07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í C-deild Alþingistíðinda. (2674)

81. mál, Landsbanki Íslands

Jón Baldvinsson:

Í fyrra tók Alþingi bankamálin úr höndum stjórnarinnar og skipaði sjerstaka nefnd, sem skyldi rannsaka þau. Átti hún að ljúka störfum sínum fyrir þetta þing. Nefndin lauk störfum sínum og undirbjó frv. til laga um Landsbanka Íslands, sem nú er hjer til umræðu. Frv., sem stjórnin lagði fram í fyrra um þetta efni, var svo meingallað, að ekki gat komið til mála að gera það að lögum. Það var að því leyti gott, að þingið tók málið úr höndum stjórnarinnar og fól það þessari nefnd, sem nú er deilt um, hvort lokið hafði störfum sínum til fulls eða eigi. Jeg fylgi yfirleitt frv. nefndarinnar, því, sem hjer liggur fyrir. Það munu flestir hafa talið sjálfsagt, að þegar seðlaútgáfa fjell aftur til ríkisins, þá yrði hún fengin Landsbankanum í hendur. Margir töldu það misráðið, þegar Íslandsbanka voru veitt þessi mikilsverðu rjettindi eftir aldamótin. Landsbankinn var þá og hefir jafnan verið hálfgert olbogabarn þings og þjóðar, og þó hefir hann dafnað betur en Íslandsbanki. (KlJ: Jeg neita því eindregið). Álít jeg, að þetta liggi í fyrirkomulagi hans og mun koma að því síðar.

Hjer hefir mikið verið rætt um þróun í bankamálum, og hefir það verið deiluefni milli meiri og minni hl. nefndarinnar. Frsm. minni hl. hefir hvað eftir annað lýst því yfir, að meðferð Íslandsbanka á seðlaútgáfunni hefir reynst illa og að Íslandsbanki hafi keyrt sig fastan eins og hann orðaði það. Það er rjett, að fyrirkomulag bankans getur verið þess eðlis, að hættulegt sje að fela honum jafnmikilsverð störf sem seðlaútgáfuna. En jeg sje ekki, að fyrir því sje nein hætta að samþykkja þetta frv. og láta Landsbankann hafa seðlaútgáfuna. Það eru engin rök gegn því, þó Íslandsbanki hafi farið illa með þessi rjettindi sín, að Landsbankanum muni líka farnast illa með seðlaútgáfuna. Jeg lít svo á, og margir fleiri eru sömu skoðunar, að það liggi að miklu leyti í fyrirkomulagi bankans, að svo hefir farið. Þetta kemur ekki svo mjög fram fyr en ruglingur fer að komast á atvinnulífið vegna stríðsins. Fram undir stríð var ekki svo mikið athugavert við meðferð hans á seðlaútgáfunni. Þetta fer fyrst að breytast og gallar að koma í ljós, þegar sveiflur stríðsins og gróðalöngun manna fer að magnast. Það er einmitt þróun bankamálanna hjer, sem sýnir, að Landsbankanum er betur trúandi til að taka við seðlaútgáfunni.

Þegar menn upprunalega lögðu fje í Íslandsbanka, var það yfirleitt ekki gert í því skyni að „spekulera“ með það, heldur til að ávaxta það. Meiri hluti fjárins mun hafa verið lagður fram í því skyni. Alt gengur vel, þar til gróðalöngunin grípur menn á stríðsárunum. Þá fer alt í vitleysu. Þá komust menn upp á að láta hlutabrjefin margfaldast í verði. Alt var undir því komið, að gefnir væru sem hæstir vextir af hlutabrjefunum. Þetta varð þess valdandi, að Íslandsbanki „keyrði sig fastan“.

Íslandsbanki hefir aldrei þurft annað en rjetta út litla fingurinn til þess að fá allar sínar óskir uppfyltar hjá stjórn og þingi. Til sönnunar því eru þau ummæli hæstv. fjrh. (JÞ), sem hann nýlega hefir haft, að Íslandsbanki hafi aldrei komið með neina ósk til stjórnarinnar, sem hún hafi ekki uppfylt. Þessi banki hefir nú starfað hjer síðan um aldamót. Báðir bankarnir hafa orðið fyrir töpum, en þó hlutabankinn hafi oft riðað, hefir hinn ávalt notið fulls trausts. Sá bankinn, sem hafði á hendi seðlaútgáfuna, gat ekki int hlutverk sitt af hendi. Það hefir verið sagt, að Íslandsbanka hafi ekki verið beinlínis verið gert að skyldu að sjá um gjaldeyri landsins, en sú skylda felst í því, að hann hefir fengið einkarjett til þess að gefa út seðla, vera seðlabanki íslenska ríkisins. Minni hl. hefir það á móti því að láta Landsbankann fá seðlaútgáfuna, að hann verði þar með einvaldur í peningamálunum og geti orðið of sterkur. Jeg sje ekki betur en það, sem hv. minni hl. stingur upp á, sje samskonar einveldi. Hann ber hjer fram frv. um stofnun ríkisveðbanka Íslands. Hann stingur upp á því að afhenda seðlaútgáfuna í hendur ríkisstofnun, og mjer dettur ekki í hug, að hann hafi nema eina stofnun í huga. Þar yrði því ekki síður einveldi. Jeg held, að engum hafi dottið í hug að hafa seðlaútgáfuna nema í einum stað. Jeg hefi ekki heyrt stungið upp á, að löggilda svo og svo margar peningabúðir, sem gæfu út seðla í „frjálsri samkepni“. Aðalástæðan hjá hv. minni hl. er víst sú, að Landsbankinn gæti komist í klípu eins og Íslandsbanki og neyðst til að gefa út ofmikið af seðlum, er hann láni í áhættufyrirtæki. Jeg geri nú ráð fyrir, að eftirlit verði með því haft, hve mikið bankinn gefur út af seðlum. Hann er líka þeim mun betur settur, að hann hefir ekki á eftir sjer gráðugan hóp af „aktionerum“, sem heimta meiri og hærri vexti af hlutabrjefum sínum. Það dregur líka úr hættunni, að bankastjórarnir hafa ekki ágóðaþóknun, heldur fast kaup. Svo er það, að þjóðin sjálf á þennan banka og hann hefir staðið sig vel öll hin erfiðu ár. Í þessu sambandi dettur engum í hug að tala um þá menn, sem undanfarið hafa staðið fyrir Landsbankanum og Íslandsbanka. Það má búast við, að jafnan verði valdir menn af skárri endanum fyrir Landsbankann, og í fyrirkomulaginu sjálfu get jeg ekki sjeð að liggi meiri hætta. Það gæti alt að einu komið fyrir sjerstaka seðlastofnun, að hún leiddist til að láta úti of mikið af seðlum. Báðir hv. nefndarhlutar hafa mjög brugðið fyrir sig erlendum fræðikenningum og vitna ýmislega í nál. sínum í erlenda fræðimenn. Í nál. háttv. meiri hl. er vitnað mjög í ýmsa bankastjóra á Norðurlöndum, norska, sænska og finska, sem mál þetta hefir verið borið undir, og telur hv. meir hl. fjhn. sjer til inntekta það, sem þeir hafa sagt; en svo bregður því undarlega við, er hv. minni hl. vitnar líka til þessara sömu manna og notar orð þeirra sínu máli til sönnunar, og þetta stafar eflaust af því, að svör þessara erlendu bankamanna hafa verið meira eða minna loðin. Jeg efast t. d. ekki um, ef hv. þm. N.-Þ. (BSv), hæstv. forseti, hefði farið utan líka, til Finnlands, eða annara Norðurlanda og fundið þessa hv. bankafræðinga að máli, að þá hefði hann líka getað fengið hjá þeim einhver álíka loðin ummæli til að taka upp í sitt nál. Þeir hafa sem sje hvorki sagt já nje nei, þessir herrar, enda er það ofur eðlilegt; þeir þekkja ekkert til hjer og vilja því ekki segja neitt ákveðið, sem þeir þurfa að standa við síðar, Jeg byggi því ekkert á þessum undirtektum í þetta mál erlendis og sje ekkert á móti því, að Landsbankinn taki við seðlaútgáfunni, eins og ávalt hefir verið alment óskað eftir, er mönnum skildist það, að Íslandsbanki yrði að láta seðlaútgáfurjettinn af hendi.

Báðir hv. nefndar hl. nota Cassel sínu máli til stuðnings; hann er þvældur og teygður eins og hrátt skinn og með hann farið svo, að heita má, að hann sje eins og einn þm. komst að orði, til allra hluta nauðsynlegur. Það er eins og sagt hefir verið: Cassel hér og Cassel þar og Cassel alstaðar.

Þá vil jeg víkja að einu atriði í frv., sem jeg tel sjerstaklega athugunarvert, en það er stofnfje bankans, sem jeg tel að sje raunverulega áætlað alt of lágt, 3 milj. króna. Jeg hefði helst kosið, að það hefði ekki átt að vera minna en 5 milj. og hefði gjarnan mátt vera meira. Eins var þess ekki þörf, að alt það fje kæmi til á einu ári, það hefði vel mátt auka það smátt og smátt. Nú er sá uppi hjer, að hjer vanti tilfinnanlega fjármagn inn í landið, og var þá gripið til þess að veita sjerrjettindi til stofnunar nýs einkabanka. Þessa taldi jeg ekki þörf, en ef þörf er á fje, væri eðlilegra að efla okkar eigin banka, Landsbankann. Það var hrein vitleysa að efla ekki Landsbankann í stað þess að leyfa stofnun Íslandsbanka eftir aldamótin. Mjer er sagt, að sú bankastjórn, er þá stýrði Landsbankanum, hafi staðið á móti því, að auka fjármagn hans. En Alþingi hefði þá átt að taka fram fyrir hendurnar á bankastjórninni og krefjast þess, að aukning veltufjár í landinu ætti að koma í gegnum Landsbankann, en í þess stað var erlendum banka veitt mikilsverð rjettindi, undanþeginn sköttum og skyldum, eins og venja er til, að erlendar stofnanir krefjist sjer til handa hjer á landi, og þeim venjulega komið upp á það.

Jeg hefði haldið, að auðvelt hefði verið að ná þessum tilgangi, aukning veltufjár í landinu, með því að efla Landsbankann í stað þess að stofna Íslandsbanka, enda hefir Íslandsbanki orðið ríkinu hinn mesti þyngsla baggi hin síðari ár. Jeg tel því langbest að efla nú Landsbankann svo um munar, í stað þess að stofna nýjan banka. Það þarf ekki svo mikið nýtt fje til þess, því bæði er innskotsfje ríkissjóðs komið í bankann, og svo hefi jeg heyrt, að Landsbankinn eigi að fá eitthvað af enska láninu sem stofnfje. Þessvegna vil jeg ekki láta stíga slíkt víxlspor aftur og stigið var, er Íslandsbanki var stofnaður, og því vil jeg láta efla Landsbankann. Síst af öllu tel jeg tiltækilegt að veita nýjum erlendum banka víðtæk sjerrjettindi, því þar gætum við vænst þess sama eftirleiðis og við höfum orðið fyrir af Íslandsbanka.

Frv. það, sem stjórnin nú ber fram, er nokkuð breytt frá frv. því, sem hjer var á ferðinni á þinginu í fyrra, og eru þær breytingar til hins betra, sem að mestu leyti er milliþinganefndinni í bankamálum að þakka. En leitt er það, hversu hæstv. stjórn leggur litla rækt við annað eins stórmál og þetta.

Það gengur eitthvað erfiðlega hjá hæstv. stjórn að leiða þingið til að afgreiða nauðsynleg mál, sem ekki mega dragast. Jeg lít svo á, að Landsbankafrv. sje eitt af þeim. En jeg sje ekkert mót á því, að hægt sje að afgreiða það á þessu þingi. Það hlýtur að verða að ræða mikið um fyrirkomulag bankans, það skil jeg vel. En mjer finst hæstv. stjórn hafa sýnt svo mikið tómlæti í því, hvernig hún hefir starfað að framgangi þessara stórmála á þingi yfirleitt. (Atvrh. MG: Hvaða mála?). Svo að jeg víki að einu stóru máli, þá er það járnbrautarmálið, sem jeg veit, að hæstv. stjórn stendur að. Jeg álít, að hæstv. stjórn hefði átt að leggja meira kapp á að koma því fram, fyrst það er hálft í hvoru stjórnarfrv. Mjer hefir skilist á hæstv. forseta, að afgreiðsla fjárlaganna í dag þýði það, að ráðherrar ætlist til, að þinginu verði lokið innan fárra daga. Sama hefi jeg skilið, að hv. þm. ætlist til. En með því, hvað þetta mál, bankamálið, er stutt á veg komið, er sýnilegt, að það getur ekki gengið fram. Það bráðabirgðafyrirkomulag, sem nú er á svo mikilvægu máli og seðlaútgáfunni, er algerlega óverjandi, og má alls ekki dragast eitt ár enn að koma því í fast horf og til frambúðar. Það hefði verið auðgert fyrir hæstv. stjórn að láta fjhn. flytja málið í Nd. fyrir sig, til þess að hraða því í gegn. En með því að hæstv. stjórn flutti það sjálf, þá tafðist það að minsta kosti um hálfan mánuð, við það að sigla og leggjast fyrir konung. Og það er sá tími, sem gerir það að verkum, að málið getur ekki gengið fram. Jeg verð því að láta í ljósi mína megnustu óánægju, hvað hæstv. stjórn virðist vera óstyrk að koma fram málum, jafnvel þótt hún hafi í orði kveðnu sterkan flokk til stuðnings í þinginu. Hún virðist hafa góðan helming þingmanna í sínum flokk, en samt ekki hafa þrótt til að koma svona óhjákvæmilegum málum fram. Ef stjórnir ætla sjer að koma einhverjum málum fram, þá verða þær ef til vill að leggja eitthvað í sölurnar. Og þær verða að segja við sína flokksmenn: Þessu nauðsynjamáli verðum við að koma áleiðis, og þið verðið að styðja okkur. Við erum ekki til þess að láta málin flækjast fyrir þinginu. En hvað skyldi þessi hæstv. stjórn hafa gert í þessa átt? Hún hefir látið þetta mál dragast svo lengi, að það er algerlega óforsvaranlegt.

Þetta vildi jeg láta verða mín síðustu orð í þetta skifti, að beina því til hæstv. stjórnar, að það er hennar skuld, að þetta mál getur ekki gengið fram á þessu þingi. En jeg álít það geti haft svo margvísleg og ill áhrif, ef ekki verður skipað þessum málum, og það á þann hátt, er frv. fer fram á.