01.05.1926
Neðri deild: 67. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í C-deild Alþingistíðinda. (2633)

81. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Minni hl. fjhn. hefir ekki haft tækifæri á að koma fram með nál., því að hv. deild þóknaðist að skella málinu á dagskrá, áður en minni hl. hafði lokið starfi sínu. Jeg verð að telja honum það til afsökunar gagnvart meiri hl., að þar sátu tveir menn úr milliþinganefndinni um bankamál, og liggur því í augum uppi, að minni hl. átti að inna af hendi miklu meira verk og erfiðara, nú á þinginu. Hinsvegar get jeg lýst yfir því, fyrir hönd minni hl., að hann felst alveg á skoðun minni hl. milliþinganefndarinnar og getur því vísað til álits hans. Að vísu er það frv., sem hjer liggur fyrir, ögn breytt frá frv. meiri hl. milliþinganefndar, en þær breytingar skifta ekki máli. Þau eru eins í aðalatriðinu, að fela Landsbankanum seðlaútgáfuna, en á því klofnaði nefndin. — í frv. því, sem meiri hl. bankanefndarinnar skilaði af sjer, var gert ráð fyrir, að hver deild Landsbankans hefði sjerstakan reikning, en í stjfrv. er gert ráð fyrir, að fjárhagurinn verði alveg aðskilinn. Þetta álítur minni hl. fjhn. gersamlega þýðingarlaust, því að bankastjórn, sem hefir stjórn slíkra fyrirtækja, sem grípa nokkuð hvert inn í annars starfsvið, hlýtur ætíð að verða svo háð sínum eigin framkvæmdum í einni „deildinni“, að það hafi áhrif á stjórn hinna. — Minni hl. gerir yfirleitt litið úr þessari skiftingu í deildir, því að frá upphafi hefir það verið vitanlegt, að sjerstakur reikningur yrði haldinn yfir seðlaútgáfuna, þótt svo væri eigi ákveðið í lögum.

Að vísu mun ætlast til þess, að við 2. umr. snúist umræðurnar um einstök atriði frv.; en þegar ágreiningur er um höfuðatriðið, svo sem hjer er, hlýtur það að koma strax fram, enda þótt fresta mætti umr. um það til 3. umr. Vil jeg því samkv. venju gera nokkra grein fyrir skoðun minni hl. fjhn., í sambandi við ummæli hv. frsm. meiri hl. (MJ).

Það er alviðurkent, að þróun bankamála í heiminum hefir leitt til þess, að seðlabankarnir hafa orðið bankar bankanna. En það er eins og einhver ágreiningur sje um það, af hverju þetta stafar. Út af þessu er rjett að líta á sögu bankanna, og hana er hægt að rekja í fáum setningum. Í fyrstu er bankastarfsemi mjög takmörkuð, fólgin í því að vera einskonar milliliður milli þeirra, sem vilja leigja út fje, og hinna, sem vilja fá það. Síðan fara bankarnir að gefa út seðla, og eru í upphafi engar hömlur á þeirri útgáfu. En þetta reyndist stórhættulegt, og löndin lenda í hættu og kröggum út af hinni ótakmörkuðu seðlaútgáfu. Síðan er seðlunum komið í sjerstaka banka, oftast ekki nema einn í hverju landi. Þessir bankar verða síðan viðskiftamenn annara banka á eðlilegan hátt, og leiðir þróunin síðan til þess, að þeir fást eingöngu við slík viðskifti, verða bankar bankanna. Því virðist nú hafa verið haldið fram, að þetta væri eintóm tilviljun, en það sýnist einkennilegt, og það því fremur, sem þetta hefir farið eins í meginatriðum í öllum löndum, sem þroskuð fjármál hafa. Nei, þetta er engin tilviljun, heldur stafar það af því, að þetta fyrirkomulag hefir verið álitið best og tryggast. Allar aðrar skýringar eru gersamlega óskiljanlegar. — Nú er vert að aðgæta, hvort nokkuð í þróuninni hjer á landi gerir það sanngjarnt, að breytt sje frá meginreglum annara þjóða. Getum við bent á nokkra slíka þróun í íslenskum bankamálum? Jeg get ekki fallist á það, sem haldið hefir verið fram, að seðlaútgáfan hafi verið hjá Landsbankanum, áður en Íslandsbanki fjekk hana í hendur. Þessir „seðlar“, sem bankinn gaf út, voru honum fengnir sem höfuðstóll, en það voru engir vanalegir seðlar, og giltu eigi um þá þær reglur, sem gilda um almenna bankaseðla. Þegar því meiri hl. talar um þetta sem söguleg rök, þá er það ærið ljett á metunum. Þegar hjer er farið að gefa út seðla, er það falið þeim banka, sem jafnframt átti að vera aðalviðskiftabanki landsmanna. Þróunin hefir orðið sú, að flestir, ef ekki allir, eru sammála um, að þar megi seðlaútgáfan ekki lengur vera. Af hverju? Er það af því, að hann er einkabanki? Nei, ríkið hefir haft full tök á að hafa öll umráð yfir bankanum. — Er það þá af því, að svo hentugt sje að breyta til? Ekki getur það verið. Því að það sjer hver maður, að hagkvæmara er fyrir allan atvinnurekstur, að hafa seðlaútgáfuna alt af á sama stað, nema eitthvað vinnist við breytinguna. Það hlýtur alt af að skapa óvissu í fjármálunum að flytja seðlaútgáfuna úr einum banka í annan. Má í því efni vísa til sögulegrar reynslu annara þjóða. — Ástæðan er sú, og getur ekki verið önnur en sú, að það hefir ekki gefist svo vel sem menn væntu, að hafa seðlaútgáfuna þar, sem áhættuviðskifti og almenn bankastarfsemi kom henni út á hálan ís. Þetta er fyrsta ástæðan til þess, að koma varð seðlunum annarsstaðar fyrir. — Ef þetta er rjett ályktað, leiðir af því, að engin bót er að taka seðlaútgáfuna frá einni áhættustofnun og fá hana annari. Nú sýndi frsm. meiri hl. (MJ) með tölum, að Landsbankinn eykst með ári hverju og er að komast fram úr Íslandsbanka í viðskiftum. Frá því að vera miklu minni, er velta hans nú orðin fult svo mikil sem Íslandsbanka. En hvað sýnir þetta? Það eitt, að hann er að komast meira og meira inn í viðskiftin og verða ófærari til að taka að sjer seðlaútgáfuna.

Mjer virtist hv. meiri hl. hneykslast á því, að vitnað er í sögulega þróun annarsstaðar. Hv. frsm. meiri hl. (MJ) talaði um „gang málanna“, að hann hefði orðið til þess, að svona fór erlendis. En jeg og minni hl. milliþinganefndarinnar höfum sýnt fram á, að „gangur málanna“ er einmitt fram kominn fyrir reynslu manna. Jafnframt höfum við sýnt það og sannað, að það, sem best á við erlendis, er einnig hagkvæmast hjer. — Hv. meiri hl. vitnar í ummæli erlendra sjerfræðinga, því til sönnunar, að „gangur málanna“ geti orðið annar hjer en í öllum löndum öðrum. — Það er rjelt, að í orði kveðnu gera þessi ummæli ráð fyrir, að hægt sje að fela Landsbankanum seðlaútgáfuna. En það fylgir nokkur böggull skammrifi. Þessir erlendu sjerfræðingar gera kröfur til bankans, sem hvorugur hv. meiri hl. sýnir nokkurn lit á að fylgja. — Hv. frsm. meiri hl. sagði t. d., að ekki væri annað en að lækka innlánsvexti, ef svo mikið fje bærist að bankanum, að illa gengi að ávaxta það. En í frv. er ekki svo mikið sem drepið á þetta. Þvert á móti er bygt á því, að best sje að hafa sem mest innlánsfje. — Jeg skal í þessu sambandi benda á ummæli aðalbankastjóra sænska ríkisbankans. Hann segir, að óhætt sje að fela Landsbankanum seðlaútgáfuna, að því tilskildu, að að sjálfsögðu fái hann öðrum sparisjóðinn í hendur. Hv. meiri hl. er algerlega óheimilt að taka slík ummæli sem þessi sjer til inntektar, en strika alveg yfir skilyrðin. — Ef jeg geri samning við einhvern mann um að fá einhver fríðindi, gegn því að taka á mig skyldur í staðinn, get jeg þá varpað af mjer öllum þeim skyldum, sem á mjer hvíldu, en haft það eitt, er mjer gott þykir? — En þessi merki sænski bankastjóri setur svo ákveðin skilyrði fyrir umsögn sinni, að með því fyrirkomulagi, sem hv. meiri hl. stingur upp á, er hann greinilega á móti því að fela Landsbankanum seðlaútgáfuna. — En afstaða þessa bankastjóra er einna skýrust. Ummæli hinna eru loðnari, en allir slá þeir meiri og minni varnagla. — Þetta geta allir háttv. þm. sannfært sig um, ef þeir lesa álit minni hl. milliþinganefndarinnar, — eða brjefin sjálf með áliti meiri hl. — Meiri hl. nefndar þeirrar, er skipuð var í Svíþjóð fyrir nokkrum árum, til að athuga þessa hluti og gera tillögu um, hve haganlegast yrði fyrir komið bankastarfseminni þar í landi, leggur eindregið á móti því, að ríksbankinn fái víðtækan rjett til að taka við innlánum. — Þar á meðal er hinn þektasti fjármálafræðingur á Norðurlöndum, prófessor Cassel. Hann segir, eins og tekið er fram í áliti minni hl. milliþinganefndarinnar, — með leyfi hæstvirts forseta:

„Jeg er ekki aðeins á móti tillögunni um sjerstakan ríkisviðskiftabanka eða sjerstaka viðskiftadeild innan ríkisbankans, heldur og jafnmikið á móti því, að ríkisbankanum sje leyft að taka á móti innlánsfje gegn vöxtum.“

Það er dálítið einkennilegur „gangur málanna“, að meiri hl. bankanefndarinnar hjer tekur upp langa kafla úr áliti minni hl. bankanefndarinnar sænsku, en slær alveg striki yfir ummæli þessa fræga manns og alls meiri hlutans. Eins og jeg sagði áðan, hefir því hvergi verið mótmælt, — aðeins gert lítið úr hinni sögulegu þróun, — að seðlabankarnir hafi orðið bankar bankanna, og dregið sig meir og meir út úr hinum almennu viðskiftum. Vil jeg því fyrir hönd minni hl. fjhn. slá því föstu, að eins eigi hjer að vera.

Þá koma til álita þeir örðugleikar, sem á því kynnu að vera, að koma hjer upp sjerstökum seðlabanka. Hv. frsm. meiri hl. (MJ) sagði, að seðlabankar gætu ekki int af hendi þær skyldur, sem á þeim hvíldu, nema þeir væru sterkir. Þetta er auðvitað alveg rjett. En bankar geta verið sterkir á ýmsan veg. Þeir geta verið sterkir vegna mikilla viðskifta, vegna mikils eignarfjár og vegna þess, hvernig viðskifti þeir hafa. — Hjer eru nú tveir bankar. Annar á nokkurt hlutafje, en hinn auk varasjóðsins litla upphæð, sem er innskotsfje frá landssjóði. Báðir hafa bankarnir tapað miklu fje, svo að óvíst er, hve eigið fje þeirra er mikið. En það vita menn, að það er mjög lítið. Nú er farið fram á, með því frv. sem hjer liggur fyrir, að leggja Landsbankanum til 3 miljónir króna, og mætti auðvitað eins fá þær sjerstökum seðlabanka. — Ef hann fengi nú þessar 3 miljónir, þá verður styrkleikasamanburðurinn á milli hans og hinna bankanna, að því er eigið fjeð snertir, þessi: Seðlabankinn 3 milj., Landsbankinn 1–2 milj. (innskotsfje landsjóðs) og Íslandsbanki 4¼ milj. hlutafje, ef gert er ráð fyrir, að það sje óskert; svo að munurinn verður ekki svo mikill hvað þetta snertir. Hitt er rjett, að hinir bankarnir hafa ýmislegt annað fje. En mest af því eru lán, sem hvíla þungt á þeim og verða æ meiri baggi, vegna hinna háu vaxta. Báðir bankarnir hafa slík stórlán og þurfa að borga af þeim háa vexti. Er það kunnugt, að Íslandsbanki hefir því eigi getað lækkað vexti sína. — Það er ekki allur styrkur bankanna fólginn í því að hafa mikið fje til umráða, heldur er undir því komið, með hvaða kjörum það fje er fengið. En þótt við göngum inn á það, að hinir bankarnir hafi meira fje og sjeu styrkari að því leyti, þá er eftir að gæta styrkleikans á öðrum sviðum. — Aðalstyrkur seðlabankans verður í seðlaútgáfunni. Hv. meiri hl. fjhn. vill ekki gera mikið úr krafti þeim, sem seðlaútgáfunni fylgir. Skal játað, að skiftar skoðanir eru um það. Vil jeg þá aftur vísa til álits meiri hluta sænsku bankanefndarinnar. Cassel heldur, að með seðlaútgáfunni geti bankinn ráðið bókastaflega öllu í fjármálunum. — Það er rjett, sem hv. frsm. meiri hl. (MJ) tók fram, að við erum engir bankafræðingar, en við getum vitnað til bankafræðinga. Sjálfur vitnaði hann þannig með mikilli andakt í þá sjerfræðinga, sem hann hjelt að styddu hans mál. En það vill nú svo til, að við í minni hl. getum einnig vísað til fræðimanna, fyrst og fremst meiri hl. þessarar sjerfróðu sænsku nefndar, og einnig til þess, sem mest ber á í áliti fræðimanna þeirra, er skrifað hafa bankanefndinni hjer: að taka beri tillit til staðhátta. Og það eru einmitt sjerstakir staðhættir hjer, sem gera það að verkum, að valdið, sem fylgir seðlaútgáfu hjer á landi, er meira en nokkursstaðar annarsstaðar. Kemur það einkum af tvennu: Það mun varla vera í nokkuru landi, að unnið sje tiltölulega eins mikið með lánsfje eins og hjer. Bankarnir vinna að mjög miklu leyti með lánsfje, og eins er um flesta starfsemi í landinu. — Hitt atriðið er það, að hvergi eru eins miklar sveiflur í seðlaþörfinni eins og hjer. Hefir munurinn orðið alt að 100% á einu ári, ef miðað er við lágmark seðlaútgáfunnar. Það er auðsjeð, að þetta gerir það að verkum, að vald seðlabankans er ákaflega mikið, svo að hann getur með þessu haldið hinum bönkunum svo að segja í greip sinni. Það er því alveg út í bláinn, þegar talað er um, að þessir „voldugu ofjarlar“, viðskiftabankarnir, geti keyrt seðlabankann alveg í kútinn.

Það þarf raunar ekki að líta svo langt, til að sjá, hve voldugir þessir „ofjarlar“ eru, þegar þeir þurfa að sækja til annara um seðla. Jeg geri ráð fyrir, að hv. þdm. sje þetta í minni, og mun því ei fara frekar út í það. — Ef seðlabankanum væri nú fenginn 3 miljóna króna höfuðstóll, sem frv. fer fram á að veittur sje Landsbankanum, yrði hann fyllilega sambærilegur öðrum bönkum hjer að fjármagni, auk þess sem hann gæti haft alt vald á hinum bönkunum með seðlaútgáfunni. Þarf jeg ekki að þylja upp allar ástæður til þess, en læt nægja að vísa til álits meiri hluta sænsku bankanefndarinnar, og þar með Cassels. Segir hann, að með seðlaútgáfunni geti bankarnir ráðið vöxtum, hve mikið er lánað út og gengisráðstöfunum.

Af því að hv. meiri hl. hefir lagt sjerstaka áherslu á, að sjerstakur seðlabanki verði máttlaus til að forða frá gengissveiflum, skal um það farið nokkrum orðum. Jeg vil halda því fram, að Landsbankinn verði alveg magnlaus engu síður, ef hann nýtur þar ekki styrks ríkisins. Hvor þeirra, sem á að taka þetta hlutverk að sjer, verður að hafa til þess styrk ríkissjóðs og stjórnar. Hinsvegar getur seðlabankinn gegnum seðlaútgáfu sína haft áhrif á það, hve hinir bankarnir verja fje sínu, innlendis og erlendis, þannig að þeir kæmu í veg fyrir gengissveiflur, enda þótt Landsbankinn hafi meira fje, sem hann getur látið standa í bönkum erlendis, Má um þetta vísa í dæmi úr nýjustu reynslu vorri, að með valdi seðlaútgáfunnar hefir verið hægt að láta annan bankann ráðstafa lánsfje, sem hann gat fengið erlendis, eftir því sem henta þótti vegna gengisins. En ef verulega kreppu bæri að höndum, er nokkurnveginn sama, hvort hafður er sjerstakur seðlabanki, eða seðlaútgáfan er falin Landsbankanum. Þá er ekkert hægt að gera án stuðnings ríkisstjórnarinnar.

Þá er eitt atriðið, sem menn hafa haft á móti því, að fela sjerstakri stofnun að fara með seðlaútgáfuna, að hana myndi skorta kunnugleik um efnahag manna, ef hún hefði ekki bein viðskifti við almenning. Það má vera, að þetta geti verið ástæða annarsstaðar, þar sem atvinnuvegirnir eru miklu margbreyttari og fólksfjöldi meiri. En þó hafa menn ekki látið það hrella sig. En það er ljóst, að þeir örðugleikar eru margfalt minni hjer en í nokkru öðru landi. Þetta er helber hugarburður hjá háttv. nefnd. Því að þar sem viðskiftalíf og atvinnuvegir eru ekki margbrotnari en hjer, getur hver bankastjóri fylgst með, ekki aðeins því, sem gerist á næstu grösum, heldur út á ystu annes. Þetta er hvergi hægara en hjer. — Á hinn bóginn má benda á, að sje seðlaútgáfan í höndum banka, sem rækir almenn viðskifti, þá hefir hann þarna örðugri aðstöðu, ef keppinautar hans, af misskilningi eða öðrum orsökum, dylja hann um fjárhag manna, sem við þá skifta.

Þá er loks síðasta ástæðan, sem hv. meiri hl. fjhn. færir gegn sjerstökum seðlabanka. Það er, ef Landsbankinn heldur áfram að starfa sem hingað til, yrði hjer tveir ríkisbankar, og væri þá hætt við, að einkabönkum þætti verða allþröngt fyrir dyrum. Mjer er nú satt að segja alveg óskiljanlegt, hvernig hv. meiri hl. hugsar. Í mínum augum er ekki vafamál, hvort aðgengilegra sje fyrir einkabankana, að valdið sje „concentrerað“ á einum stað, eða skift niður í tvo. Enda er það í flestra augum eitt helsta atriðið á móti því að fela Landsbankanum seðlaútgáfuna, að með því verði alt valdið í einni stofnun. Verð jeg þannig að lýsa þeirri niðurstöðu, að viðbárur hv. meiri hl. eru ákaflega ljettvægar.

Þá talaði hv. frsm. meiri hl. (MJ) um það, að söguleg þróun hjer á landi stefndi öll í þá átt, að seðlarnir skyldu fara í Landsbankann. Þetta eru einhver þau undarlegustu ummæli, sem jeg hefi heyrt. Mjer er ómögulegt að skilja, hvernig þetta slagorð er fundið upp. Hver var eiginlega þessi sögulega þróun? Jú, fyrst svonefndir seðlar hjer á landi voru gefnir út af Landsbankanum! En þetta voru engir seðlar í vanalegri merkingu, heldur voru aðeins kallaðir því nafni. Auk þess voru þeir í raun og veru gefnir út af ríkissjóði, en ekki af bankanum. Síðan fær Íslandsbanki þá fyrstu raunverulegu seðlaútgáfu hjer á landi. En eftir árið 1917 er farið að ræða um, að hann láti hana af hendi til Landsbankans. En eftir 1920 fara að rísa upp mótmæli gegn því, að fá seðlaútgáfuna annari áhættustofnun. Þá eru tekin að opnast augu manna fyrir því, hve hættulegt var að blanda henni saman við þess háttar starfsemi. — Jeg get ekki gert mjer grein fyrir, hvað þeir meina með þessari „þróun“. Jeg kemst einna næst því, að þeim finnist seðlarnir vera á leiðinni úr Íslandsbanka yfir í Landsbankann, og nú einna helst svífandi í lausu lofti miðja vegu.

Hv. frsm. meiri hl. (MJ) lagði einlægt sterka áherslu á það, að það væri um að gera og mjög mikilsvert fyrir seðlabanka að hafa innlánsstarfsemi jafnhliða seðlaútgáfunni. Þarna er hv. frsm. (MJ) í berri mótsögn við alla sjerfræðinga, og er ákaflega hægur vandi að sýna það í fylgiskjölunum með áliti meiri hl. milliþinganefndarinnar í bankamálinu. Og þessi „krókur á móti bragði“, sem hann segir, að seðlabankinn gæti gert, ef hræðsla gæti gripið menn við það að eiga innlánsfje sitt hjá honum, að gefa þá út seðla til þess að fullnægja fyrirspurninni, hygg jeg, að fleirum en mjer finnist varhugaverður. Og háttv. frsm. meiri hl. (MJ) gáði ekki að því, að það eru takmörk fyrir, hve mikið má gefa út af seðlum, svo að það verður þá væntanlega ekki hægt að gera það með öðru móti en því að fá undanþágu frá þeim settu reglum um tryggingar. Eitt er það, sem er afareinkennilegt við röksemdafærslu hv. meiri hl., auk þess, sem jeg hefi talað um, það er sambandið við það, hver áhrif það hefir fyrir viðskiftalífið í landinu, ef Landsbankinn er gerður að seðlabanka og þá breytt, eins og verður að gera kröfu um þessvegna. Þá er og slegið á þann streng, að það eigi að breyta bankanum þannig, að svo og svo mikið af starfsfje hans sje sett í verðbrjef, og að það geti unnið sitt hlutverk þar. Það er mikið rjett og gott og blessað út af fyrir sig, ef við það væri þá staðið. En svo þegar talað er um það, hvað þetta geti komið viðskiftamönnunum illa, það geti valdið reglulegu fjárþroti hjá atvinnuvegunum, þá er strax farið að draga úr þessu. Þegar bent er á hættuna af því, að hafa innlánsstarfsemi í sambandi við seðlaútgáfu, þá er vísað í ákvæðið um, að 1/3 af innlánsfjenu sje í verðbrjefum, en ef þá er bent á, að það muni leiða til veltufjárskorts fyrir atvinnuvegina, þá er kúvent og talið óþarft að hafa þetta ákvæði. — En með ákvæðinu er einmitt viðurkent í frv. sjálfu, að hjer sje um einhverja hættulega braut að ræða. Jeg hefi heldur ekki skift skoðun um það, enda sje jeg ekki, að hæstv. stjórn og hv. meiri hl. ætli að gera breytingu á þessu ákv. frv., sem fer fram á það, að 1/3 hluti af innlánsfje Landsbankans sje festur í verðbrjefum, og eftir því, sem mig minnir, mun þetta nú nema um 9 miljónum, sem þannig ætti að draga út úr venjulegri viðskiftaveltu bankans, og er þó líklega helsti lágt áætlað. Jeg er hræddur um, að viðskiftalífið fyndi dálítið til þess, að 9 miljónum væri kipt þannig út, jafnvel þótt það væri þannig sett í fasteignabrjef, enda er öðrum þræði talað um að bæta það upp með því að stofna nýjan banka, og jeg skil það svo, að þegar hæstv. stjórn kom með þetta nýja frv., þá hafi það fyrst og fremst verið borið fram til þess að setja undir þann leka, og má í því sambandi vísa til þess, að þá var einmitt rætt um, að með þessari breytingu á Landsbankanum yrði of mjög þrengt að viðskiftalífinu; en við eigum eftir að sjá, hvort það tekst að stofna nýjan banka hjer. Jeg skal fúslega játa það, að ef það væri nokkurnveginn vissa fyrir því, að tök væri á að stofna hjer annan banka, álíka fjesterkan og Íslandsbanka, mundi málið horfa töluvert öðruvísi við, ekki aðeins vegna þess, að þá væri bætt úr veltufjárskerðingu þeirri, sem Landsbankinn yrði fyrir, heldur myndi þá líka verða tök á því að koma honum út úr þeim áhættuviðskiftum, sem hann nú er bundinn við, en á meðan ekki er nein vissa, jafnvel ekki nokkur von um, að slíkur banki komi, þá sje jeg ekki, að það geti talist forsvaranlegt að ætla Landsbankanum að draga mjög mikið fje út úr sinni venjulegu viðskiftaveltu, vegna þess að það er óhjákvæmilegt, eins og nú standa sakir, að Íslandsbanki verði að draga saman seglin hjá sjer, enda er það vitanlegt, að hann er þegar farinn til þess, eins og líka háttv. frsm. meiri hl. (MJ) rjettilega benti á, að hann mundi gera, en talaði jafnframt um tilsvarandi aukningu hjá Landsbankanum. Þetta sýnir sá samdráttur, sem orðinn er hjá Íslandsbanka. Hitt skilja víst fæstir, ef Landsbankinn verður að fara eins að, að þá geti verið um nokkra þróun í atvinnulífinu að ræða, því að það gæti ekki leitt til annars en reglulegrar kyrkingar á atvinnulífinu. Þetta tvent getur ekki farið saman, að Íslandsbanki minki veltufje sitt með því að láta af hendi seðlaútgáfuna, og Landsbankinn sömuleiðis takmarki útlán sín, af því að hann tekur við henni. Jeg held þessvegna, að það væri varlegra að fresta þessu máli að minsta kosti þangað til, að sjeð væri, hvort nokkur von væri um það, að hjer fengist stofnaður nýr banki.

Jeg sje ekki ástæðu til að vera að fara út í þann samanburð á fjárstyrkleika bankanna hjer og annarsstaðar á Norðurlöndum, sem hv. frsm. meiri hl. (MJ) las upp, því að jeg geri ráð fyrir, að það hafi farið nokkuð fyrir ofan garð eða neðan hjá fleiri hv. þm. en mjer, og slíkur tölulestur hefir lítil áhrif á afstöðu manna til málsins, sjerstaklega vegna þess, að það hefir verið lögð áhersla á það af sumum hv. þm., og ekki síst af hv. frsm. meiri hl. (MJ), að hjer væri svo ólíku saman að jafna að mörgu leyti. Og þó að hægt hafi verið að sýna fram á einhvern veikleika hjá sjerstökum seðlabanka, þá er líka hægt að sýna fram á stórkostlegan styrkleik í öðru, sem vegur fullkomlega upp á móti því, þó að hann standi að einhverju leyti ver að vígi heldur en seðlabankar annarsstaðar. Vil jeg þar sjerstaklega minna aftur á hinn stórkostlega mun á hámarks og lágmarks seðlaútgáfu þeirri, sem hjer er, og að bankanum er með því gefinn kostur á að taka fyrir kverkar hinna bankanna og stöðva útlán þeirra, ef honum sýnist, og áhrif hans verða því meiri sem líður á árið og atvinnureksturinn fer að lifna við, þá verður afstaða hans svo miklu sterkari en seðlabanka annara landa, þar sem sveiflurnar eru svo tiltölulega litlar og því verra að beita áhrifum af þeim. En þrátt fyrir þetta segja þeir menn, sem voru í bankanefndinni sænsku, að með seðlaútgáfunni geti bankinn fullkomlega ráðið framkomu einkabankanna.

2634

Halldór Stefánsson: Við höfum borið hjer fram hv, þm. Str. (TrÞ) og jeg, brtt. á þskj. 386, við 30. gr. frv. Það er svo ákveðið í þessari frvgr., að 1/3 hluti þess innlánsfjár með sparisjóðskjörum, sem bankinn hefir með höndum, sje haft í tryggum og auðseldum verðbrjefum, svo sem ríkisskuldabrjefum, veðdeildarbrjefum eða jarðræktarbrjefum, og í 29. gr. er talað um skuldabrjef bæjar- og sveitarfjelaga, sem trygg og auðseld brjef, svo að það má ætla, að þau sjeu einnig meðal þeirra verðbrjefa, sem 30 gr. telur meðal tryggra og auðseldra verðbrjefa. Það má nú teljast eðlilegt og rjett, að miklum hluta sparisjóðsfjár landsmanna sje ráðstafað einmitt á þennan hátt, sem hjer er gert ráð fyrir; það miðar að því að koma sparisjóðsfjenu sem tryggilegast fyrir, og ákveður að nokkru leyti verksvið þess. Kostum þessa fyrirkomulags hefir hv. frsm. meiri hl. (MJ) nokkuð lýst, og get jeg látið nægja að vísa til þess, en þá er spurningin aðeins um það, hve mikill hluti af sparisjóðsfjenu verði þannig bundinn og í hverjum tegundum lána. A-liður till. okkar miðar að því, að ákveða, að stærri hluti af sparisjóðsfjenu en ákveðið er í frv. verði bundinn í verðbrjefum, sem sje helmingur sparisjóðsfjár Landsbankans í stað 1/3. Munurinn er eins og menn skilja 1/6 hluti þess sparisjóðsfjár, sem bankinn hefir. Við álítum, að því stærri hluta, sem bankinn hefir ráðstafað þannig, því eðlilegar og tryggar sje um sparifjeð búið, og því veikari sjeu þær ástæður, sem hægt er að færa á móti því, að hafa sameiginlegan seðlabanka og sparisjóðsstarfsemi.

Það hefir nú jafnan verið svo á undanförnum tímum, að landbúnaðurinn hefir orðið nokkuð útundan með lánsfje og hætt við, að svo mundi verða framvegis, nema einhverjar ráðstafanir sjeu sjerstaklega til þess gerðar að varna því. Þetta stafar vitanlega af eðlismun atvinnuveganna, landbúnaðurinn er seinn að velta fje, og ágóðinn af honum er hægari og minni heldur en af öðrum atvinnuvegum, en fyrir því er ekki næg ástæða til að svelta þann atvinnuveg um lánsfje um skör fram. Að því miðar b-liður till. okkar, að tryggja landbúnaðinum hluta þess sparifjár, sem bankanum berst í hendur, og jafnframt er þá mismunur vaxta takmarkaður við hækkun frá innlánsvöxtum, til þess að stuðla að því, að landbúnaðurinn geti þá fengið lánsfje með þeim kjörum, sem honum eru fær eftir eðli sínu að bera.

Jeg hefi þá reynt að gera grein fyrir því, sem fyrir okkur vakir með þessari brtt., og vænti að mjer hafi tekist að gera hv. þm. það skiljanlegt, enda er þetta ekki flókið mál.