23.03.1926
Neðri deild: 38. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í C-deild Alþingistíðinda. (2622)

81. mál, Landsbanki Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það er dálítið erfitt fyrir mig að eiga orðastað við hv. þm. N.-Þ. (BSv), af því að hann ræddi það frv., sem kemur seinna á dagskránni. Vildi jeg helst geyma athugasemdir mínar þangað til það mál kemur til umræðu.

Aðalástæðan til þess, að jeg er fastur á að veita Landsbankanum seðlaútgáfurjett, er sú, að enn er ekki komin fram nein tillaga um mögulega úrlausn málsins á annan hátt. Uppástunga hv. þm. N.-Þ. (BSv) er ekki möguleg úrlausn málsins. Þar sem hann vildi hnekkja þeirri mótbáru, að bankastjórnir við seðlabanka fengju ekki nægan kunnugleika til þess að haga stjórninni eins og þyrfti, er það engin höfuðástæða í mínum augum. Kunnugleikann geta þeir útvegað sjer, en stjórnir hinna bankanna geta hvenær sem er tekið af þeim ráðin, en þó svo sje, er ekki víst, að til þess komi, því að hinir geta líka verið skynsamir menn, sem sjá, hvað má og ekki má. En þetta er ekkert höfuðatriði.

Jeg læt það svo bíða síns tíma, að segja álit mitt um uppástungur hv. þm. N.-Þ. (BSv). Jeg get sagt honum, að jeg hefi ekki orðið var við neinn ágreining á milli mín og hans um hið æskilegasta framtíðartakmark á þessu sviði. Hann segir, að jeg nái ekki markinu með minni tillögu, öllu í einu. Jeg kannast við, að svo sje, en því síður næst það með hans tillögu.

Út af því, sem nú hefir verið sagt um frv., vil jeg einkum minnast á það atriði, sem hv. þm. nefndi, að nokkuð af fjármagni bankans mundi dragast úr höndum hans vegna ákvæðisins um skyldu hans til verðbrjefakaupa. Um þetta vil jeg segja í fyrsta lagi það, að það hefir verið gert of mikið úr því, hvað ákvæði frv. feli í sjer. Jeg hefi heyrt sagt, að því hafi verið slegið fram á fundi úti í bæ, að þetta þýddi það, að taka 10 miljónir króna og festa í verðbrjefum. Þetta er hreinn misskilningur. Sparisjóðurinn var 21 miljón. 1/3 þar af eru 7 miljónir og bankinn átti 3 miljónir í verðbrjefum, svo að upphæðin er 4 miljónir. En þetta ákvæði var einmitt eitt af því, sem jeg var í vafa um, hvort jeg ætti að taka upp óbreytt, því að enginn efi er á því, að þetta ákvæði í frv. meiri hl. milliþinganefndarinnar var sett sem varúðarráðstöfun gegn hættunni, að blandað verði saman sparisjóðsstarfsemi og seðlabankastarfsemi. En þá er efasamt, hvaða rjett það á lengur á sjer, þegar búið er að skilja sparisjóðinn alveg frá seðlabankanum, eins og stjfrv. gerir.

Það er svo um sparisjóðslöggjöfina, að hún gerir minni kröfur um skyldu sparisjóða til verðbrjefakaupa en annara landa löggjöf. Það er aðeins lítið brot af varasjóðnum, sem á að vera til í auðseljanlegum verðbrjefum. Sú almenna sparisjóðslöggjöf fer of skamt í þessu efni. En þegar búið er að skilja sparisjóðsstarfsemina frá seðlabankastarfseminni, og það má þegar vill setja hana undir aðrar stjórnir, eins og nú á sjer stað með veðdeildina, þá er jeg í efa um, hvort ástæða sje til þess að gera meiri kröfur til sparisjóðs Landsbankans en yfirleitt til sparisjóða í landinu í þessu efni.

Við hv. þm. N.-Þ. (BSv) erum báðir mótfallnir peningaeinokun. En okkur skilur á um það, hvað það sje, sem er fjármagnið í landinu og á hverju þungamiðja útlánsstarfseminnar byggist. Hann lítur einungis á seðlana, en þeir eru í miklum minni hluta. Nei, það er innlánsfje, sparisjóðsfje og innstæðufje á hlaupareikningi, sem um er að ræða, og þarf ekki annað en að líta á yfirlit bankanna til þess að sjá, að þetta er rjett. Innlánsfje landsmanna er miklu meira en seðlarnir, sem eru í umferð. Einokun getur komist á á einn veg, sem sje þann, að svo sje gengið frá bankalöggjöfinni, að til sje ríkisbanki, sem innstæðumenn álíti tryggara að ávaxta í fje sitt en annarsstaðar. Þetta er höfuðmótbáran á móti því, að seðlabanki reki sparisjóðsstarfsemi. Ef svo er frá gengið, að til er ríkisbanki, sem tekur við þessu fje með sömu kjörum og aðrir bankar, jafnvel sækist eftir innlánsfjenu, þá verður það til þess að draga merginn frá öllum einkapeningastofnunum í landinu, því að hvenær sem að kreppir og menn verða hræddir, þá streymir innlánsfjeð úr þeim og undir verndarvæng ríkisins. Þetta er einokun, og það er það, sem verið er að fara fram á, með því að láta ríkið taka að sjer sjerstakan seðlabanka, en halda Landsbankanum áfram sem ríkisbanka. Með þessu er smíðuð líkkista Íslandsbanka, af því að hann fær ekki innlánsfje, eða það streymir frá honum aftur. Þetta finst mjer þeir, sem halda fram, að vegna Íslandsbanka þurfi að stofna nýjan banka, eigi að athuga. Ef þessir menn vilja um leið koma fram með tillögu um að gera Landsbankann að einkastofnun, geta þeir staðið við, að þeir sjeu að skapa grundvöllinn fyrir því, að Íslandsbanki geti lifað í landinu, en slíka tillögu hefir enginn orðað ennþá, og meðan þeir gera það ekki, segi jeg, að þeir sjái ekki sjálfir afleiðingarnar af því, sem þeir eru að fara fram á. Jeg vil minna á, hvernig fór árið 1920, af því að Landsbankinn var ríkiseign, og menn litu svo á, að þeir hefðu tryggingu ríkisins á bak við sínar innstæður. Jeg álít, að sú skoðun sje röng, en þessu trúðu nú menn. Þá streymdi innlánsfjeð úr Íslandsbanka yfir í Landsbankann, og það er hætt við, að eftir uppástungu minni hlutans endurtaki þetta sig í sífellu, þangað til einkapeningastofnanirnar eru dauðar.

stjfrv. feli í sjer tvo ríkisbanka, skil jeg ekki, hvað meint er með. Það felur það í sjer, að Landsbankinn, sem nú er að talsverðu leyti seðlabanki — hann hefir að minsta kosti skyldurnar, þó að rjettindin sjeu ekki að sama skapi — verði það áfram, þ. e. a. s. helmingur hans. Sparisjóðurinn er greindur frá, en eftir verður banki, sem byrjar með svo mikið fjármagn, að honum er mögulegt að inna af hendi seðlabankaskyldurnar. Helmingur fjármagnsins, um 25 miljónir króna, færist yfir í sparisjóðsdeild, og hinum helmingnum heldur seðlabankinn. Minna en þetta hygg jeg að fjármagnið megi ekki vera, til þess að seðlabankinn geti annað því höfuðverkefni, sem nú liggur á herðum hans, en það er að taka inn í sinn reikning skuld og inneign erlendra banka, sem leiðir af rekstri gjaldeyrisverslunarinnar. Og jeg vil minna á það, að sveiflur á þessu sviði geta á skömmum tíma numið 20 miljónum króna. Síðast liðið haust mun Landsbankinn hafa átt inni erlendis um 12–14 miljónir kr., en þegar kemur fram á sumarið, er ekki ósennilegt, að hann hafi komist í skuld erlendis, sem nemi um 6–8 miljónum króna. Svona sveiflur getur engin stofnun borið, nema hún hafi úr miklu fje að spila. Jeg þarf ekki að lýsa afleiðingunum, eða hvernig muni fara, ef enginn banki er í landinu, sem hefir skyldu og bolmagn til þess að taka á móti slíkum sveiflum. Við höfum nýlega fengið að kenna á slíkum sveiflum, og hófst það ástand 1921, þegar Íslandsbanka brást bolmagn til þess að standast þær sveiflur, sem þá urðu í viðskiftalífi okkar. Þeir, sem ímynda sjer, að stofnun, sem ekki hefir annað en seðla, geti staðist miklar sveiflur, þeir hafa ekki litið á, eða gert sjer ljóst, hve mikið er hjer í húfi.

Jeg vil þó taka það fram, til þess að forðast allan misskilning, að jeg teldi það ógætilega farið, ef þegar ætti að skilja sparisjóðinn frá Landsbankanum, og svifta bankann þannig helmingi þess fjármagns, sem hann hefir umráð yfir og getur beitt til þess að standast yfirvofandi sveiflur. Því yrði að slíku horfið, býst jeg ekki við, að Landsbankinn væri fær um að taka við stórum sveiflum. Þessvegna held jeg, að rjett sje, að sparisjóðurinn sje fyrst um sinn undir sömu stjórn og seðlabankinn, til þess að tryggja getu bankans til að annast gjaldeyrisverslunina meðan gengisóvissan stendur yfir.

Jeg tek undir það, að þetta mál er ekki flokksmál, enda er það ekki svo vaxið, að það geti talist hentugt til þess að skifta flokkum, og allra síst virðist það þó til þess fallið, að stofna um það nýjan flokk, því hans dagar hljóta að verða allir, þegar málið er komið í höfn, og eftir því, sem allir eru sammála um það, að nauðsyn beri til að ráða seðlaútgáfunni sem fyrst til lykta, þá er vonandi, að takast megi áður en langt um líður að binda farsælan enda á það mál.

Út af því, sem hv. þm. N.-Þ. (BSv) sagði um nýja bankann, þá vil jeg leiðrjetta það, að allir hefðu skelt skolleyrunum við því máli. Jeg vil þó minna á það, að einmitt það frv., sem fram var borið í því efni, varð að lögum og öðlaðist konungsstaðfestingu. Að lögin hafa enn ekki komið að tilætluðum notum, er sumpart því að kenna, sem hv. þm. nefndi, og þó ekki síður hinu, að eftir á hefir það komið í ljós, að málið muni ekki hafa í upphafi verið nægilega vel undirbúið.

Jeg vil svo einungis bæta einni ástæðu við, sem mjer gleymdist að nefna áður, er jeg taldi rökin fyrir því að fela Landsbankanum að fara með seðlaútgáfuna, en hún er í mínum augum höfuðástæða og eðlileg afleiðing af því, sem á undan er gengið um þróun bankamálanna í landinu. Þegar Íslandsbanki var stofnaður, lá við borð að leggja Landsbankann niður, sem hafði þá mjög takmarkaða seðlaútgáfu. Þó var komið í veg fyrir það. Landsbankinn fjekk að lifa áfram, sem sjerstakur banki við hliðina á hinum, gagnstætt því, sem tíðkast annarsstaðar, því að hjer var það ekki ríkisbankinn, heldur einkabankinn, sem fór með seðlaútgáfuna. Nú hefir Landsbankinn þroskast og eflst á þessum árum. Velta hans hefir margfaldast, þó hann hafi orðið fyrir töpum, eins og aðrar lánsstofnanir á þessum erfiðu árum, sem á undan hafa gengið.

En úr því að nú virðist vera samkomulag um það, að taka seðlaútgáfuna af Íslandsbanka, sem haft hefir hana öll þessi ár, þá er það ekki nema eðlileg og sjálfsögð framþróun af því, sem á undan er gengið í þessum málum, að Landsbankinn fái seðlaútgáfuna og taki þá jafnhliða á sig þá skyldu, að halda uppi gjaldeyrisverslun landsins.