03.05.1926
Neðri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í C-deild Alþingistíðinda. (2649)

81. mál, Landsbanki Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Það eru aðeins örfá orð, sem jeg ætla að segja.

Hæstv. fjrh. (JÞ) sýndi mjer nú sem oftar þann sóma, að spretta upp úr sæti sínu og beina til mín nokkrum orðum. Jeg hafði satt að segja búist við meiru, en jeg ætla mjer ekki að fara út í neina snerru, þó að mikið beri á milli, því að það eru mjög ólíkar leiðir, sem við hæstv. fjrh. (JÞ) viljum fara í þessu máli. Það er öllum ljóst, hvað á milli ber, og jeg get því sætt mig við að láta atkv. skera úr um till. mína og hv. 1. þm. N.-M. (HStef). Og falli till. nú, mun okkur gefast kostur á því við 3. umr. að koma henni aftur á framfæri í einhverri mynd.

Út af ræðu minni komst hæstv. fjrh. (JÞ) inn á ýmislegt, svo sem vaxtakjör og Ræktunarsjóðinn, og sagði, að jeg hefði viljað með frv. í fyrra, að bændur greiddu 6½% vexti. Jeg bar það frv. þá fram fyrir aðra, er vildu afla Ræktunarsjóðnum mikils fjár, enda þótt jeg væri sjálfur ekki sammála öllu því, er í frv. stóð. Hæstv. fjrh. (JÞ) vill nú láta líta svo út, sem það sje sjer að þakka, að vextirnir í Ræktunarsjóðnum eru 6%. Sannleikurinn er sá, að það hefir tekist að koma vöxtunum þannig niður, þrátt fyrir mótspyrnu hæstv. fjrh. (JÞ). Aðalástæðan til þess, að vextirnir gátu orðið þetta lágir, var sú, að sjóðnum var útvegað fjármagn, þrátt fyrir mótstöðu hæstv. fjrh. (JÞ). Og jeg varð að berjast við hæstv. ráðh. (JÞ) til þess að fá þetta fjármagn.

Þá er það, hvernig hann túlkaði brtt. okkar. Ef orðalag hennar er eigi nógu skýrt, má laga það til 3. umr. Hæstv. fjrh. (JÞ) hjelt því fram, að þessi er við viljum að vaxtamunur sje, muni eigi nægja til þess að mynda varasjóð. En þess hefir hann ekki gætt, að reksturskostnaður verður sama sem enginn, og þessi ¼% nægir til þess að standast þau töp, sem engin verða.

Hæstv. ráðh. (JÞ) benti á, að það sje ráð fyrir því gert í frv., hvernig fjenu skuli skift. Jeg hefi fyrir mitt leyti enga trú á þeim mönnum, er peningastofnununum ráða, að frá þeim komi neinn skilningur á lánsþörf landbúnaðarins. Þar treysti jeg Alþingi betur. Í hittifyrra bar jeg fram frv. um búnaðarlánadeild. Móti því barðist hæstv. fjrh. (JÞ) með hnúum og hnefum. En þá var það þingið, sem skildi afstöðu bænda, og þrátt fyrir andmæli hæstv. ráðh. (JÞ) fengust þá betri lánakjör fyrir landbúnaðinn. Og í framtíðinni verðum við að beina meira fjármagni til landbúnaðarins, enda þótt það þrengi eitthvað að kaupstaðabúum.

Hv. frsm. meiri og minni hl. töluðu báðir um það, er jeg vjek að þeim um þetta efni, og það verð jeg að segja, að undirtektir þeirra voru ólíkar. Þó skildist mjer svo, sem hvorugur hefði þar umboð til þess að tala fyrir nefndarinnar hönd, heldur hafi þeir talað frá eigin brjósti.

Mjer fanst hv. frsm. meiri hl. (MJ) taka þessu mjög fjarri, og get jeg þar með sett hann á bekk með hæstv. fjrh. (JÞ). Hann sagði, að þessu tvennu, seðlaútgáfu og landbúnaðarlánum, mætti ekki blanda saman, en varð þó að viðurkenna, að svo væri gert í frv. sjálfu. Jeg vil blanda þessu tvennu saman, því að landbúnaðurinn fær ekki það veltufje, er hann þarf á að halda nú. Og jeg mun grípa hvert tækifæri, sem gefst, til þess að bæta úr því, og fái jeg það tækifæri við afgreiðslu þessa máls, þá vil jeg ekki sleppa því, enda er að sjálfsögðu eðlilegast, að Landsbankinn bjargi lanbúnaðinum.

Hv. frsm. minni hl. (JakM) tók mun betur undir þetta. Hann sagði, að nefndin hefði ekki gert sjer glöggva grein fyrir þessu, en mjer skildist á honum, að hann gæti hugsað sjer, að þessu mætti koma við í sambandi við seðlatryggingar. En það kom ekki ljóst fram, hvernig hann hefir hugsað sjer þetta, og þess vegna óska jeg þess, að hann „formuleri“ þetta nánar. Það er stór munur á því fyrir mig, hvort jeg heyri aðeins þessi orð, eða jeg fæ að sjá það svart á hvítu í till. formi, hvernig hann hefir hugsað sjer þetta.

Hv. 2. þm. Árn. (JörB) talaði um brtt. okkar á þskj. 469, þar sem við viljum halda því skipulagi, sem nú er, að opinberir sjóðir skuli geymdir í Landsbankanum. Með leyfi hæstv. forseta vil jeg lesa hjer upp brtt. Hún er svo:

„Allar opinberar stofnanir og opinberir sjóðir, er hafa handbært fje á sjóðvöxtum, skulu geyma það í Landsbankanum eða útibúum hans, nema sjerstakar ástæður banni, svo sem staðhættir. Sama er um ríkisfje og embættisfje, er opinberir starfsmenn hafa undir höndum.

Ákvæði greinar þessarar taka ekki til Söfnunarsjóðs Íslands, nema að því leyti, sem hann hefir handbært fje á sjóðvöxtum. Sparisjóðir skulu halda rjettindum þeim, er þeir hafa samkvæmt lögum nr. 44, 3. nóv. 1915, um sparisjóði.“

Jeg var satt að segja meira en lítið hissa á því, að hv. fjhn. skyldi eigi geta fallist á þetta skipulag og fella það niður úr gildandi lögum, og enn meir forviða var jeg þó, er hv. frsm. meiri hl. hennar (MJ) lagðist sjerstaklega á móti þessu. Fyrir mitt leyti get jeg ekki viðurkent nein af rökum hans. Hann gaf í skyn, að ríkissjóður hefði átt í harki með að ná fje út úr Landsbankanum. Jeg er hissa á því, að hæstv. fjrh. (JÞ) skyldi ekki ávíta hv. þm. (MJ) fyrir þessi ummæli. (Fjrh. JÞ: Jeg man ekki til þess, að jeg hafi tekið til máls, síðan þetta var sagt). Þá skyldi það gleðja mig, ef hann skoraði á hv. þm. (MJ) að endurtaka þessi orð utan deildarinnar.