07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í C-deild Alþingistíðinda. (2669)

81. mál, Landsbanki Íslands

Sigurjón Jónsson:

Það er hjer lítil brtt., sem jeg hefi flutt á þskj. 490 við 68. gr. frv. Er í þeirri gr. ákveðið, að seðladeild Landsbankans endurkaupi af Íslandsbanka góða viðskiftavíxla gegn forvöxtum, sem sje 1% lægri en venjulegir forvextir Íslandsbanka, þó aldrei lægri en 1% undir forvöxtum Landsbankans, fyrir alt að 5/8 þeirrar upphæðar, sem Íslandsbanki hefir á hverjum tíma dregið inn af seðlaveltu sinni, miðað við 31. okt. 1922; en þá telst seðlavelta Íslandsbanka hafa verið 8 milj. kr. Eftir að Íslandsbanki hefir dregið inn alla seðla sína, minkar fjárhæð sú, sem Landsbankinn endurkaupir með þessum kjörum um ½ milj. kr. á ári hverju, uns hún hverfur alveg.

Þessi upphæð, sem þannig er gert ráð fyrir, að Landsbankinn kaupi, má nema 5/8 af seðlamagni því, sem Íslandsbanki hefir haft mest úti. Ef sú upphæð er 8 milj., verður það 5 milj., sem bankinn kaupir. Seinast er gert ráð fyrir því, að frá þeim tíma, sem inndrætti seðlanna er lokið, minki þessi upphæð um hálfa milj. kr. árlega, uns þessi hlunnindi viðskiftavíxlannna hverfa alveg.

En brtt. mín fer fram á, að þessi upphæð minki aðeins um ¼ milj. árlega, þannig, að það taki 20 ár að endurkaupa víxlana í staðinn fyrir 10 ár, eins og gert er ráð fyrir í frvgr. Ástæðurnar til þess, að jeg hefi komið fram með þessa brtt. eru aðallega tvær: Í fyrsta lagi þykir mjer eðlilegt, að seðlabankinn láni peningastofnunum, við endurkaup á víxlum þeirra, þá upphæð með lægri vöxtum en hann lánar einstaklingum til rekstrar. Það hlýtur að verða litið svo á, að þeir víxlar, sem keyptir eru af peningastofnunum, sjeu tryggari en víxlar frá einstökum mönnum og geti þessvegna orðið ódýrari.

Að öðru leyti verður að taka tillit til Íslandsbanka, vegna þess, að sá banki hefir verið seðlabanki, hefir dregið inn mikið af seðlum sínum og það valdið honum allmiklum erfiðleikum, þar sem hann hefir verið annar aðalbankinn, sem stutt hefir atvinnuvegina.

Ein af ástæðunum, sem oft hefir komið fram í umr. um þetta mál, fyrir mótstöðunni gegn því, að Landsbankinn fari með seðlaútgáfuna, er sú, að menn hafa álitið, að Íslandsbanka yrði of þröngur stakkur skorinn með því fyrirkomulagi, sem hjer er farið fram á. En jeg geng að því sem vísu, að hv. þm. yfirleitt vilji ekki þröngva kosti hans svo, að hann geti ekki sint þeim störfum, sem hann þarf að inna af hendi enn um nokkurt árabil.

Jeg skal þegar taka það fram, að jeg hefi átt kost á að sjá brtt., sem bráðum kemur fram viðvíkjandi þessari grein. Og ef þessi brtt. verður samþ., tek jeg brtt. mína aftur. Sú brtt. gengur lengra til rýmkunar á hag Íslandsbanka til endursölu viðskiftavíxlanna heldur en mín brtt.

Ætla jeg svo ekki að orðlengja meira um þessa brtt. Jeg vona, að hv. deildarmenn skilji, hvað fyrir mjer vakir, að jeg vil rýmka hag Íslandsbanka meir en frv. gerir ráð fyrir, svo að hann verði hjer eftir sem hingað til fær um að gegna því hlutverki að styrkja framleiðslu landsmanna.

Að öðru leyti ætla jeg ekki að tala meira um þetta mál, jeg hefi verið á móti þessu frv. og mun sýna afstöðu mína til þess við atkvgr.