07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í C-deild Alþingistíðinda. (2671)

81. mál, Landsbanki Íslands

Halldór Stefánsson:

Jeg ætla aðeins að minnast á brtt. okkar hv. þm. Str. (TrÞ). Það eru tvær till., sem standa í sambandi hvor við aðra. Jeg vil þá fyrst minnast á fyrri till.

Við 2. umr. bárum við fram brtt., sem fóru í líka átt og þessi, að sá hluti innlánsfjár, sem á að vera í verðbrjefum, hækki úr 1/3 í helming og áskilja Ræktunarsjóði helming verðbrjefanna, eða alls sparifjár, með vaxtamun, sem næmi ¼%. Þá var það haft á móti þessari till., að þá yrði of mikill hluti sparifjárins bundið í verðbrjefum. Í öðru lagi það, að við ætluðum of lítinn vaxtamun á sparisjóðsfjenu og jarðræktarbrjefunum, og að ekki væri eðlilegt, að ákveða þetta fyrirfram.

Við hjeldum fram á móti, að telja mætti bæði trygga og eðlilega tilhögun að binda þannig hluta af sparifjenu, er varið skyldi til þess að efla bygging og ræktun landsins. Við teljum það hina fyrstu skyldu vora við landið og þjóðina, að efla ræktun landsins og byggingu, og að bæta lífsskilyrði í því á allan hátt. Og við fullyrðum, að sparisjóðsfjenu verði á engan hátt betur varið nje tryggar en þannig.

Það mætti nú sýnast, að þannig vöxnum ástæðum, að það væri óþarft að binda þetta svona fyrir fram. En það er vegna reynslunnar, að við þykjumst tilneyddir. Og reynslan er sú, að landbúnaðurinn hefir altaf orðið mjög útundan með allskonar starfsfje. Bankarnir hafa ekki skilið eða viljað skilja þarfir hans, þeir hafa talið það hlutverki sínu nær, að græða sem mest fje, en að taka óhlutdrægt tillit til alþjóðar þarfa. Við óttumst, að eins geti farið í framtíðinni, ef ekki verða gerðar ráðstafanir til að binda þetta að einhverju leyti.

Þá er því haldið fram, að ræktunarsjóðurinn sje ekki fjevana. En á það hefir verið bent, að þótt svo sje ekki nú, gæti þó brátt að því rekið. Og ný verðbrjef geta komið á markaðinn, sem jarðræktarbrjefin standa ekki vel í samkepni við. Og þótt hægt hafi verið að fá markað fyrir þau, meðan engin samkepni var, þá er alls ekki víst, að svo verði eftirleiðis.

Þá hefir verið bent á það, að á milli Ræktunarsjóðsins og Landsbankans væri samningur um kaup á jarðræktarbrjefum. En þess er að gæta, að hann er bundinn við ákveðinn tíma og takmarkaður við vissa upphæð. Og á meðan sá samningur er í gildi, mætti draga þá upphæð frá þessari skyldu.

Þá voru og við 2. umr. færð fram andmæli gegn þessum brtt. okkar frá bankastjórum Landsbankans, þar sem því var haldið fram, að ef þær væru samþ., þá leiddi það til lömunar á innlánsstarfsemi bankans, og til þess að hann fengi ekki þann styrk af innlánsfjenu, sem ætlað væri. Þetta var borið fram órökstutt, og er því ekki auðvelt að festa hendur á þeim andmælum, enda er ekki auðvelt að sjá, að þótt till. okkar færi fram á að binda aðeins lítinn hluta meira í verðbrjefum, en ákveðið var í frv. að það gæti valdið svo stórum hlutum fyrir bankann. Og hafi verið lítil ástæða til að mótmæla þá, er hún þó enn minni nú, því að nú förum við ekki fram á neina hækkun á verðbrjefahlutanum, og í öðru lagi vegna þess, sem samþ. var við 2. umr. eftir till. frá hv. 2. þm. Árn. (JörB) og hv. þm. Str. (TrÞ), þar sem bankanum er trygt sparisjóðsfje fram yfir það, sem ætlað var upphaflega. Jeg vona, að hv. þm. skilji nú, að þessi till., sem við berum fram nú, er miðlunartill., og er þess því að vænta, að hv. þm. geti fallist á hana. Og jafnvel þótt nokkur ástæða hafi verið til þess að telja fyrri till. ganga fulllangt, þá er ekki svo um þessa.

Um síðari brtt. get jeg verið stuttorður. Hún hnígur að því sama og hin, og er aðeins varatill. Verði fyrri till. samþykt, tökum við þessa till. aftur. En það má vera, að hún sje öllu aðgengilegri, hvað formið snertir, fyrir þá, sem eru á móti hinni till. af formlegum ástæðum, auk þess sem í fyrri till. er gert ráð fyrir ríkari skyldu en í hinni síðari, sem mælir svo um, að Ræktunarsjóður eigi aðeins tilkall til þessa fjár eftir því sem þörf krefur.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þessa till., vænti, að hv. þm. geti tekið þeim vingjarnlega. Það hafa ekki verið færð fram nein ný rök gegn þeim, og þau andmæli, sem fram hafa komið, eru nú orðin vægari en áður, sem og eðlilegt er, vegna þess að þessar till., sem hjer liggja fyrir, ganga ekki eins langt og hinar, eru miðlunartillögur.