03.05.1926
Neðri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í C-deild Alþingistíðinda. (2643)

81. mál, Landsbanki Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Hæstv. fjrh. (JÞ) gat þess, að ekki væri lítil breyting gerð af hæstv. stjórn á frv. þessu, frá því sem milliþinganefndin hafði lagt til, með því að aðskilja nánar sparisjóðsstarfsemi frá seðlastarfsemi. Þetta er nú samt að mestu pappírsgagn, því að þegar bankinn fer að starfa, og er búinn að starfa um hríð að því, sem honum er ætlað, sem sje útlánsstarfsemi, hygg jeg, að verða muni næsta erfitt að láta hann hætta því og skilja á milli sparsjóðsstarfsemi og seðlastarfsemi. Jeg er viss um, að bankastjórnin hlýtur að „disponera“ í öllum höfuðatriðum með það fyrir augum, að bankinn hafi með höndum hvorutveggja þessa starfsemi. Það er svo, að það er mjög lítið af þeim lánum hjer á landi, sem gætu talist trygg fyrir seðlabanka, því að seðlabanki má ekki binda svo sitt fje, að hann geti ekki losað það með hæfilegum fyrirvara, og má ekki lána til áhættusamra hluta. Eina útlánsstarfsemi hans á að vera verslunarvíxlar, sem borgaðir eru á skömmum tíma og trygðir annaðhvort með útflutnings- eða innflutningsvöru. Þetta er að minsta kosti álit eins þeirra manna, sem leitað hefir verið álits hjá, og flm. frv. leggja jafnvel mest upp úr, sem sje forseta bankaráðs ríkisbankans sænska. Hann segir, að Íslandsbanki ætti að sleppa sinni seðlaútgáfu og Landsbankinn að taka við henni; Íslandsbanki ætti að fá hjá Landsbankanum sparisjóðsviðskiftin og væntanlega líka veðdeildina, en Landsbankinn að taka við verslunarvíxlaviðskiftum og útibúum. Nú er auðsjeð, að þenna mæta mann brestur þekkingu á fyrirkomulaginu hjer og heldur, að í útibúum sjeu mest rekin verslunarvíxlaviðskifti, en minna af föstum lánum. Það mun vera svo í útlöndum, eða að minsta kosti er það svo í Danmörku, að þar hafa útibú, t. d. Landmandsbankans að mestu leyti verslunarvíxlaviðskifti, en aðeins örlítinn part af öðrum lánum.

Það er mjög svo mikið lagt upp úr því, hver styrkur bankanum sje að því að vera almennur viðskiftabanki, til þess að geta haldið jafnvægi á genginu. Vera má, að bankinn hafi við það hægri aðstöðu, en aftur meira af áhættusömum útlánum. En er þá ekki hætt við, að hann líti dálítið á sinn eigin hag í þeirri áhættusömu útlánsstarfsemi og hljóti því að haga genginu eftir því? Hæstv. fjrh. (JÞ) benti á, að ef Landsbankinn hefði ekki tekið í taumana síðastliðið haust, þá hefði gengið rokið upp í gullgildi. Það má vel vera, að svo hefði farið, ef engar ráðstafanir hefðu verið gerðar og menn getað „spekulerað“ í genginu, en öðruvísi ekki. En jeg hygg, að seðlabanki hefði getað og gert alt það, sem Landsbankinn gerði. Hjer eru vanalega úti til innanlandsviðskifta 3– 4 miljónir kr. En á haustin, þegar erlendur gjaldeyrir berst að, er seðlaútgáfan aukin upp í alt að 12–14 miljónum og aldrei undir 8 miljónum. Megnið af þessari auknu útgáfu fer til þess, að kaupa erlendan gjaldeyri. Nú held jeg, að sá banki, sem fær seðlaútgáfuna, muni ekki lána öðrum bönkum seðla nema með ákveðnum skilyrðum, svo sem þeim, að þeir höguðu gjaldeyrisverslun sinni eftir því, sem hann tilskildi. Það má ekki gera ráð fyrir því, að seðlabankinn verði algerlega forsjárlaust verkfæri í höndum hinna bankanna, þótt hann hafi ekki útlánsstarfsemi með höndum.

Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að fullvíst væri, að fleiri einkabankar risu upp áður langt um liði. Það vona jeg að verði, en jeg er þess fullviss, að verði seðlaútgáfunni hagað eftir till. hv. meiri hl., tefur það til muna fyrir því, að einkabankar verði hjer stofnsettir. Það er áreiðanlegt, að þeir menn, sem hafa hug á því að koma hjer upp einkabanka, líta svo á, að það sje ekki nærri eins aðgengilegt, ef þeir þurfa að sækja seðlalán til samkepnisbanka. — Menn hafa talað mikið um það, hve seðlabankinn verði máttlaus, ef hann verður eins og gert er ráð fyrir í nál. minni hl., móts við aðra seðlabanka. Háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) sagði meðal annars í því sambandi, að Englandsbanki hefði föst tök á genginu og eins væri um Finnlandsbanka. Um Finnlandsbanka er það að segja, að hann fekk þessi föstu tök ekki fyr en búið var að stýfa finska markið í 13%. Jeg geri ráð fyrir, að seðlabankinn hjer gæti haft eins góð tök á genginu, ef menn vildu stýfa krónuna í t. d. 25 aurum eða jafnvel þótt það væri í 50 aurum. Annars dettur líklega engum í hug, að Landsbankinn verði álíka sterkur og Englandsbanki, þótt það frv. verði samþ., sem hjer liggur fyrir.

Hv. meðhaldsmenn frv. eru altaf að vitna í erlenda bankafræðinga, og er það þeirra aðalstyrkur. Jeg er nú enganveginn viss um, að þessir menn viti, hve fjármálum er háttað hjer á landi. Jeg er meira að segja sannfærður um, að þeir vita ekki það sanna, svo sem jeg sýndi fram á áðan, í sambandi við ummæli forseta sænska ríkisbankans. Hann heldur, að Landsbankinn geti tekið við verslunarvíxlaviðskiftum og afhent sparisjóðsviðskifti sín til sparisjóðanna á hverjum stað. En jeg er viss um, að þetta verður ekki framkvæmt á næstu 10 árum, varla á 20. Og verði þetta frv. samþ., á bankinn mjög erfitt með að afhenda sparisjóðinn. — En hví skyldi þessi maður vera að ráða okkur til að blanda ekki saman sparisjóðsstarfsemi og seðlaútgáfu? Ætli það sje ekki af því, að hann álítur hættulegt, að seðlabankinn hafi meira en helming af innlánsfje landsmanna. Það getur verið afsakanlegt, þótt sumir bankafróðir menn vilji leyfa seðlabankanum að hafa lítilsháttar innlánsviðskifti, en að láta hann hafa meira en helming alls sparifjár landsmanna, er áreiðanlega of langt gengið og fjarri því að vera verjandi. Skora jeg á hv. flytjendur þessa frv. að koma með ummæli eins einasta bankafróðs manns í heiminum, um að þetta sje forsvaranlegt. Það er náttúrlega hægt að segja eins og hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að við verðum að kasta öllum okkar áhyggjum upp á bankaráð og bankastjóra þá, sem hjer verða framvegis. En við eigum ekki þar fyrir að stofna til fyrirkomulags, sem gerir það ómögulegt, að bankinn ræki þær skyldur, sem hann hefir sem seðlabanki. Því að hjer er farið fram á að hnýta seðlastofnuninni aftan í aðra aðalstofnun, sem hefir það með höndum að taka við innlánsfje og ávaxta það.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) vildi halda því fram, að álit Risto Ryti bankastjóra væri, að hættulaust væri að reka innlánsstarfsemi með seðlaútgáfu. Jeg held raunar að orð þau, sem hv. þm. tilfærði, sanni, að hann álítur það ekki hættulaust. Hann segir, — með leyfi hæstv. forseta: „Samt sem áður getum vjer ekki fullyrt, að það þurfi að gera seðlabanka nokkurn skaða, þótt hann starfi jafnframt að innlánum.“ Segjum, að einhver maður kæmi til mín og bæði mig að skrifa upp á víxil fyrir sig. Svo spyr jeg kunningja minn, hvort mjer muni ekki óhætt að gera manninum þennan greiða. Kunningi minn svarar: „Jeg get ekki fullyrt, að þú þurfir að skaðast á því.“ Hvað liggur á bak við þetta svar? Er það ekki þetta: Jeg vil ekki ráðleggja þjer að gera þetta, en það getur slampast af?

Það var ýmislegt fleira, sem jeg þurfti að svara, en jeg mun hlaupa yfir mest af því, enda hefir hv. frsm. minni hl. (JakM) svarað flestu allrækilega.

Hv. frsm. meiri hl. (MJ) sagði meðal annars, að Landsbankinn gæti staðið straum af mjög mikilli inneign erlendis. Það er auðvitað, að þeir bankar, sem hafa mikið innlánsfje gegn lágum vöxtum, geta það oft. En þeir geta það því aðeins, að þeir tapi ekki svo miklu, að enginn ágóði verði á árinu. Það hefir komið fyrir og hlýtur að koma fyrir oftar, að bankarnir tapi meiru á einu ári en þeir græða. Og þá stendur þessi banki ekki betur að vígi en seðlabankinn.

Það er leiðinlegt að heyra hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) sífelt hampa því, að við viljum eyðileggja Landsbankann eða leggja hann niður. Við höldum einmitt, að Landsbankinn hætti að vera til sem hjálparhella atvinnuveganna, ef stjfrv. verður samþykt, nema því aðeins að hann ræki seðlaútgáfuna öðruvísi en vera ber.

Hv. frsm. meiri hl. (MJ) sagði, að Landsbankinn hafi verið nær búinn að steypa Íslandsbanka, þótt sá síðarnefndi hefði seðlaútgáfuna. En af hverju? Af því að Íslandsbanki stóð höllum fæti í útlána-viðskiftum sínum. Öll saga Íslandsbanka sýnir, hve hættulegt er að hafa saman almenna bankastarfsemi og seðlaútgáfu.