01.05.1926
Neðri deild: 67. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í C-deild Alþingistíðinda. (2637)

81. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Hæstv. fjrh. (JÞ) gat þess, að hann væri ekki samdóma mjer um það, sem jeg hafði sagt um sambandið milli seðlaútgáfu og sparisjóðsstarfsemi, og var háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ) hróðugur yfir því. Jeg met auðvitað mikils álit hæstv. fjrh. (JÞ), ef jeg veit hvert það er. En hann fór ekkert út í það, í hverju skoðanamunurinn væri, og læt jeg það þá eiga sig, og sömuleiðis ætti háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ) að bíða þangað til hann veit, hvað mikið skilur. Það getur vitanlega verið margt í fyrri ræðu minni, sem skoðanamunur er um, en útkoman verður sú sama; við erum líkrar skoðunar, þegar öllu er á botninn hvolft. Út af þessum skoðanamun vil jeg aðeins benda á, að jeg var einn af þeim, er voru í meiri hl. bankanefndarinnar, sem samdi frv. það, er fjrh. (JÞ) lagði fyrir þingið lítið breytt. Einnig var jeg í fjhn. sem hafði frv. þetta til athugunar, og einnig þar í meiri hl., sem ekki kærði sig um að gera neinar verulegar breytingar á frv. stjórnarinnar. Það getur því ekki verið neitt ýkjamikið, sem á milli ber.

Þá var hæstv. fjrh. (JÞ) ekki eins þakklátur meiri hl. nefndarinnar fyrir afgreiðslu málsins og jeg bjóst við. Jeg veit þó satt að segja ekki, hvort hægt er að veita frv. betri afgreiðslu en það, að gera á því afarlitlar breytingar og leggja til, að það verði samþykt. Enda virtist mjer það helst skyggja á ánægju hæstv. ráðherra (JÞ), að við hefðum gert of litlar breytingar á frv., og undraðist hann það, þar sem stjórnin hefði þó haft mjög nauman tíma til að athuga málið. En á það má minna, að þó að hæstv. stjórn hafi ekki mikið getað unnið að málinu, þá var það mjög mikið og vandlega undirbúið af milliþinganefnd, og sennilegt, að breytingarnar hefðu nú og orðið meiri en ekki minni, ef stjórnin hefði meira átt við frumvarp milliþinganefndarinnar. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg ætli út af fyrir sig að segja, að milliþinganefndin hefði haft betri skilyrði til þess að semja frumvarp en stjórnin. Jeg ætla engan dóm á það að leggja. En þar sem í fjárhagsnefnd eiga nú sæti 2 menn úr meiri hluta milliþinganefndarinnar, þá getur engan furðað, þó að minsta kosti þeir geri ekki fjarska margar breytingar á því frv., sem þeir hafa verið með í að semja og er ávöxtur afar mikillar vinnu af þeirra hálfu.

Annars fylgdi hæstv. fjrh. (JÞ) þeirri reglu, að halda sjer sem næst við einstakar greinir frv., eins og rjettast er við 2. umr. En menn verða að afsaka, þó að jeg hafi brugðið út af þessu, þar sem mjer fanst það aðalstarf mitt, að gera grein fyrir því, hversvegna meiri hlutinn hvarf að því ráði, að leggja með frv. stjórnarinnar. Hitt verður alt af aukaatriði í þessu máli, hversu fer um smábreytingu á einstökum greinum.

Jeg skal fallast á það, að í frv. er nokkuð mikil dreifing á valdi bankastjórnarinnar. Var þetta atriði mikið rætt í milliþinganefndinni. Virtist ekki hægt að komast fram hjá því skeri, ef gera átti bankaráðið að virkilegu bankaráði, sem fylgdist með í störfum bankastjórnar, hefði áhuga á þeim og fyndi til ábyrgðar, en ekki málamyndar yfirstjórn, afskiftalaus og sofandi, eins og oft vill verða. En til þess að mæta þessari dreifingu á stjórnarvaldinu, lögðum við svo til, að mjög mikið vald um dagleg störf bankans, og óbeinlínis einnig um alla stjórn hans, væri lagt í hendur einum manni. Hann ræður mjög miklu, ekki síst með atfylgi formanns bankaráðsins, en á hinn bóginn getur bankaráðið gripið fram í eftir ákvæðum 44. gr., sjerstaklega í i-lið, þar sem bankaráðinu er gefið vald til þess að skifta starfsfje bankans milli aðalatvinnuveganna. Og eftir a-lið sömu greinar á bankaráðið einnig að koma fram fyrir hönd bankans. Hve mikla áherslu nefndin lagði á að safna sem mestu valdi á hendur eins manns, kemur greinilega fram í ákvæðum 45. gr., þar sem formaður bankaráðsins getur gefið atkvæði aðalbankastjóra meira afl en atkvæðum beggja hinna bankastjóranna. Þetta er auðvitað mikið vald, en það er áreiðanlega holt fyrir bankann, ef valið tekst sæmilega á manni í þessa stöðu. Á hinn bóginn gefur þetta formanni bankaráðsins ennþá aukna hvöt til þess að fylgjast sem nákvæmast með öllu, er bankann varðar.

Það er rjett hjá hæstv. fjrh. (JÞ), og er jeg honum þakklátur fyrir bendinguna, að í 61. gr. verður að breytast niðurlagið, og kemur það af brtt. nefndarinnar, en hefir óvart orðið eftir. Er þetta yfirsjón, sem skrifast á eingöngu á minn reikning, en ekki nefndarinnar, því að þessi brtt. var gerð eftir að nefndin hafði farið yfir frv. En auðvitað má laga þetta til 3. umr.

Þá er það út af 38. gr., í sambandi við brtt. nefndarinnar. Jeg lít svo á, að skilningur hæstvirts ráðherra (JÞ) sje rjettur, og ákvæðið nái aðeins til uppsagnarinnar. Því að annars yrðu núverandi bankastjórar með öllu óafsegjanlegir, þegar eldri lög eru horfin úr gildi og þessi komin í staðinn. En slíka sjerstöðu var ekki meiningin að skapa þeim, heldur aðeins láta þá halda þeim rjetti, sem þeir nú hafa.

Þá vildi hæstv. ráðherra (JÞ) láta taka betur til athugunar þetta bákn, landsbankanefndina. Þetta er nú í sjálfu sjer ekki mikilvægt atriði. En landsbankanefndin er ekki eins mikið bákn og menn gætu haldið við að lesa frv. Ákvæðin um hana eru löng, en sjálft er þetta fyrirkomulag mjög einfalt og fyrirhafnarlaust. Þingið á að kjósa nefndina, og vafalítið er, að meiri hl. nefndarmanna yrði úr hópi þingmanna. Ef ársfundur væri haldinn um þingtímann, mundi ferðakostnaður svo sem enginn verða, en hann er eini kostnaðurinn við nefndina. Tilgangurinn með nefnd þessari er að komast hjá þeim snöggu sveiflum í þinginu, sem orðið geta út af pólitískum málum, og hæglega getur komið fram í vali bankaráðsmanna. En landsbankanefndin sæti eftir sem áður, því að enda þótt nefndarmenn væru kosnir af pólitískum flokkum, þá eiga þeir alls ekki að skoða sig þar sem pólitíska menn. En mjer er óhætt að segja það fyrir hönd milliþinganefndarinnar, að hún lagði ekkert sjerstaklega mikið upp úr þessu; það var í hennar augum ekkert sáluhjálparatriði fyrir bankann.

Jeg er ekkert hræddur við, að bankaráðið fái nokkurt vald. Því að ef á að hafa það, verður að fela því störf, sem neyði það til þess að fylgjast með í þessum málum, en verði ekki dula, áhugalaust og gagnslaust.

Þá kem jeg að frsm. minni hl. (JakM). Jeg hefi nú skrifað ýmislegt upp hjá mjer af því, sem hann sagði, en veit þó ekki, hve langt jeg á að fara út í það að svara honum. Honum fanst ræða mín ekki nógu frumleg, að því er mjer skildist, og hjelt hann sig þó talsvert fyrir sitt leyti að nál. minni hl. bankanefndarinnar. Það verður ætíð svo, að ræður manna hljóta að verða að nokkuð miklu leyti endurtekningar á því, sem áður hefir verið um málið sagt, t. d. endurtekningar á áliti milliþinganefndar. Jeg las það líka í einu blaði, að nál. meiri hl. fjhn. væri aðeins endurtekning af nál. bankanefndarinnar, og virtist blaðið alveg hissa á því. Það hefir kannske ekki aðgætt, að höf. nál. fjhn. er einn úr bankanefndinni, og var því eðlilegt, að hann líti svipað á málið í báðum stöðum.

Háttv. frsm. (JakM) sagði, að skiftingin í stjfrv. í deildir væri þýðingarlaus, úr því að bankastjórnin sje hin sama, af því að hún væri alt af háð aðgerðum sínum við hinar deildirnar. En þetta má eins vel nefna styrk bankans eins og veikleika. Að sumu leyti getur það verið veikleiki, en að öðru leyti aftur styrkur. Seðlabankastjórnin situr þá inni með þann aukna kraft og öruggari þekkingu, sem leiðir af stjórn viðskiftabanka, og getur lagað starfsemina eftir því, sem seðlabankanum hentar best. En náttúrlega koma hjer til greina skoðanir á sambandi seðlaútgáfu og sparisjóðsstarfs.

Það virðist vera viðurkent af öllum, að seðlabankinn þurfi að hafa þann styrk, að hann geti sveigt aðra banka eftir vilja sínum, þegar svo ber undir, og að það sje holt, að þeir hlýði ráðum seðlabankans. En auðveldast er þó fyrir seðlabankastjórnina að beygja þann banka, er hún sjálf ræður yfir. Og þekking sú og gætni, sem hún hefir eða á að hafa, kemur vitanlega best að notum við þann banka, sem hún sjálf stjórnar.

Þá sagði hann, að það væri ágreiningur um, hvort þróun seðlabankanna í það, að verða banki bankanna, væri eðlileg. En það er ekki sá ágreiningur, sem hjer hefir verið dreginn fram, heldur um hitt, hvort við erum komnir á það stig í þróuninni, að hafa slíkan seðlabanka. Þetta kemur einmitt skýrt fram í nál. Og Rygg, bankastjóri Noregsbanka, hefir sýnt greinilega fram á þetta sama, hvernig bankinn byrjar eðlilega sem beinn viðskiftabanki, en þegar fleiri bankar rísa upp, færist hann smátt og smátt í það horf, að verða banki bankanna, Og það kemur og heim við þessa skoðun mína, að Noregsbanki er mest banki bankanna í Osló, þar sem þróuninni er lengst komið, en úti um landið er hann áfram viðskiftabanki. Og meira að segja: Rygg er alls ekki sjerlega hrifinn af þessari þróun í þá átt, að gera seðlabankana að bankanna bönkum eingöngu. Það sjest af mörgum ummælum hans, og ekki síst því, að hann segist skoða beinu útlánin sem kjarnann í starfsemi bankans. Það er engin skömm að játa, að við sjeum ekki eins langt komnir í þróuninni og aðrar þjóðir. England er líklega langlengst komið í þessum efnum. Þar er ekki seðlabankinn einn banki bankanna, heldur eru í raun rjettri stóru bankarnir líka bankar bankanna, sem hinir minni bankar og víxlarar skifta við, en prívatmenn komast ekki í samband við þá alment. Svona er þróunin komin langt í Englandi. Á Norðurlöndum, Noregi, Svíþjóð og Danmörku, er hún ekki komin líkt því á þetta stig, og stytst er hún komin hjer hjá okkur. Við erum svipaðir eins og útbúin frá Noregsbanka. Hjer eru aðeins tveir bankar, og er því nokkuð hjákátlegt að tala um banka bankanna, sem aðeins skiftir við eina tvo banka! — Þessi þróun í bankamálunum er nokkuð gömul, en það er alls ekki víst, að hún sje sú eðlilegasta eða sú endanlega þróun bankamálanna. Margir hinir færustu menn í þessum efnum efast um, að heppilegt sje að hafa seðlabanka, sem ekki standi í neinu sambandi við sjálfa atvinnurekendurna. Stríðið hefir kent þetta, eins og margt annað. Og enginn af þjóðbankastjórunum taldi þetta styðjast við nein knýjandi „teóretisk“ rök.

En hvað sem öllu þessu líður, þá er það beinhörð staðreynd, að við höfum ekki notið þessarar þróunar, sem annarsstaðar hefir gert seðlabankana að banka bankanna. Þetta verða allir að játa. Hjer yrði að búa þennan bankanna banka til, skapa hann svo að segja af engu. (JakM: En því þá ekki að gera Íslandsbanka að seðlabanka?). Fyrir því eru svo margar ástæður, að óþarft er að ræða það sjer á parti. En á það nægir að minna, að Íslandsbanki, sem hefir verið seðlabanki, hefir nú árum saman hagað starfi sínu með það fyrir augum, að hann eigi að sleppa þessari starfsemi (þarf ekki annað en minna á afskifti hans af gjaldeyrisverslun undanfarandi) og mundi því vera illa til þess fallinn. Auk þess fylgja seðlaútgáfurjettinum svo margar og víðtækar skyldur, sem hafa stórkostlega þjóðfjelagslega þýðingu, að ríkjunum er alveg nauðsynlegt að hafa full yfirráð yfir seðlabönkunum, og er þá einsætt, að þar sem ríkið á annað borð á banka og rekur hann, þá láti það hann annast seðlaútgáfuna.

Háttv. þm. (JakM) sagði, að seðlaútgáfa landsbankans hefði verið svo lítil, að þetta væri í rauninni engin seðlaútgáfa. En hún var ekki svo lítil, miðuð við viðskiftin. Íslandsbanka gekk ekki fljótar að koma sínum seðlum í umferð, því að í lok ársins 1909 voru ekki nema 1 milj. kr. frá honum í umferð. — Að menn hafi viljað ná seðlaútgáfurjettinum af Íslandsbanka, af því að hann væri almennur viðskiftabanki, hefi jeg ekki heyrt fyr en í sambandi við kröfuna um sjerstakan seðlabanka. En ástæðan var ekki þessi, heldur öllu fremur löngun manna til þess að láta landsins eigin banka fara með seðlaútgáfurjettinn, því að margir litu svo á, að rjettur þessi væri svo mikil fjeþúfa, að þeir, hreint og beint, sáu eftir honum til Íslandsbanka. Þetta er auðvitað mjög völt skoðun, því að skyldurnar eru oft fjárfrekari en svo, að rjetturinn borgi. En því verður ekki neitað, að á umbrotalitlum tímum veitir seðlaútgáfurjetturinn ódýrasta starfsfjeð, sem kostur er á. Og Íslandsbanki sýnist einnig hafa litið að mestu á seðlaútgáfurjettinn sem fjárhagsleg fríðindi. En jeg vil ekki sækjast eftir seðlaútgáfurjettinum fyrir Landsbankann sem fjeþúfu. Langt frá því. Það verður dýrt spaug, að hafa hann, eins og nú er hag vorum háttað. Og jeg veit, að ekki hefir annað vakað fyrir þeim mönnum, er sæti áttu í þessum 2 nefndum. Öllum var það ljóst, að seðlaútgáfurjetturinn er ekki gróðafyrirtæki, að minsta kosti ekki á meðan landið er í gengisörðugleikum, því að honum fylgja svo margar og miklar skyldur.

Frsm. minni hl. (JakM) gat um hið mikla sparisjóðsfje bankans. En það er ákaflega langt frá því, að verið sje að ákveða, að bankinn skuli safna sem mestu til ávöxtunar, þó það sje leyft, og að minsta kosti ekki fram yfir það, sem sparisjóðsfje Landsbankans er nú. Hjer eru tvær öfgar, og milli þeirra er oft það rjetta. Sparisjóðsfje Landsbankans er víst það mesta nú, sem það mætti vera, og þó held jeg það hafi ekki vaxið upp á síðkastið. Jeg er fullkomlega á þeirri skoðun, að of mikið sparisjóðsfje sje ekki gott fyrir bankann. Einmitt þetta, að skifta bankanum og hafa sundurgreindar bókfærslur, er gert til að hægra sje að ráðstafa fje bankans, meðan sömu menn fara með stjórn alls, og svo til þess, að auðvelt verði að kljúfa sparisjóðsdeildina alveg frá seðlunum, ef þróun bankamála vorra skyldi stefna að því marki, að það væri heppilegast.

Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) vitnaði í nál. meiri hl. sænsku bankamálanefndarinnar. Jeg neita því auðvitað ekki, að það er viðurkent út um heim, að seðlabankar eigi ekki að taka fje á vöxtu, þó að það þurfi ekki að koma að sök, að þeir geri dálítið að því. Hitt þarf ekki að nefna, að það er alment álitið erlendis, þar sem bankamálum er lengra komið en hjer, að seðlabankar eigi ekki að fást við sparisjóðsstörf. Þetta vita allir, og því óþarft að draga það hjer fram.

Háttv. þm. (JakM) talaði um, að bankarnir gætu verið sterkir eða veikir á svo margvíslegan hátt, t. d. eftir því, hvort þeir ættu mikið fje sjálfir, eða færu mestmegnis með annara fje. Þetta tel jeg ekki svo mikils um vert. Það verður ekki sjeð, að það hafi mikil áhrif á starfsemi bankans, hvort hann starfar meir með sínu eigin, eða lánsfje. Eigið fje, t. d. hlutafje, er oft einmitt dýrasta fjeð, sem bankinn starfar með, svo að í sjálfum rekstrinum er það ekkert sjerlega notalegt. En auðvitað er það þó, að bankar þola betur skakkaföll, ef þeir eiga miklar eignir sjálfir og hafa minna þurft að tefla með lánsfje, og almenningur mundi trúa þeim banka betur fyrir sparifje sínu, sem hefði miklu eiginfje úr að spila, og gæti því talist áhættuminna að trúa fyrir sparifje. Aðalþýðing eigin fjár bankans, fram yfir annað starfsfje, er það, að það kemur eins og öryggiskoddi milli innlánsfjár manna og tapanna, sem bankinn getur orðið fyrir. En bankinn getur látið mikið til sín taka í viðskiftum þjóðarinnar, þrátt fyrir það, þó að hann hafi engu úr að spila nema lánsfje. Landsbankinn hafði t. d. fram að 1913 engu öðru fje til að dreifa en lánsfje. — Það er þessvegna ekkert því til fyrirstöðu, að bankinn geti orðið áhrifamikill í þjóðfjelaginu, þó að hann hafi ekki úr öðru fje en lánsfje að spila.

Jeg neita því síður en svo, að seðlaútgáfan er gott og biturt vopn í höndum bankans, en jeg tel þó eigi víst, að bankinn muni beita því eins og sagt hefir verið, að hann muni gera. Þó hann gæti t. d. lagalega sett hinum bankanum eða bönkunum, ef fleiri verða, stólinn fyrir dyrnar, og neytt þá til að hætta að halda áfram að lána rekstrarfje til togarafjelaga o. s. frv., sem þeir hafa komið af stað með án góðærið var, en nú kreppir að, er jeg ekki viss um, að bankinn geti þetta af ýmsum öðrum ástæðum. — Jeg er ekki viss um, að þetta sje gerlegt frá siðferðislegu sjónarmiði sjeð, — að taka fyrir kverkar hinna bankanna. (JakM: Er ekki eins líklegt, að hann tæki fyrir kverkar á sjálfum sjer?). Það er óþarfi að togast meira á um þetta atriði; það sjá allir, að sjerstakur seðlabanki getur verið allsterkur í sumum efnum. En hann getur ekki gert það, sem fyrst og fremst þarf að heimta af honum, og það er að tryggja gjaldeyrinn.

Háttv. frsm. minni hl. (JakM) sagði, að seðlaútgáfurjettur gæfi meira vald hjer en annarsstaðar, vegna þess, hve hin árlega seðlasveifla væri hjer mikil. Jeg skal ekki segja um það, hvort þetta er rjett eða ekki. Sveiflan stafar sem sje alls ekki af neinum auknum lánum á þessum tíma, heldur af því, að að haustinu fara fram geysimörg þau viðskifti, sem seðlar eru notaðar í, og því er meira af þeim utan bankans þá í svip. En hitt veit jeg, að reynslan hefir ekki staðfest það, að seðlaútgáfurjetturinn gefi þeim, sem hann hefir, ýkjamikið vald yfir öðrum lánsstofnunum. Allan þann tíma, sem Íslandsbanki hafði seðlaútgáfuna, mun hann aldrei hafa haft nein minstu tök á hinum bankanum. Mun það heldur hafa verið á hinn bóginn stundum, að Landsbankinn hefði undirtökin í viðskiftum sínum við Íslandsbanka. Landsbankinn hafði svo stóran sjóð, og hafði svo mikið af seðlum Íslandsbanka í höndum, að hann gat krept að Íslandsbanka.

Háttv. þm. N.-Ísf. (JÁJ) hefir sagt, að enginn banki í heimi gæti ráðið við gengissveiflur, og er það alveg satt, ef átt er við truflanir á viðskiftalífinu, sem eru nógu stórkostlegar, eins og t. d. út af heimsstríðinu. Seðlabanki getur ekki ráðið við þær að öllu leyti. En að draga af því þá ályktun, að seðlabanki geti ekkert ráðið við gengissveiflur, er sama sem að segja, að við eigum að leggja árar í bát og láta reka stjórnlaust. Það er þvert á móti alstaðar viðurkent, að sterkir bankar geti gert mjög mikið til þess að halda gjaldeyri landsins í lagi. Og þetta er yfirlýst með því, að í öllum þeim seðlabankalögum, sem jeg hefi sjeð, er þess krafist af þeim, að þeir haldi upp „valuta“ síns lands. Þetta mundi vart vera sett í lög, ef ókleift væri að gera það. En hvað þarf sá banki hjer að vera sterkur til þess, að forsvaranlegt megi heita? Því er sjálfsagt erfitt að svara með vissu. En það má þó segja, að eins og nú stendur á hjer, þarf bankinn að hafa kraft til þess að taka á móti alt að 10–20 miljónum króna í erlendum gjaldeyri, því hætti hann að kaupa, fer gjaldeyrisverslunin þegar úr höndum hans og þar með alt vald á því, sem honum ber að stjórna, sem sje gjaldeyrinum.

Jeg hefi þegar áður skýrt frá því, hvernig jeg lít á afstöðu bankanna til þessa máls. Seðlabanki hefir ekki annað í höndum en útgáfurjettinn. Þegar hann hefir notað hann til fulls, hefir hann ekki í annað hús að venda en að fá lán. En þá kemur það í ljós, að hann hefir enga aðstöðu til þess að taka slíkt lán, sem bersýnilega hlýtur að verða honum til fjárhagstjóns, vegna þess, að arðurinn af seðlaútgáfunni fer í stjórnarkostnað og slíkt. Aftur á móti mætti heimta af Landsbankanum, að hann ljeti arðinn af seðlaútgáfunni ganga til þess að hafa vald á gjaldeyrinum. Hann hefir til þess aðstöðu, því að bankareksturinn hvílir þar ekki á seðlaútgáfunni.*)

Niðurlag ræðunnar óleiðréttanlegt frá hendi skrifarans. M. J.