07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í C-deild Alþingistíðinda. (2670)

81. mál, Landsbanki Íslands

Jörundur Brynjólfsson:

Það eru aðeins örfá orð út af 3. brtt. hæstv. fjrh. (JÞ), við 52. gr., á þskj. 485. Hann talaði gegn þeirri brtt., sem við hv. þm. Str. (TrÞ) fluttum við 2. umr. og samþ. var, vill nú gera nokkra breytingu við það, sem þá var samþ.,eða sem sje 52. gr. Þar sem okkur virðist þetta geta skift miklu máli, þá getum við ekki annað en talað gegn þessari brtt. hæstv. fjrh., báðum liðum hennar, a og b. Jeg held, að greinin, sem samþ. var við 2. umr., sje svo rúm, að hægt sje að ávaxta annarsstaðar það fje, sem nauðsyn heimtar og sýnilegt er, að ávaxta verður annarsstaðar. En jeg vil samt ekki gera þetta rýmra en nauðsynlegt er.

Þetta ákvæði var sett af því, að mönnum þótti ofmikið fje ávaxtað annarsstaðar en í Landsbankanum. Fer jeg ekki lengra út í það nú, þar eð jeg tók flest þessu viðvíkjandi fram við 2. umr.

Það þarf ekki að standa í veginum fyrir gjafafje, þótt greinin verði svo sem hún er orðin. Jeg býst við, að flestir, sem gefa fje til sjóðsstofnana eða til einhverra framkvæmda, finni ekki að því, þótt fjeð sje ávaxtað í Landsbankanum. Og eftir því, sem lög sparisjóða mæla fyrir, eiga þeir að halda öllum rjettindum þrátt fyrir það, þótt þessi bankalög verði sett, og þessi gr. brýtur því alls ekki í bága við þau rjettindi, sem þeir fengu með sparisjóðslögunum frá 1915.

Jeg get því ekki með mínum besta vilja sjeð, að þessa brtt. hæstv. fjrh. þurfi að samþ., nema hún eigi að vera til þess að skerða þau hlunnindi, sem Landsbankanum að rjettu lagi bera.

Hvað b-lið brtt. snertir, þá get jeg sagt hið sama um hann, að standi sjerstaklega á, að stjórnin þurfi vegna lántaka að ávaxta annarsstaðar en í Landsbankanum, þá er opin leið til þess, því að ákvæði um það er að finna í frvgr., svo að þetta þarf ekki að rekast á. En mjer virðist svo, að verði þessi brtt. samþ., verði það til skemda á frv. Hæstv. ráðh. sagði, að þessi gr. hefði verið brotin með samþykki allra. Jeg skal ekki fjölyrða um það, en jeg efast um, að það hafi verið með samþykki allra, og eiginlega hefir það verið fyrir aðgæsluleysi, að fjhn. tók ekki til greina bendingar okkar yfirskoðunarmanna, sennilega meira en af viljaleysi, um að ávaxta skyldi þetta fje í Landsbankanum, því að ekkert var því til fyrirstöðu.

Viðvíkjandi því, að þetta væri á móti þeim kenningum, sem vara við því að auka innlánsfje bankans, þar sem hann hefir seðlaútgáfuna, vil jeg taka það fram, að það er rjett að því leyti, að þetta er á móti kenningum þeirra manna, sem eru á móti því, að Landsbankinn fái seðlaútgáfurjettinn. En þetta er ekki andstætt skoðunum hæstv. fjrh. og mínum. Og samkvæmt skoðun hæstv. ráðh., er þetta til styrktar bankanum, sem önnur innlánsstarfsemi og miklu fremur. Og þó bankinn verði oft að greiða þetta fje út sem hvert annað sparifje með stuttum fyrirvara, þá hefir hann það á vitund sinni, þegar hann lánar það út, og getur altaf gert samning um það atriði áður en til útborgunar kemur. Jeg get ekki annað sjeð en að þetta atriði geti orðið til styrktar bankanum og vil halda því óbreyttu og vænti þess, að sá hluti hv. deildarmanna, sem samþ. það við 2. umr., greiði nú atkv. gegn þessari brtt. hæstv. fjrh.

Fjölyrði jeg svo ekki meira um þetta eða brtt. annara hv. þm. eða um málið í heild. Jeg hygg, að flest af því, sem þarf að koma fram, sje þegar tekið fram og þurfi því ekki að ræða málið frekar.