23.03.1926
Neðri deild: 38. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í C-deild Alþingistíðinda. (2621)

81. mál, Landsbanki Íslands

Benedikt Sveinsson:

Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir nú skýrt frv. það, sem hann ber fram, frá sínu sjónarmiði, og hefir gert glögga grein fyrir því, hver skilsmunur sje á því og frv., sem meiri hl. bankanefndarinnar hefir lagt fram. Hann kvað þetta frv. sitt vera einskonar málamiðlun milli þeirra aðilja, sem hann sagði, að stæði andstæðir í þessu máli.

Hæstv. fjrh. (JÞ) drap á það, að höfuð-mótbáran gegn því, að Landsbankinn væri gerður að seðlabanka, væri sú, að sparisjóðsstarfsemi hans væri svo mikil. Benti hann einnig á það, að úr þessum annmarka vildi meiri hl. reyna að bæta, með því að hafa aðskilda bókfærslu, þótt sameiginleg væri stjórn og sameiginlegir hagsmunir beggja deildanna. En þetta þótti hæstv. fjrh. ekki nóg, og sagði, að nú væri gerð fullkomin fjárskifti milli þessara deilda, og að í staðinn fyrir það, að meiri hl. bankanefndarinnar kallaði seðlabankann seðladeild, þá hefir hann kallað hann seðlabanka, en sparisjóðinn sparisjóðsdeild, að því er mjer skildist. Með þessu er sjáanlega lögð frá hans sjónarmiði meiri áhersla á seðlaútgáfuna en sparisjóðsviðskifti. En í raun og veru finst mjer, þrátt fyrir það, þótt hæstv. fjrh. (JÞ) vilji með þessu uppfylla að nokkru leyti þær kröfur, sem alment eru gerðar utanlands, og jeg held fram í nál mínu — þá sje þetta í raun og veru ekki svo veigamikið, að það geti ráðið úrslitum hjá þeim, sem telja á annað borð óheppilegt, að seðlabanki hafi sparisjóðsfje til útlána. Því að þegar þessar tvær deildir bankastarfseminnar, seðlaútgáfan og sparisjóðurinn, eru þó undir sömu mönnum, og þrátt fyrir sjerstaka bókfærslu, og jafnvel þótt hagað sje þannig til, að gerður sje upp fjárhagurinn á tvennan hátt, þá er það í raun og veru ekkert annað en „fyrirkomulagsatriði“ innan bankans. Valdið er í sömu manna höndum, hvort sem önnur deildin heitir seðlabanki og hin sparisjóðsdeild eða seðladeild og sparisjóður. Þetta kemur í raun og veru í einn stað niður; og jeg get ekki heldur hugsað mjer, að hægt væri hvort sem er að hræra í einn graut á pappírnum starfsemi þessara deilda bankans, hvert nafn sem þeim væri gefið.

En hjer er eigi verið að deila um bókfærslu í bankanum, hversu hún er sundurgreind á sem hentugastan hátt, heldur er hitt ágreiningsefni, hvort við það sje hlítandi, að almennur viðskiftabanki, sem fer með mikið sparisjóðsfje og er samkepnisbanki, skuli fara með seðlaútgáfurjettinn.

Mönnum mun kunnugt um skrif próf. Axels Nielsens um þetta efni. Hann segir, að ríkisbankar, sem eru seðlabankar, reki aldrei sparisjóðsstarfsemi, taki ekki fje á vöxtu. Hann segir þetta vera allsherjarreglu. Og þegar menn vilja fara fram á að breyta þessari allsherjarreglu, sem sprottin er af reynslu landanna, — því að það tekur prófessorinn fram berum orðum, — en ekki orðin til fyrir fræðikenningar, þá verð jeg að halda því fram, að oss sje rjettara að styðjast við reynslu annara þjóða, en ekki óstaðfestar fræðikenningar. Fræðikenningar geta að vísu oftlega verið tryggar og áreiðanlegar, en í slíkum málum sem viðskiftum, hygg jeg tryggast að byggja á reynslunni, enda eru víst flest „viðskiftalögmál“ á henni bygð. Þessvegna hljóta að vera mjög sterkar sjerástæður fyrir hendi, ef breyta skal frá þeirri reglu, sem orðin er föst og viðurkend víða í löndum og best þykir hafa gefist.

Fyrir sakir þess, hversu Íslendingar eru fátæk og fámenn þjóð, hafa sumir menn álitið, að komast mætti af með ófullkomnara fyrirkomulag í þessum efnum hjer en á sjer stað í öðrum löndum. Og eins og fylgiskjal nál. meiri hl. ber með sjer, þá hefir einn af bankastjórum Norðurlanda, yfirbankastjóri við ríkisbankann norska, haldið því fram, að þar sem Ísland væri svo mjög á eftir tímanum í ýmsum greinum, þá mætti komast af hjer með það, sem gilti í Noregi fyrir einum eða tveimur mannsöldrum.

En jeg hygg, að þetta sje röng stefna. Vjer Íslendingar verðum að hagnýta oss eftir mætti reynslu annara þjóða, og ættum þá ekki að taka það upp, sem úrelt er fyrir löngu og illa hefir gefist. — Og þrátt fyrir það, þótt nokkrir merkir bankamenn erlendis hafi ekki með öllu þvertekið, að sú skipun seðlaútgáfunnar, sem meiri hlutinn aðhyllist, kynni að mega svo vera, þá er þó auðfundið hljóðið í þeim öllum, að þetta sje mjög annmörkum bundið og varhugavert. Þeir segja — og það er reyndar rjett — að ef menn hafi fullkomna menn til að gegna bankastjórn, þá sje ekkert að óttast. En ætli það sje ekki vafasamt, hvort Íslendingar hafi svo fullkomnar mannvjelar að ekki sje þó skylt að gera bankafyrirkomulagið svo fullkomið og örugt sem unt er með lögum. Það er að minsta kosti hæpið að byggja á slíkum fullkomleika til langframa, þótt það kynni að hittast vel á í bili.

Jeg held fast við það, að Ísland verði að haga sjer eftir því, sem reynsla annara þjóða hefir kent þeim um skipulag seðlaútgáfu og aðra bankastarfsemi, því að um seðlaútgáfu gilda hjer alveg sömu „lögmál“ sem annarsstaðar, engu að síður þó land vort sje fáment.

Eins og jeg benti á í nál., þá eru skoðanir þeirra lærðu manna, sem leitað var álits til, allmjög sundurleitar um þessi efni. Þeir taka sumir beint fram, að jafnframt því, að Landsbankinn tæki seðlaútgáfurjettinn, ætti hann að sleppa með öllu sparisjóðnum, og marga aðra agnúa nefna þeir, sem á því sje, að Landsbankinn fari með seðla-útgáfuna, svo sem brjef þeirra bera með sjer. En þær bendingar eru lítt eða ekki teknar til greina í frv. meiri hl. nje frv. hæstv. fjrh. Þó hafa ýmsir — og jafnvel þeir sömu menn, sem fela vilja Landsbankanum seðlaútgáfuna, viljað gera greininguna meiri milli sparisjóðsins og annarar starfsemi bankans en gert er í frv. meiri hl. milliþinganefndar, og haldið því fram, að stefna skuli að því. Sjest ljóslega af þessu, að þeir fallast á, að minn málstaður sje rjettur og betra að stefna að því takmarki. En þá tel jeg best að ná þessu takmarki strax, heldur en að vera að burðast með „óþarfa milliliði“, sem aðrar þjóðir eru búnar að yfirstíga fyrir löngu og engin nauðsyn virðist að hafa hjer.

Hæstv. fjrh. (JÞ) fór ekki langt út í það, sem hann heldur fram, að það væri nauðsynlegt, að seðlabankinn hefði að minsta kosti nokkur almenn bankaviðskifti og útlánsviðskifti við fleiri aðilja en banka. Rökin fyrir því voru þau, að annars hefði seðlabankinn ekki næg tök á að stjórna fjármálum landsins eins og honum sem höfuð-banka ber að gera. Og þetta komi meðal annars af því, að hann hafi ekki tækifæri til að kynnast fjárhag einstaklinganna og þjóðarinnar, af því að hann taki ekki sjálfur beinan þátt í viðskiftalífinu.

Eins og jeg tók fram í nál., hefi jeg þá bjargföstu skoðun í þessu efni, og jeg held þeir geti fallist á, sem þekkja nokkuð til viðskiftalífsins hjer á landi, að það hlýtur að vera mjög auðvelt fyrir menn, sem stjórna banka, að kynna sjer fjárhag landsins og atvinnuveganna og allra hinna helstu manna og stofnana, sem við bankann skifta. Því að starfið við seðlaútgáfuna er tiltölulega lítið að öðru leyti en einmitt því, að afla sjer þessarar þekkingar. Í því felst að afla sjer yfirlits yfir fjárhag landsins og kynna sjer undirstöðu hans, þar á meðal hag einstakra manna. Mjer er lítt skiljanlegt, að bankastjórn sjerstaks seðlabanka sje óhæfari til þessa en bankastjórn Landsbankans, sem ætlast er til að hafi á hendi sparisjóðsútlán og alla almenna bankastarfsemi. Þótt bankinn eigi viðskifti við Pjetur og Pál með víxla af ýmsum stærðum, sífelt þref um framlengingar og ótal smávægileg erindi, þá er ekki nema tímatöf að þeim viðskiftum, en truflar aðeins starfsemi þá að fá heildaryfirlit yfir viðskifti þau, sem máli skifta. En þar sem ætlast er til, að þessi seðlabanki kaupi (þ. e. taki að handveði) víxla af hinum bönkunum, þá hefir hann þar með tækifæri og tilefni til að kynna sjer hag og starfsemi þeirra, sem að þeim standa, svo langt sem nauðsyn krefur, bæði hjá heildinni og einstaklingum.

Jeg held, að þeir útlendingar, sem hafa bent á það sem skilyrði fyrir nægilegri þekking seðlabankastjórnar á viðskiftalífinu, að hún ræki einhverja almenna viðskiftastarfsemi, hafi miðað við ástandið meðal fjölmennari þjóða, þar sem viðskiftalífið er langtum margháttaðra og sundurgreindara en á Íslandi. Því að vissulega er þetta mjög einfalt hjer á landi í samanburði við önnur lönd. Hygg jeg því, að þessi mótbára, sem komið gæti til greina hjá fjölmennum þjóðum, að seðlabankinn eigi ekki gott með að fylgjast með, nema hann starfi eitthvað sjálfur að lánum til annara fyrirtækja en banka, komi alls ekki til greina hjer. Jeg þekki ýmsa fjesýslumenn hjer í Reykjavík, sem hafa átt viðskifti við kaupmenn og útgerðarmenn og bændur, og þeir vita mjög glögt um hag manna og stofnana, að minsta kosti um alt Suður- og Vesturland, þar sem þeirra viðskifti hafa aðallega verið. Þetta hefir verið mjer nokkur bending um það, að ekki væri svo ákaflega mikið kraftaverk að afla sjer góðrar þekkingar í þessa átt.

Sem sagt, bankastjórn, sem hefir aðeins seðlabanka, hefir alveg eins gott tækifæri til þess að þekkja hag og þarfir þjóðarinnar eins og þeir, sem stjórna sjerstökum útlánsbanka.

Auk þessa mætti nú fyrst og fremst giska á það, að einhverjir bankastjórar úr hinum eldri bönkum tæki við þessari starfsemi seðlabankans. Síðan væri eitt þeirra höfuðstarf að fylgjast með í öllu, sem máli skiftir, eftir því sem nauðsyn krefur, eins og jeg hefi áður tekið fram.

Þá mintist hæstv. fjrh. (JÞ) á aðra mótbáru, sem hann sagði, að bólað hefði á, að seðlabankinn, — það er að segja Landsbanki Íslands í þessu falli — gæti ekki sint almennri bankastarfsemi eins og áður. Hann kannaðist að vísu við það, að bankinn yrði að beita meiri varúð en hingað til. Það er alveg rjett. Hæstv. fjrh. sagði líka, að vitanlegt væri, að bankinn ætti hvorki meira nje minna fje til þess að lána út, hvort sem hann væri seðlabanki eða ekki. Þetta er að vísu satt. En landsbankinn verður að haga störfum sínum öðru vísi, eins og hæstv. ráðh. tók fram; þar á meðal verður hann að binda töluvert meira í verðbrjefum en áður. Og þetta dregst út úr þeim daglegu viðskiftum. En nú viðurkennir hann og flestir aðrir, að fje til almennra viðskifta og til atvinnuveganna sje of lítið, og heppilegri aðferð muni sú, að afla fjár með því að selja verðbrjef erlendis, heldur en að fá peninga þar sem bráðabirgðalán, sem altaf þarf að sarga inn á hverju einasta ári. Það er frá þessu sjónarmiði, að jeg tel varhugavert, ef nokkrar miljónir eru dregnar út úr daglegum viðskiftum. Jeg skal fullkomlega játa, að það er ærin þörf á því, að menn geti fengið lán út á eignir sínar, og að sett sje upp miklu öflugri fasteignalánsstofnun en hefir verið. Hæstv. stjórn vill bæta úr þessu með frv. um veðdeildina, sem er bráðabirgðaráðstöfun. Jeg benti á það í mínu nál., að það myndi vera hentugra að vekja af dái ríkisveðbankann og gera hann að deild, sem væri undir sömu stjórn og seðlabankinn. Þetta geri jeg beint að tillögu minni, og er hún tekin upp í frv. það, er jeg ber fram um Ríkisbanka Íslands.

Jeg hefi að vísu heyrt einstaka menn segja, að ríkisveðbanki og seðlabanki ættu ekki fremur samleið undir sömu stjórn en hver önnur bankastarfsemi, en þar er ólíku saman að jafna, hvort seðlabanki hefir almenna útlánsstarfsemi með höndum eða veðlánsstarfsemi, því að hún er bygð á alt öðrum og tryggara grundvelli, og fara þau lán eftir föstum reglum. Er ekki hætt við, að seðlabanki hleypi sjer í ógöngur með því að lána seðla til fasteignar-veðslána. Þar er ekki um neina samkepni eða varasöm fyrirtæki að ræða, en hitt getur rekið sig harkalega á, að sami bankinn sje bæði seðlabanki og reki jafnframt alla aðra almenna bankastarfsemi, með sparisjóðsfje, o. s. frv., eins og margoft hefir hefir verið fram tekið.

Hæstv. ráðh. (JÞ) kannaðist við, að töluvert fje mundi dragast úr veltunni við það að festa fjeð í veðbrjefum, og þessvegna flytti nú stjórnin frv. um nýjan einkabanka. Jeg skal vera hlyntur því, að slíkur einkabanki verði settur á stofn. Jeg veit, að hjer vantar fje, og ef nýr „prívatbanki“ kæmist á fót, mundi frelsi manna vaxa og aukast máttur til framkvæmda, og er hvorttveggja nauðsyn, því að enginn einokunarklafi má hjer eiga sjer stað. Þetta er skárra en ekkert, og jeg kann hæstv. stjórn þakkir fyrir þetta frv., en það er ekki víst, að það komist fram á þinginu, og í annan stað óvíst, hvort líkur eru til þess, að fje fáist nægilegt til stofnunar. Þetta mun hæstv. fjrh. (JÞ) geta upplýst. Þegar stofna átti „norska bankann“ um árið, vildu athafnamenn í Noregi vera í samvinnu við Íslendinga um stofnun hans, en svo versnaði hagur Norðmanna, og alt brást. Veit jeg ekki, hvort nú er auðgert að fá fje til þessa banka.

Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði í lok sinnar ræðu, að með því fyrirkomulagi, sem frv. hans gerir ráð fyrir, væri leitast við að koma bankanum í sem líkast horf og í öðrum löndum, því að í öðrum þjóðlöndum væri hvergi nema einn ríkisbanki og væri það seðlabankinn. Í þessum orðum getur jafnvel legið það, að ríkisbanki sje ekki annað en seðlabanki, enda veit jeg, að hæstv. fjrh. (JÞ) álítur best, að ríkisbanki væri aðeins seðlabanki og aðeins einn;

Því takmarki, að hann sje aðeins einn, nær hæstv. fjrh. (JÞ) með frv. sínu, en ekki hinu, að ríkisbanki sje aðeins seðlabanki.

Hæstv. ráðh. (JÞ) sagðist álíta það ótækt, að ríkin hjeldu uppi banka, er kepti við „prívatbanka“. Það álít jeg líka, það er að segja, ef hann jafnframt hefir seðlaútgáfurjett í höndum sjer, því að þá hefir hann það vopn í höndum, að hann hefir bæði tögl og hagldir í samkepninni við aðra banka. Hjer er því hæstv. ráðh. (JÞ) að setja upp það bankakerfi, er hann telur sjálfur „ótækt“. — En sjerstakur seðlabanki er enginn keppinautur hinna bankanna og hefir enga hvöt til samkepni nje síngirni á þeirra kostnað. En á hinn bóginn þyrfti Landsbankinn ekki að óttast neina ósanngirni í sinn garð frá seðlabankanum og hlutur hans því fyllilega trygður með því skipulagi. En samkepnisbankar hans vissulega öruggari að eiga viðskifti sín að sækja til hlutlauss seðlabanka. Seðlabanki, sem jafnframt er almennur samkepnisbanki, er í raun og veru tveir bankar, sem ekki geta lotið sömu stjórn. Hagsmunirnir rekast á, og það hefir óhjákvæmilega sín áhrif á stjórn bankans.

Ef menn athuga vel þessi atriði, má sjá, að í frv. hæstv. ráðh, (JÞ) er sú undiralda, að hann vill þoka þessum málum í sem fullkomnasta átt, en hann gerir það ekki.

Það er alkunna, að síðan menn fóru að ræða þetta mál alvarlega, hafa skoðanirnar breytst. Menn höfðu ekki rakið til rótar, hversu seðlaútgáfu væri best fyrir komið hjer í landi. Það er fyrst 1924, sem það efni var tekið til nokkuð rækilegrar athugunar í efri deild, og þá kom fram tillaga frá hv. 2. þm. G.-K. (BK) um sjerstaka seðlastofnun. Þessari hugmynd hefir aukist því meira fylgi sem hún hefir verið betur rædd og rannsökuð.

Mjer þótti það mjög leitt að geta ekki átt samleið með öðrum nefndarmönnum öndverðan vetur, en mjer var ekki unt að aðhyllast skoðanir þeirra, og því síður, er jeg hafði fyrir mjer álit bankastjóranna á Norðurlöndum og annara merkra manna erlendra, er ritað hafa um seðlaútgáfu. — Jeg hefi ekki orðið þess var, að málið væri flokksmál, en hinu er eigi að leyna, að mikill fjöldi manna hefir snúist á sömu sveif sem jeg, síðan ágreiningurinn varð hljóðbær. Til dæmis um það skal jeg geta þess, að í gær var hjer í bæ haldinn fjölmennur fundur meðal kaupsýslumanna um þetta mál. Þar var málið rætt af beggja hálfu, og meðal annara töluðu tveir menn úr nefndinni, báðir úr meiri hlutanum, en eftir langar umræður var samþykt tillaga, sem alveg fór í bága við tillögur meiri hlutans, og hún var samþykt í einu hljóði.

Mjer finst einsætt, að máli þessu sje vísað til fjhn., en tel þýðingarlaust að deila meira um það að svo stöddu. Það er satt, að málið kemur seint fram, og þó vona jeg, að Alþingi sýni því alúð og reyni að afgreiða það nú. Löggjöf um seðlaútgáfuna þarf að ganga sem fyrst fram, eins og hæstv. stjórn tók fram í fyrra. En hafi borið nauðsyn til þess í fyrra, að málið kæmist þá fram, má nærri geta, að svo er ekki síður nú.