23.03.1926
Neðri deild: 38. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í C-deild Alþingistíðinda. (2623)

81. mál, Landsbanki Íslands

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg þarf ekki að hafa mikið ónæði af umræðunum um þetta mál að þessu sinni, því þó að frv. sje komið frá okkur meiri hl. mönnunum í bankanefndinni, þá er það nú borið fram af hæstv. stjórn og hæstv. fjrh. (JÞ) hefir mælt fyrir því. Hinsvegar mun eiga betur við að ræða um breytingar þær, sem hæstv. stjórn hefir gert við frv., þegar það kemur til 2. umr., og hygg jeg þó, að þær sjeu ekki það efnismiklar, að ástæða sje til neinna átaka út af því.

Á þessu stigi málsins vildi jeg drepa á nokkur atriði, sem komu fram í ræðu hv. þm. N.-Þ. (BSv). Hann sagði, að sitt frv. væri bygt á erlendum staðreyndum, eða eins og hann orðaði það „á raunvísindum“. Það er mjög fávíslegt að halda því fram, að bankamál sjeu raunvísindi, og sama eðlis og t. d. stjörnufræði, eðlisfræði, efnafræði eða önnur þau vísindi, sem nefnd eru „empirisk“. Þeirri mælsku er því illa varið, sem fer til þess að koma því inn hjá Íslendingum, að bankamál sjeu raunvísindi og að um þau gildi „náttúru“-lögmál. Þau eru ekki raunvísindi, heldur er bankavísindum líkt farið og t. d. þjóðhagsfræði, að þar getur verið um ýmsar leiðir að ræða, sem velja má milli, og ber þá auðvitað að kosta kapps um að velja þær, sem bestar eru. Jeg skal fúslega viðurkenna, að það getur verið um fleiri en eina færa leið að ræða í þessum efnum fyrir oss Íslendinga. Um það er nú deilt, hver leið sje heppilegust og hver sje í samræmi við þróun vorra bankamála. Á þeim grundvelli vil jeg ekki deila um þetta mál, að minni hlutinn byggi á raunvísindum, en meiri hlutinn haldi fram einhverju Eskimóafyrirkomulagi. Og frá þeirri röksemdaleiðslu ætti minni hlutinn að hverfa hið bráðasta og viðhafa sæmilega sanngirni í deilu þessari, en ekki drembilæti og hroka.

Hv. þm. N.-Þ. (BSv) fór nokkrum orðum um umsagnir hinna erlendu bankamanna, sem nefndin leitaði til, og virtist mjer sem skilja mætti af orðum hans, að við, sem tal áttum við þá, höfum ráðið öllu um það, hvernig svarið yrði. Nú vil jeg benda honum á, að þeir bankastjórar, sem nefndin leitaði til, eru engin lítilmenni, sem láta segja sjer fyrir um, hvaða ráð þeir skuli gefa. Það er litlar þakkir til þessara manna, að gera þeim upp getsakir og fullyrða, að þeir hafi hugsað annað en þeir ljetu uppi. Jeg segi, að það sjeu litlar þakkir til slíkra manna, ef þeim eru gerðar upp hugsanir eitthvað á þessa leið: „Hvað hafa þessir menn, þarna norður á hala veraldar, að gera með þau ráð, er við kunnum best í þessu efni. Við látum okkur nægja að kasta í þessa skrælingja miðaldafyrirkomulagi, sem þeim er samboðið, þó ekki sje það boðlegt siðuðum mönnum“. Ef gera á hinum erlendu bankastjórum upp slíkan hugsunarhátt, þá verð jeg að harma það, að við skyldum nokkru sinni leita til þeirra. Eins og þingtíðindin bera með sjer, þá var því haldið fram á síðasta þingi, af forvígismönnum „seðlastofnunarinnar“, að það, sem næst lægi fyrir að gera, væri einmitt að leita álits þessara seðlabankastjóra á Norðurlöndum. Nú hefir það verið gert, svo að því leyti virðist þingviljanum vera fullnægt, og hæfilegum undirbúningi undir afgreiðslu seðlaútgáfumálsins lokið. Jeg veit, að það þarf ekki að skýra það fyrir hv. þdm., að það er ekki hægt að senda menn á fund þessara erlendu bankastjóra til að segja þeim fyrir um það, hverju þeir skuli svara. Enda vill nú svo til, að við, þessir tveir úr nefndinni, sem fórum á fund þeirra, höfðum enga hugmynd um svar þeirra sumra fyr en löngu eftir heimkomu okkar. Brjef þeirra bárust okkur ekki fyr en við vorum komnir til baka úr förinni. Það er ekki hægt að komast fram hjá ummælum erlendu bankastjóranna með því að telja sjer trú um, að þeir hafi vitað betur en þeir ljetu uppi í umsögnum sínum. Jeg er sannfærður um, að þeir hafi ráðið okkur heilt og svo vel sem þeir gátu.

Það kemur að vísu fram í einu þessara brjefa, að þróun bankastarfseminnar fari í þá átt, að hjer muni seðlaútgáfan að lokum skilin frá annari starfsemi Landsbankans, eins og nú á sjer stað annarsstaðar. En er þó rjett að benda á, að enganveginn er það víst, að svo fari. Nú er það álit ýmsra bankafróðra manna á Norðurlöndum, að þróunin gangi í aðra átt. Fjöldi bankafróðra manna hefir nú eftir ófriðinn mikla komist á þá skoðun, að stækka beri starfssvið seðlabankanna, og þá einkum taka upp bein útlán til almennings og jafnvel víðtæka innlánsstarfsemi.

Í bankamálum eins og öðrum þessháttar málum er þróunin engum „náttúru“-lögmálum háð. Hún getur gengið í eina áttina í hálfa öld, en snúist svo í hina áttina næsta aldarhelming. Það geta hvenær sem er komið fram þeir agnúar, sem sníða verður stefnuna eftir, og bendir nú alt til, að seðlabankarnir muni á næstu áratugum stækka verksvið sitt og taka upp ýmsa starfsemi, sem um skeið var feld niður. Vildi jeg sjerstaklega vekja athygli á þessu vegna þess, að svo virðist sem hæstv. fjrh. (JÞ), sem annars er samherji minn í þessu máli, sje þó minni hlutanum sammála um framtíðarskipulag seðlaútgáfunnar hjer á landi, þó að hann telji ekki heppilegt að setja nú þegar á stofn hreinan seðlabanka. Er hans afstaða þó skynsamlegri, þar eð hann kýs heldur þróun en stökkbreytingu. Skiftingin í deildir, sem hæstv. stjórn leggur nokkuð meiri áherslu á en gert var í frv. milliþinganefndarinnar, gerir hægt um að aðskilja stofnanirnar, ef svo sýnist. Mun það í framtíðinni mest fara eftir skoðunum bankaráðsins og framkvæmdarstjóranna, hvað gert verður í því efni, og ættu allir að geta orðið sáttir á að fela hin endanlegu úrslit deiluefnisins í framtíðinni þessum bankafróðu mönnum, sem auðvitað munu auðveldlega geta komið fram tillögum sínum. Jeg fyrir mitt leyti er óhræddur við það, þó spá mín sje sú, að ekki verði dregið úr almennri bankastarfsemi Landsbankans, þó hann taki nú við seðlaútgáfunni.

Hv. þm. (BSv) talaði um nauðsyn á nýjum banka, og munu þar allir sammála, ef það dregur nýtt fjármagn inn í landið, og rekin er rjett gengispólitík, svo atvinnurekstur geti hjer borið sig. Ástæða er og til að ætla, að frelsi í fjármálum mundi aukast við stofnun nýs banka, sem hefði yfir nýju fjármagni að ráða. En þó að bankastarfsemi ríkisins verði skift í tvent eftir till. minni hl. fremur en að hafa hana í einu lagi eins og meiri hl. leggur til, þá er þar fyrir hvorki meira frjálsræði nje fjármagn í landinu eftir en áður. Það er barnaskapur að kalla tvískiftinguna frjálsræði, en till. meiri hl. einokun. Jeg skal ekki láta mikið yfir frjálsræðinu, sem menn nú hafa. Sæmilegt frjálsræði kemur auðvitað ekki fyr en hver maður, sem hefir góða tryggingu eða ætlar að byrja skynsamlegan atvinnurekstur, getur fengið það fje, sem hann þarf með. Því er nú ekki að fagna. Og úr þessu bætir hvorki till. meiri nje minni hl. Enda verður ekki úr þessu bætt í sambandi við ráðstöfun seðlaútgáfunnar. En það er undarlegt að heyra þá menn hrópa um einokun, nú þegar stendur til að fá Landsbankanum þann rjett, sem Íslandsbanki hefir haft um langt skeið, til seðlaútgáfu, — sem þögðu meðan Íslandsbanki hafði „einokunina“. Því annað er það ekki, sem er að gerast, en það, að Landsbankinn kemst nú í þau spor, sem Íslandsbanki stóð áður í.

Þá hjelt hv. þm. (BSv) því fram, að ekki væri æskilegt, að seðlabanki kepti við einkabankana. En þessu til hnekkis má geta þess, að Finnlandsbanki keppir í útlánum við einkabankana, og hefir á stundum nálægt helming seðla sinna í útlánum til einstakra manna og stofnana. Aðalbankastjóri Noregsbanka segir og, að útlánsviðskifti til einstakra manna og stofnana, sem hv. minni hl. mundi telja hættuleg, sje kjarninn í starfsemi Noregsbanka. Það má auðvitað vel segja, að þetta sje kepni, en þegar sú kepni er til þess eins, að gera fjeð ódýrara, fæ jeg ekki sjeð, að annað en gott eitt sje við henni að segja. Það er einmitt mikil nauðsyn á því, að hafa öflugan ríkisbanka við hlið einkabankanna, og að hann hafi rjett á að reka bein viðskifti, ef þjóðin vill hafa rjett og vald til að dreifa fjenu á atvinnuvegina og tryggja, að ómakslaun peningastofnananna verði ekki óhæfilega mikil. — Jeg hefi nú drepið á nokkur helstu atriðin í þessu máli og skal því aðeins bæta fáu við.

Jeg hafði búist við því, að hv. þm. N.-Þ. (BSv) myndi, þar sem hann leggur svo mikla áherslu á að feta í fótspor annara þjóða og elta útlendinga í öllu, leggja til, að hjer yrði stofnaður algerður seðlabanki, með rjett til útlána, þótt jeg byggist eigi við, að honum yrði ætlaður rjettur til að taka við innlánum. Þá hefði jeg búist við, að hann kæmi einnig með till. um, að Landsbankinn yrði þegar í stað gerður að hlutabanka. — Ef þetta hefði alt verið gert, gat það auðvitað gengið, og hefði verið í samræmi við rekstur seðlabanka á Norðurlöndum, en eins og nú er um þetta búið, er alls ekki farið eftir þeim útlendu fyrirmyndum, sem mest er gumað af. Útlönd hafa oft verið nefnd í þessu máli. Hv. þm. N.-Þ. (BSv) minnist oft bæði á útlönd og útlend raunvísindi og segir, að meiri hluti bankanefndarinnar byggi mikið á „autoritetstrú“. En sá er munurinn á okkar „autoritetum“ og hans, að hann vitnar aðeins óákveðið í útlönd, en við höfum ákveðna bankastjóra, við seðlabanka á Norðurlöndum, sem hafa gefið ákveðin ráð um seðlaútgáfuna. — Vil jeg heldur hafa slíka bakhjarla en hið óákveðna tal um útlönd og raunvísindi, sem hvorttveggja er aðeins ryk í augu þeirra manna, sem hvorki vita upp nje niður í þessum málum og halda, að þar komi engin innlend skynsemi nje íslensk þróun nálægt.