01.05.1926
Neðri deild: 67. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í C-deild Alþingistíðinda. (2632)

81. mál, Landsbanki Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg hefi í sjálfu sjer ástæðu til þess að vera ánægður með það, hve litlar breytingar hv. meiri hl. fjhn. vill gera á frv. Það er enn ekkert nál. komið frá hv. minni hl. fjhn. og mjer skilst svo, að hann muni eigi koma fram með neitt álit, heldur aðeins leggja á móti frv. eins og við 1. umr.

Það liggur nú hjer fyrir, við 2. umr. málsins, að athuga einstakar greinar frv. og brtt. við það. Verð jeg þá fyrst að taka til athugunar brtt. hv. meiri hl. fjhn. og skal lýsa afstöðu minni til þeirra á þessa lund:

1. brtt. er ekkert athugaverð. Það er engin efnisbreyting, en mjer finst þó, að frvgr. hefði getað staðið óbreytt.

Brtt. við 61. gr. er um það, að í stað „bankaráðs“ komi „ráðherra“. Jeg felst á, að það sje eðlilegra, að ráðherra, sem ekki er við bankann riðinn, sjái um úttektina, heldur en bankaráðið sjálft. En jeg vil leiða athygli hv. fjhn. að því, að svo sýnist, sem seinni hluti greinarinnar geti ekki staðist óbreyttur, ef þessi breyting yrði gerð á fyrri hluta hennar. Það kemur eins og skollinn úr sauðarleggnum, að segja í seinustu málsgrein, að greiða megi bankaráðsmönnum sjerstaka þóknun fyrir úttekt bankans, þegar ráðherra á að framkvæma hana.

Í 63. gr. hefir háttv. meiri hl. fjhn. fært ákvæðin um þá bankastjórn, sem nú er, í sama horf og gert var í frv. meiri hl. milliþinganefndarinnar í bankamálinu. Ástæðan til þess, að jeg breytti þeirri gr., var fyrst og fremst sú, sem í aths. við frv. segir, og jeg tel æskilegra að leggja þegar frá upphafi ábyrgðina á framkvæmdastjórn bankans á herðar einstökum manni heldur en þriggja manna jafnrjetthárra. Sýnist þetta því fremur nauðsynlegt, sem eftir frv. meiri hl. bankanefndar kemur fram að öðru leyti fult svo mikil dreifing ábyrgðar á rekstri bankans sem verið hefir, þar sem bankaráðinu var ætlað vald til þess að blanda sjer í svo að segja hvaða ráðstöfun bankastjórnarinnar sem er.

Hinsvegar er það um brtt. að segja, að jeg veit ekki, hvernig á að skilja hana. Jeg skal lýsa því, hvernig jeg skil hana, og getur þá hv. meiri hl. fjhn. leiðrjett þann skilning minn, ef hann er ekki rjettur. Það segir svo í brtt.:

„Uppsagnarákvæði 38. gr. koma eigi til framkvæmda fyr en jafnóðum sem sæti losnar í bankastjórninni.“ Nú hefir 38. gr. ýms ákvæði að geyma. Eftir henni eru bankastjórar ráðnir með gagnkvæmum 6 mánaða uppsagnarfresti. Jeg býst við, að það sje þetta ákvæði, sem átt er við í brtt. En í 38. gr. eru líka ákvæði um frávikningarvald gagnvart bankastjórum. Nú hefir landstjórnin frávikningarvald gagnvart bankastjórunum, samkv. gildandi lögum. Þetta ákvæði lætur frv. haldast, en bætir því við, að bankaráðið geti einnig vikið bankastjóra frá. Jeg skil brtt. eigi svo, að frávikningarvaldið eigi að falla niður gagnvart núverandi bankastjórum. Brtt. gerir það líklega heldur torveldara að koma framtíðarskipulaginu á stjórn bankans þegar í upphafi. Þó geri jeg ekki svo mikið úr þessu ákvæði, því að ef nauðsyn þykir að losa mann úr bankastjórninni, til að hægt sje að koma á framtíðarskipulagi, þá geri jeg ráð fyrir, að það megi takast á friðsamlegan hátt. — Þá er aðeins eftir 5. brtt. hv. fjhn. Hefi jeg ekkert að athuga við hana.

Jeg verð að segja, að jeg varð í raun og veru hissa, að hv. meiri hl. fjhn. skyldi ekki hafa meira við stjfrv. að athuga, því að stjórnin hafði nauman tíma til að ganga frá því. Að vísu eru langir kaflar teknir óbreyttir upp úr frv. meiri hl. bankanefndarinnar, en öðrum er mikið breytt. Er því líklegt, að einhversstaðar hafi slæðst inn ósamræmi. Vil jeg leggja áherslu á, að hv. meiri hl. telji ekki störfum sínum lokið, heldur athugi frv. vel til 3. umr. — Jeg vil taka það fram, að hefði nægur tími verið til undirbúnings, hefði jeg hugsað mikið um það, hvort eigi hefði að skaðlausu mátt fella burt Landsbankanefndina, og leggja hin litlu störf hennar undir Alþingi og fulltrúaráðið. Jeg hefi í raun og veru ekki getað sannfærst fullkomlega um þörfina á þessum millilið milli þings og fulltrúaráðs. En það mundi kosta mikla umsteypingu á orðalagi á löngum köflum, ef farið væri að hrófla við þessu. — Annað atriði, sem jeg vil biðja hv. nefnd að athuga, er það, hvort bankaráðinu sje ekki ætlað fullmikið vald í frv., svo að það gæti tafið fyrir framkvæmdum bankans. Því að eins og frv. nú er orðað, getur bankráðið tekið fram fyrir hendurnar á bankastjórninni í hverju máli, sem það kærir sig um. Er jeg ekki viss um, að það sje hagkvæmt. Öll orðun á valdsviði bankaráðsins er í þessu frv. komin inn á annað svið en í frv. 1924 og 1925. Get jeg fallist á, að í fyrra frv. hafi bankaráðinu verið falið heldur lítið vald, af þeim eðlilegu ástæðum, að það var samið af stjórn bankans, og var því líklegt, að þar væri reynt að styrkja framkvæmdarvaldið. En jeg er hræddur um, að hjer sje e. t. v. komið of langt í hina áttina. — Jeg vildi vekja athygli hv. meiri hl. á þessu, og biðja hann að athuga, hvort ekki má milda þetta ögn. Jeg skal raunar fúslega játa, að í framkvæmdinni mun mestu ráða um þetta, hverjar venjur myndast. — Að sinni hefi jeg þá eigi meira að segja um þetta frv., í einstökum atriðum.

Jeg mun eigi, að svo komnu, fara að ræða málið alment, nje aðrar uppástungur um fyrirkomulag seðlaútgáfunnar. Vil jeg aðeins taka tvent fram. — Jeg er ekki samdóma hv. frsm. meiri hl. (MJ) um samstarf sparisjóðs og seðlaútgáfu. Jeg hefi litið öðruvísi á það mál, og er þetta því meira aðskilið í frv. því, er jeg bar fram, en fólst í ummælum hans. — Hitt, sem jeg vildi taka fram, er það, að jeg tel það höfuðröksemd til að samþykkja þetta frv., að ekkert annað fyrirkomulag hefir verið bent á, sem unt sje að sætta sig við. Hinsvegar skal jeg játa, að slíkir möguleikar geta verið til.

Sje jeg ekki ástæður til að segja meira að svo komnu.