03.05.1926
Neðri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í C-deild Alþingistíðinda. (2645)

81. mál, Landsbanki Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Mjer þykir ekki rjett að draga það, að svara hv. þm. Str. (TrÞ), því hann beindi máli sínu til mín. Hann hjelt ræðu um mig og Cassel. Hann hefir nú haldið þessa ræðu tvisvar áður, og jeg svarað jafnóðum, og býst því við, að hv. þm. fari að læra svar mitt. Jeg hefi aðeins sagt, að lærisveinsafstaða mín til Cassels væri sú sama og afstaða landsmanna hans til hans. Þeir hafa lært af honum að skýra eðli og orsakir lággengisins og notað kenningar hans til þess að koma gjaldeyri sínum í gullverð. Jeg þarf ekki að blygðast mín neitt fyrir þá afstöðu, sem Svíar, bæði þing og þjóð, hafa tekið, og svo þegar fráfall er hjá fleiri lærisveinum, því eins og hv. þm. Str. (TrÞ) hefir lýst yfir, þá eru hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) og háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) hálf-fráfallnir Cassel. Og öfunda jeg hv. þm. Str. (TrÞ) ekkert af því, að fylgja honum í einu og öllu og leyfa sjer enga sjerskoðun. Jeg tel þetta eiginlega sem spaugsyrði hjá hv. þm. Str. (TrÞ), og má líka líta á þessi orð mín til hans frá sama sjónarmiði.

Svo kom hv. þm. Str. (TrÞ) að brtt. sínum og hv. 1. þm. N.-M. (HStef). Virtist honum mikið niðri fyrir. Var að halda kjósendaræðu og kom fram með ófagrar lýsingar á hugsunarhætti mínum gagnvart landbúnaðinum og þeim kjarki, sem jeg sýndi í því að þora að vera á móti kröfum hans. Jeg vil nú segja hv. þm. Str. (TrÞ) það, að jeg stend nær landbúnaðinum bæði að uppruna og starfi heldur en hann. Og jeg get fullvissað hann um það, að ekki verður það hans dómur, sem tekinn verður gildur, þegar þetta mál verður úrskurðað fyrir dómi sögunnar. Og það fer vel á því, að hann lýsi sjálfur sínum hug til landbúnaðarins, hins sameiginlega áhugamáls okkar, en ljeti mig svo um að lýsa mínum hug til hans.

Aðalmergurinn úr öllu, sem hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, var það, hve lánskjör Ræktunarsjóðsins væru óhagstæð. og óviðunandi. Sagði, að þessi kjör hans bæru vott um kjark minn til þess að traðka rjetti landbúnaðarins og standa móti kröfum hans. Var hv. þm. heldur gleiður yfir þessu. Ef nú verða veitt lán úr Ræktunarsjóði affallalaust með 6% vöxtum til alt að 25 ára, þá þori jeg að fullyrða, að slíkra lána er hvergi kostur annarsstaðar. (TrÞ: Í söfnunarsjóði). Það kann að vera. En hvað hefir hv. þm. Str. sjálfur lagt til þessara mála? Það vildi svo til, að hv. þm. bar fram í fyrra frv. um Ræktunarsjóð hinn nýja, og sýndi þar með sinn hug til landbúnaðarins. Þar vildi hann láta taka í lög, að vextir sjóðsins af lánum væru 6½%. Það var tillaga hv. þm. fyrir einu ári síðan. Hann gat hreinsað sig af því, að vera að traðka rjetti landbúnaðarins þá. Hann tók þetta ákvæði eftir nefnd, sem Búnaðarfjelag Íslands hafði skipað, og skoðuð var sem skipuð fulltrúum landbúnaðarins. En mín sök í þessu máli er sú, að jeg fjekk vald til þess að lækka þessa vexti, svo að landbúnaðurinn hefir nú ½% lægri vaxtakjör en hv. þm. Str. (TrÞ) vildi láta hann hafa, hefði tillaga hans náð fram að ganga. Ef ætti að hnotbítast um, hvor okkar væri meiri vinur landbúnaðarins, þá gætu menn með eins góðum rökum og hv. þm. Str. (TrÞ) skipað mjer í þann æðri sess, en honum í hinn lægri; en jeg hefi bara enga tilhneigingu til þess. Jeg veit vel, hvað hv. þm. Str. (TrÞ) skilur ekki, að vaxtakjörin er ekki á valdi þings og stjórnar að ákveða. Þau eru ákveðin af öðrum. Í framhaldi af þessu sagði hv. þm. Str. (TrÞ) svo, að það bæri vott um hugsunarhátt minn, að ekki kæmi til mála, að landbúnaðurinn fengi ¼ af sparifje bankans. Jeg sagði aðeins, að ekki mætti skylda bankann til þess að kaupa brjef, sem hafa ¼% hærri vexti en almennir innlánsvextir eru á hverjum tíma. Jeg hefi áður bent hv. flm. á, að eins og till. þeirra er, að jeg búist við því, að hún verki nokkuð öðruvísi en þeir ætlast til. Jeg hefi sýnt þeim þá góðvild að leggja inn í hana það, sem er víst meiningin hjá þeim, þó ekki sjáist, að sparisjóðsdeildin kaupi þessi brjef ákvæðisverði. En þegar stjórn sjóðsins segir þetta óframkvæmanlegt, þá er það af því, að brjefin eru ekki seljanleg. Ef bankinn má kaupa brjefin fyrir markaðsverð með afföllum, þá er allur hagur fyrir Ræktunarsjóðinn farinn af þeim. Það er óframkvæmanlegt að gera þessi brjef auðseld, úr því að þau brjef, sem brtt. stingur upp á, eiga að haldast í nafnverði. Og ber hv. þm. (TrÞ) samt brigður á, að það komi innstæðueigendum við.

Það þarf ekki að endurtaka það, að ¼% nægir ekki til þess að bera kostnaðinn og til þess að safna í varasjóð, En tapi sjóðurinn, gengur það jafnt út yfir alla innstæðueigendur. Það er ekki hægt að greina þá, sem hafa lagt innstæðufje til þessara brjefakaupa, frá öðrum innstæðueigendum. En hinsvegar þarf að hafa varasjóð til þess að innstæðurnar geti haldist óskertar. Það kemur engin önnur lífsskoðun fram í þessu en sú, sem kemur fram í sambandi við seðlabankann. Þá er ekki fyrst og fremst hugsað um sjerstakar þarfir, heldur um hitt, að stofnunin verði forsvaranlega úr garði gerð og fái viðunandi löggjöf.

Út af því, sem þessi háttv. þm. sagði alment um skifting veltufjárins milli atvinnuveganna, vil jeg benda á það, að þetta frv. gerir ráð fyrir því, að bankaráðið ákveði, ásamt framkvæmdarstjórninni, hve mikið af starfsfje bankans megi vera bundið í hverri atvinnugrein á hverjum tíma. Landsbankanefndin er kosin af Alþingi. Bankaráðið er kosið að 4/5% af bankanefndinni, en bankaráðið skipar bankastjórnina. Svo þetta vald er í raun og veru fram gengið af hinum almenna kosningarrjetti. Þingið er grundvöllurinn, sem bygt er á. Það virðist því vel mega una þessu ákvæði. Þegar samkvæmt lögum er búið að gera samning við Landsbankann um að kaupa jarðræktarbrjef fyrir 100 þúsund krónur á ári í nokkur ár, þá fer ekki vel á því, að segja eftir eitt ár, að þessu skuli hagað alt öðruvísi. Út af þessari brtt. hefi jeg beðið stjórn Landsbankans að láta uppi álit sitt, og skal jeg með leyfi hæstv. forseta, lesa svar hennar, sem jeg fjekk í dag. Það hljóðar svona:

„Út af brtt. á þskj. 386, við frv. til laga um Landsbanka Íslands, leyfum vjer oss að vekja athygli yðar, hæstvirti fjármálaráðherra, á því, að nái brtt. þessi fram að ganga, eru lagðar þær hömlur á innlánsstarfsemina, sem óhjákvæmilega hafa í för með sjer algerða lömun á innlánsstarfsemi bankans og geta á engan hátt samrýmst tilgangi laganna um að innlánsfjeð verði tæki í höndum bankans til þess að rækja seðlabankastarfsemina.“

Jeg ætla ekki að fjölyrða frekar um þessa till. Hv. þm. Str. (TrÞ) má hrópa út á kjósendafundum svo mikið sem honum þykir henta, vegna kosninga þeirra, sem nú fara í hönd, hver sje minn hugsunarháttur í þessu máli. Honum er það ekki of gott, ef hann finnur ekkert betra til stuðnings þeirri atvinnugrein, sem hann þykist bera fyrir brjósti, en rægja og ófrægja þá menn, sem með mestu ánægju vildu vera samverkamenn hans í hverju nýtu starfi á þessu sviði.