaröryggi væri fengið með 5 dómurum en 3, en jeg sje ekki, að munurinn geti verið mjög mikill. Hv. flm. heldur þessu fram. Setjum svo, að þetta sje rjett hjá honum, að meira öryggi sje með 5 en 3, og þá væri sjálfsagt að kosta því til að bæta við. En jeg sje ekki, hversvegna hv. flm. (SE) vill ekki ganga lengra. Ef meira öryggi fæst með 5 en 3, þá er sennilegt, að það væri enn meira með 7 en 5, það er heldur ekki alveg ómögulegt fyrir ríkið að launa 7 dómara. Hv. þm. (SE) mintist á launin, en jeg staðhæfi, að við höfum bætt laun dómara mikið. Þá talaði hann um laun bæjarfógetans og lögreglustjórans í Reykjavík, en þeir hafa ekki nærri eins há laun sem dómarar í hæstarjetti eftir launalögum. (SE: En tekjurnar eru meiri.) Það er satt, að þeir hafa aukatekjur fyrir þau verk, sem fela áhættu í sjer fyrir þá sjálfa. Tekjurnar eru meiri, en launin minni. Menn segja, að það sje meiri trygging í fjöldanum, en jeg get ekki litið svo á.

Hv. flm. (SE) var hissa á því, að heyra mínar undirtektir í þessu máli. Það er þó ekki langt síðan að við áttum tal um þetta sama, á fundi hjer skamt frá, og þá var meiningamunur okkar hinn sami og hann er nú og var 1924.

Ef menn athuga nokkra dóma, t. d. hjeraðsdómaranna í Reykjavík, á undanförnum árum, þá, sem skotið hefir verið til hæstarjettar, þá sjá menn, að breytingarnar eru svo litlar, sem hæstirjettur hefir gert, að rjettarörygginu hefði verið sæmilega borgið, þó að ekki hefði verið hægt að áfrýja þessum dómum. Einn af þessum dómurum er hv. flm. (SE) sjálfur, og jeg hefi ekki tekið eftir því, að sjerstök þörf þætti á að áfrýja hans dómum. Þessir dómar eru dæmdir af einum manni, sem svo vel hafa staðist fyrir fjölmennari dómi. Þetta, að allir lögfræðingar sjeu þeirrar skoðunar, að ekki megi fækka dómendum í rjettinum, það sannar í rauninni ekki neitt. Það er aðeins eðlileg stjettartilfinning, sem þar ræður.

Hv. flm. (SE) kallar mig aðalmanninn í Íhaldsflokknum, en þann heiður á jeg ekki skilið, annars ætla jeg ekki að tala um afstöðu flokksins til þessa máls. — Jeg er enn sannfærður um það, að það má vel una við 3 dómendur í hæstarjetti. — Jeg hefi svo ekkert á móti því, að þetta mál fari til nefndar og verði athugað þar, þó að jeg álíti þess ekki þörf. Mjer datt í hug, að það væri aðeins tímatöf, en um það hirði jeg ekki að deila, fyrir mjer skiftir það mjög litlu máli, hvort þetta mál gengur til nefndar eða ekki.

Jeg ætla svo ekki að orðlengja meira um þetta að sinni, enda yrði það aðeins endurtekning. Okkur kemur hvort sem er ekki saman, hv. flm. (SE) og mjer, um aðalatriðið, sem er aðeins þetta: Þurfa að vera 5 menn í hæstarjetti eða eru 3 nóg? Þetta verður hver hv. þm. eftir kunnáttu að gera upp með sjálfum sjer.