07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1362 í C-deild Alþingistíðinda. (2675)

81. mál, Landsbanki Íslands

Benedikt Sveinsson:

Jeg var nokkuð viðriðinn þetta mál við 1. umr., en hefi ekki síðan tekið til máls, og þykir mjer hlýða að leggja nokkuð til málanna, áður en frv. er afgreitt hjeðan úr hv. deild. Jeg verð að telja það í raun og veru mál málanna, sem liggja nú fyrir Alþingi, — að koma bankastarfseminni fyrir á sem bestan og hagkvæmastan hátt fyrir þjóðina; því að það er grundvöllurinn undir velgengni þjóðarinnar, að peningamálum hennar sje skipað þann veg, sem best gegnir. Þar er undirstaða alls atvinnurekstrar og hagsældar í landinu. Það er því ekki hægt að taka þetta mál eins og ýms önnur, — með afbrigðum og næturumræðum, og afgreiða það svo í flýti og flaustri. Jeg vonast til, að hv. þm. ætlist ekki til þess.

Þetta mál hefir legið fyrir hverju þinginu á fætur öðru; nefndir hafa fjallað um málið, og þó virðast skoðanir manna vera mjög skiftar enn. Þrátt fyrir það, þótt fengist hefði ærið gildur meiri hl. í milliþinganefndinni, sem sett var í málið í fyrra, þá var svo komið um það bil, sem 1. umr. fór fram hjer í deildinni, að nálega hver einasti maður utan þings, sem eitthvað hafði kynt sjer nál. nefndarhlutanna, fylgdi minni hl., en ekki meiri hl. Hefi jeg alls ekki orðið var við, að slíkt hafi breytst síðan. Einn mann þekki jeg reyndar, sem er svo mikill íhaldsmaður, að hann fylgir þessu máli algerlega á sama hátt og hv. meiri hl. Skoðun sama manns í gengismálinu var og nokkuð einhliða; hann sá, að það var að vísu ágætt fyrir sjálfan hann að fá 80 aura og helst krónu fyrir þá 50 aura, sem hann hafði lagt í sparisjóðsbókina sína, og þá var einsætt að fylgja gengishækkun. — Að öðru leyti hefi jeg ekki orðið var við, að þessar meiri hl. till. um seðlamálið hefðu fylgi utan þings.

Annars er eftirtektarvert þetta ofurkapp hv. meiri hl., að berja þetta mál í gegn, áður en þjóðin getur lagt sinn dóm á það. Auðvitað veit jeg, að þessum góðu mönnum, sem á þingi sitja, dettur ekki í hug að fylgja slíkum málstað í svo stórmiklu máli á móti betri vitund. En þeir bíta sig svo fasta í sínar skoðanir, að þeir geta með engu móti af þeim látið. Það er ekki af neinum illvilja gert, þó að reynslan hinsvegar sýni, að þeir eru ekki „komnir á þing til að láta sannfærast“ í þessu máli.

Jeg hefi ekki samið nein skrifleg gögn til þess að flytja hjer fram, hefi hjer aðeins fyrir mjer álit meiri hl. nefndar þeirrar, er fjallaði um málið hjer í deildinni. Það er á þskj. 358. Þar er í raun og veru alt það að finna, sem þeir munu hafa til brunns að bera, sem stjórnarfrumvarpinu eru fylgjandi. Það er þeirra trúarjátning, vel fram sett, sem von er af mikilhæfum og þaulvönum mönnum; býst jeg við, að ekki verði miklum röksemdum bætt þið það, sem þeir hafa upp látið um sína skoðun á þessu máli.

Meiri hl. nefndarinnar eru 4 menn, en minni hl. eru 3; svo það gat eiginlega ekki verið minni mismunur á þeim „hlutum“, sem nefndin skiftist í.

Meiri hl. tekur fyrst til athugunar, hvað ber á milli í frv., sem meiri hl. milliþinganefndar, hjelt fram og þess frv., sem hæstv. stjórn bar fram og nú er hjer til umræðu. Eru þar fyrst talin til ákvæðin í 13. gr., að milliþinganefndin gerði ráð fyrir 3 deildum, sparisjóðsdeild, veðdeild og seðladeild. Var gert allmikið úr þeirri sundurgreining. En nú er látið svo, sem í stjfrv. sje gengið feti framar í þessu efni, því að fjárhagur deildanna sje aðskilinn með öllu og sjerstakur fyrir hverja deild; á þetta hefir meiri hl. fallist. Jeg þóttist sýna fram á það við 1. umr., að þessar deildir væru aðgreindar eingöngu á pappírnum, en ekki svo mjög í framkvæmdinni, að neinu máli skifti. Allar deildirnar lúta sömu stjórn eftir sem áður. Mjer finst, að hjer sje um nokkurskonar sjónhverfing að ræða, þegar mönnum er sagt, að bankanum sje skift þannig í deildir og það sje nær því það sama, sem seðlaútgáfan sje sjerstakur banki, með þessum hætti. En það er einber fjarstæða. Þetta er ekkert annað en verkaskifting milli starfsmanna bankans. Það sýnist varla hægt að komast hjá því, að veðdeildin hafi aðra bankafærslu og aðrar bækur heldur en útlánadeild bankans. Og þá mun væntanlega engum hafa dottið í hug, að seðladeildinni væri hrært saman við það, sem veðdeildinni við kæmi. En þegar alt stendur undir sömu yfirstjórn, þá verður þetta alt saman ekki annað en það, sem leiðir af því greiningarskipulagi, sem hlýtur að eiga sjer stað hjá hverri stofnun, sem hefir margvísleg störf á hendi. Þessa greining vil jeg kalla „þróun í bókfærslu“ og annað ekki. — Í gamla daga skrifuðu góðir búmenn búreikninga sína — ýmislegt, viðvíkjandi hjúahaldi og fjármálum og skepnuhöldum, með krít, alt á sama bitann í baðstofunni. Nú eru þeir hættir því, og skrifa í bækur í staðinn fyrir bita, og það fleiri en eina. Í bankanum hefir einnig orðið framþróun í bókfærslu. En þessi framþróun á ekkert skylt við það að greina sundur seðlaútgáfuna frá þeirri stofnun, sem fer með sparisjóðsútlánin.

Þá er í öðru lagi gert ráð fyrir í frv. milliþinganefndarinnar að hafa gulltrygginguna ekki myntaða, heldur í stöngum. Þetta var talinn allmikill kostur við 1. umr., að gullið væri óaðgengilegt fyrir þá, sem vildu fá innleysta seðla sína. Hæstv. fjrh. (JP) kom þar vitinu fyrir meiri hl., að það mundi heppilegra og almenningur mundi trúa betur á innlausnina, ef gullið væri myntað og búið til innlausnar, ef heimtað væri. Er sú breyting til bóta. Þetta snjallræði um gullið hafa menn fengið úr einhverjum fræðiritum. En þá er fyrir það girt í framkvæmdinni, að menn geti fengið seðlunum skift fyrir gull. Hafi bankinn hinsvegar talsvert af smáu gulli, þá væri auðvitað gott að hafa þetta stóra gull í bakhönd að auki.

Þá talar nál. á þskj. 358 um 3. atriðið í frv. milliþinganefndarinnar, sem er ákvæðið í 5. gr., um að stofnfje bankans sje 3 milj., sem er sama sem að ríkissjóður ábyrgist hann algerlega. Þetta varð ekki ágreiningslaust innan meiri hl. milliþinganefndarinnar. Hefir nefndin fallist á till. stjórnarinnar um að fella niður þessa ábyrgð ríkissjóðs.

Þá er þess getið í athugasemdum við stjfrv., að viss ákvæði um stofnfje og varasjóð þurfi líklega nánari athugunar. Það er svo um þetta atriði, að gott er að athuga það sem best. Og jeg veit, að í því frv., sem jeg ber fram, muni einnig þurfa nánari athugunar um þetta. Þó að jeg telji mitt frv. traustari grundvöll og miklu heppilegra en hitt, er ekki þar með sagt, að ekki sje til bóta, að glöggir menn athugi það.

Mjer þykir dálítið kynleg athugasemdin, sem þessu fylgir frá þessum fjögurra manna meiri hl. Þar segir: „Út af því vill meiri hl. taka það fram, og hefir fyrir sjer einnig ummæli tveggja manna úr milliþinganefndinni, að ætlast er til, að bankinn hafi þetta stofnfje í raun og veru óskert í upphafi.“

Jeg spurði mig fyrir um, hverjir þessir tveir menn væru, sem þeir fjórir hafa sjerstaklega leitað trausts hjá, og mjer er sagt, að þessir tveir menn úr milliþinganefndinni sjeu þeir sömu, sem sitja síðar í fjhn. og hafa undirskrifað nál. Það eru hæg heimtökin, og gott, þegar þeir geta vitnað í sjálfa sig sem „autoritet“ til þess að styðja sinn eigin málstað. Það sýnir sig þá, þegar þessir 2 menn, sem hafa bundna skoðun áður en þeir koma í nefndina, að þeir hafa orðið í minni hl. meðal annara nefndarmanna, því að þeir hafa ekki fengið með sjer nema tvo menn. Hinir eru þó þrír, svo að í raun og veru er það sá sanni og rjetti minni hl. — sem kallar sig nefndina — þegar búið er að draga frá þessi tvö „autoritet“, sem hjer er vitnað til. — Annars minnir þetta mig á dálitla sögu. Það var einu sinni Englendingur hjá Indiána nokkrum í Ameríku. Indíáninn ljet hann hafa kjöt á hverjum degi ýmislega tilreitt. Englendingurinn spyr þá, hversvegna hann geti altaf borið á borð nýtt kjöt á degi hverjum, hvort hann skjóti dýr í skóginum daglega. Þá svarar Indíáninn: O nei! Þetta er alt af sama hundinum!

Eins og 5. töluliður í nál. þessa svo kallaða meiri hl. ber með sjer, hefir hann sannfærst um, að ekki væri ástæðulaust að ætla, að ef svo og svo mikið fje væri dregið út úr veltu Landsbankans, gæti það valdið truflun á viðskiftalífinu; hefir hann því fallist á það — skilst mjer — að það væri hægt að afstýra því betur en milliþinganefndin hefir gert ráð fyrir í sínu frv., með þeim ráðstöfunum, sem stjórnin flytur fram.

Svo fer nefndin að tala um söguleg rök og þróun bankamálanna hjer á landi, og að sjálfsagt eðli málsins hnigi mjög eindregið að því, að Landsbankinn hefði þetta hlutverk. Fyrstu rökin eru það, að hann er elsti bankinn hjer á landi, sem ríkið hefir jafnan átt og rekið, og um 20 ár hefir hann haft einn seðlaútgáfuna hjer á landi og jafnan haldið þeim seðlaútgáfurjetti. Það er rjett, að þau ár, sem hann var eini bankinn hjer á landi, hafði hann einn seðlaútgáfurjettinn. En mjer er það torskilið, hvernig þetta gat verið öðruvísi en að sú eina peningastofnun, sem til var, hefði seðlaútgáfurjettinn. Þessi röksemd er því veigalaus með öllu. (Einhver: Þurfti hann endilega að hafa seðlaútgáfuna?).Enginn annar banki gat haft hana meðan Landsbankinn var einn. Seðlaútgáfan var ekki meiri í fyrstu en ½ miljón, en jókst svo upp í 750 þús. Til þess að gefa þetta smáræði út, þurfti vitanlega enga sjerstaka seðlastofnun við hlið Landsbankans. Þessi seðlaútgáfa var algerlega takmörkuð við þá ákveðnu fjárhæð, sem landssjóður veitti bankanum. Er því ómögulegt að kalla, að Landsbankinn hafi þá haft neinn seðlaútgáfurjett í raun og veru, þar sem hjer var einskorðuð upphæð, sem landssjóður stóð á bak við. Enda stóðu bankamálin þá alveg í föstum skorðum, þangað til nauðsyn krafðist, að eitthvað yrði gert til þess, að þjóðinni yrði ekki alt of þröngur stakkur skorinn.

Það má vera rjett, sem hv. 2. þm. Reykv. (JBald) sagði, að alveg eins gott hefði verið að láta Landsbanka Íslands eflast og aukast, án þess að fara að stofna neinn nýjan hlutabanka. En eins og jeg tók fram, mun hvorki landsstjórnin nje bankastjórnin hafa fundið ástæðu til þess sjálfar, að efla Landsbankann á þeim tímum, eins og þurfti. En jeg skal kalla það þróun í bankamálum, þegar gerð er gangskör að því að fá annaðhvort stærri banka eða nýjan banka. Þegar Landsbankinn fór að reynast of getulítill til að veita lán, þegar átti að fara að efla meiri háttar framtak í landinu, þá var Íslandsbanki stofnaður. Mjer er nokkuð kunnugt um stofnun hans. Það var ungur, framtakssamur maður af Vestfjörðum, sem vildi hefjast handa til þess að kaupa botnvörpuskip. Fór hann á fund bankastjórnar Landsbankans hjer í Reykjavík. Hann hafði ágæt fasteignaveð, en fjekk samt þvert nei. En af því að maðurinn var kjarkmenni og atkvæðamaður í fjárhagsmálum, var hann ekki alveg af baki dottinn við þessa hindrun. Hann fór til útlanda og kom sínu máli fram um síðir. Hann var frumhvata- maður að því með dugnaði sínum og áhuga, að Íslandsbanki var stofnaður. Þessi maður var Páll Torfason af Flateyri. En þótt hann væri upphafsmaður þessa máls og legði föðurleifð sína að miklu leyti til þessarar stofnunar, þá fóru þannig leikar að vísu, að honum var bolað út síðar meir og hlaut aldrei verðug laun verka sinna og dugnaðar. Það má geta þess — þó það komi ekki bankamálum við — að þetta starf hans er ekki einsdæmi um framtak hans fyrir þjóð sína, því að hann hefir unnið margt fyrir Ísland fleira, sem ekki var launað sem verðugt var. Til dæmis var hann aðalmaðurinn í að fá hið svokallaða enska lán fyrir stjórnina, og jeg er ekki viss um, að það hafi verið goldið honum svo vel sem skyldi eða samningar stóðu til. Þó ekki liggi fyrir að ræða þetta nú, þá fanst mjer þó ekki úr vegi að minnast þessa manns í sambandi við bankamálin, sem hefir átt svo mikilvægan þátt í peningamálum landsins.

Þá er það næsti þáttur um „þróun“ seðlaútgáfunnar, að Íslandsbanki fjekk hana í hendur, þegar hann var stofnaður. Landsbankinn hjelt sinni föstu seðlafúlgu áfram. — Nú vita allir, hvernig farið hefir um seðlaútgáfu Íslandsbanka. Hefir hún ekki orðið bankanum nokkurskonar „Andvaranautur“, einmitt af því, að hann rak jafnframt alla almenna bankastarfsemi, fór með mikið innlánsfje o. s. frv.? Þetta er deginum ljósara og staðfestir fullkomlega erlendu reynsluna.

Landsbankinn hefir aftur enga seðlaútgáfu haft, nema sína lágu fúlgu, sem ekki kemur þessu máli við, og hefir þó á sama tíma, sem Íslandsbanki hafði sinn ótakmarkaða seðlaútgáfurjett, „vaxið og dafnað ár frá ári og er nú orðin sterkasta peningastofnunin í landinu,“ — svo að jeg hafi nefndarinnar eigin orð. — Hvortveggju þessi dæmi ættu að sýna, hvert keppikefli almennum viðskiftabönkum er að hafa seðlaútgáfuna.

Á hinn bóginn verður því ekki neitað, að seðlaútgáfan veitir þeim samkepnisbankanum, sem með hana fer, að sumu leyti miklu betri aðstöðu í viðskiftunum þeirra á milli, þótt vandfarið sje með. Og þessi rjettindi Íslandsbanka ollu því í upphafi og lengi síðan, að mörgum þjóðlegum mönnum þótti hlutur Landsbankans mjög fyrir borð borinn. Meðal þeirra manna, er þessa skoðun höfðu, og voru vinir Landsbankans, var talið sjálfsagt, að hann tæki við seðlaútgáfunni, þegar rjettur Íslandsbanka væri útrunninn. — En þess verða menn vel að gæta, að engir höfðu þá athugað agnúa þá, sem verið gætu á seðlaútgáfunni fyrir slíka banka, sem þá tvo, sem hjer er um að ræða. Málið var metnaðarmál, en skilyrði fyrir heppilegustu framkvæmd seðlaútgáfu voru aldrei rækilega rædd nje rannsökuð, enda lá það ekki við borð fyr en 1921, að fyrir lægi breyting á henni fyrst um sinn. Hjer var eigi um neina rökstudda rannsókn nje niðurstöðu að ræða um skipun seðlaútgáfunnar. Staðhæfingar nefndarinnar um það eru alveg rangar.

Þetta kom einnig mjög berlega í ljós, þegar losnaði um seðlaútgáfuna með samningum við Íslandsbanka 1921. — Þá fyrst kom það í ljós, að seðlamálið var eigi svo ljett í vöfum, sem alment var ætlað. Landsbankinn var þá ekki búinn þess, að taka við seðlaútgáfunni, og þótt Alþingi hafi fjallað um málið á hverju ári síðan, þá er því eigi enn til lykta ráðið og hefir orðið að setja lög til bráðabirgða þing af þingi, ár frá ári, til þess að skipa seðlaútgáfunni í bili.

Þessi óhrekjandi saga málsins sýnir best, hversu örðugt hefir orðið að framkvæma það, er fyrir mönnum hefir „vakað“ áður. Þessi síðustu ár hefir mönnum orðið það ljósara, hve vandasamt það var og viðsjárvert, að landssjóður tæki seðlaútgáfuna. Þaðan stafar dráttur málsins.

Málið hefir mest verið rætt í Ed. og verið og athugað miklu vandlegar en áður. Menn hafa tekið að kynna sjer helstu vísindarit erlendra þjóða um þetta efni, og við þá rannsókn koma ný sannindi fram um reynslu og kenningar annara þjóða. — Það er því einungis fyrir nýjar rannsóknir, knúðar fram af nauðsyn, að fyrst á þinginu 1924 kemur fram ný tillaga um seðlamálið, skipun sjerstakrar seðlastofnunar. Fyrr hafði málið ekki verið brotið rækilega til mergjar.

Hjer kemur einmitt fram ný „þróun“, en ekkert skoðanahringl, því að þessi nýja tillaga fer ekki í bága við það, að „stofnun landsins“ fari með seðlaútgáfuna, heldur er hjer einmitt reist sjerstök „stofnun landsins“, alveg eins þjóðleg og hver önnur og í samræmi við þesskonar stofnanir í öðrum mentuðum löndum, rekin samkvæmt nútímakröfum um seðlabanka. Það er sjónhverfing ein, að þessi stofnun sje nokkuð óþjóðlegri en Landsbankinn. Hún er alþjóðleg, íslensk stofnun, sniðin eftir nútíðarhag þjóðarinnar.

Það þýðir ekkert að tala um þjóðlega stefnu í bankamálum hjer á landi að undanförnu, þar sem alt hefir jafnan gengið á trjefótum í þeim efnum. Þó að Íslendingar sjeu fræðimenn allmiklir og vel að sjer gerir um margt, hafa þeir aldrei verið sjerfræðingar í bankamálum.

Þá fer nefndin að telja fram rök þau, er talin hafi verið gegn því, að Landsbankinn fari með seðlaútgáfu. Telur hún þar fyrst til, að erlend reynsla sýni, að seðlabanki eigi aðallega eða eingöngu að vera „banki bankanna“. Telur hún það satt, að „söguleg þróun“ hafi valdið þessu erlendis.

„En hjer á landi er ekki þeirri sögulegu þróun til að dreifa“ — segir meiri hl. — Það er örðugt að skilja, við hvað hann á með þessu. Satt er það, að seðlaútgáfan er ekki komin í jafnfullkomið lag sem erlendis. Það er þessi „þróun“, sem hjer vantar í framkvæmd, en minni hl. vill sem allra fyrst koma fram. Gamla, úrelta, fyrirkomulagið hefir ekki reynst hjer betur en annarsstaðar. Þessvegna er engin einkaástæða fundin fyrir Ísland til þess að halda í eða elta úrelt skipulag í seðlamálinu.

Nefndin segir sjerstakan seðlabanka hjer „nýja stofnun og óreynda, hreina tilraun.“ Jú, jú. Ný hlýtur stofnunin að vera í upphafi; og er þar víst ekkert frábrugðin öðrum stofnunum, sem komið er á fót. Það er ekki hægt að reisa að upphafi „gamla stofnun“. Þetta er rjett. En fyrirkomulagið er ekki „óreynt“ í öðrum löndum, heldur einmitt fram komið þar, er mönnum hafði reynst það fyrirkomulag óhæft, sem meiri hl. heldur nú fastast við. „Hrein tilraun“ er það ekki, að fara að hagkvæmri reynslu annara; hitt óþarfa tilraun og undarleg, að fara því enn fram, er hvarvetna hefir illa gefist, á Íslandi sem annarsstaðar.

Þá víkur nefndin að því, að hjer vanti seðlabankann „efnivið“, jafnvel þótt hann væri sniðinn eftir erlendum siðum. Þar sjeu seðlabankarnir meðal öflugustu bankanna. Hjer sjeu ólík skilyrði fyrir hendi o. s. frv. — En hjer ber enn að sama brunni um röksemdirnar. Aðstaða seðlabankans mundi verða áþekk gagnvart hinum bönkunum, því sem gerist erlendis, hlutfallslega. Seðlabankinn mundi ekki verða kúgaður af hinum bönkunum, því að þeir eiga einmitt undir högg að sækja til hans, og þótt íslenskur seðlabanki jafnist vitanlega ekki að auð og afli við slíka banka í ríkari löndum, þá er alveg hið sama að segja um aðra ríka banka þar móts við „dvergbankana“ hjer á landi. Hlutfallið mundi verða nokkuð áþekt.

Það er lafhægt að gera lítið úr seðlabankanum meðan hann er ekki stofnaður, segja, að hann vanti fje og áhrif o. s. frv., en þetta er þó alt órökstutt. Ef bankinn fær álíka mikið stofnfje, sem Landsbankanum er ætlað til seðlaútgáfunnar, þá eru þessar mótbárur fallnar um koll. — En auðvitað er hitt, að nýr banki er fátækari fyrst í stað en gamall banki, ef hann hefir þá lifað á einhverju öðru en því, að vera „altaf að tapa“.

Nefndin telur það öfgar, að hjer á landi sjeu atvinnugreinar svo stopular, að grundvöll vanti fyrir bein viðskifti seðlabanka við atvinnurekendur, og ef svo væri, mætti leggja árar í bát og gefast upp. — En fyr má rota en dauðrota. Því að þótt varla sje hjer teljandi svo öruggar stofnanir, sem seðlabankar eiga bein skifti við erlendis, þá er ekki þar með sagt, að allir atvinnuvegir sjeu óhæfir yfir höfuð. — Er ekki megnið af erlendum atvinnurekstri á þá leið, að seðlabankar láni alls ekki fje sitt beint til þeirra? Og þó eru þeir reknir og studdir af öðrum bönkum engu að síður. Kemur þó engum í hug að halda því fram, að seðlabankar sjeu slíkum atvinnurekstri gagnslausir, þar sem þeir styðja einmitt almennu bankana.

Þá mintist nefndin á ótta manna við einveldi og ofríki í fjármálum, ef almenn viðskiftastofnun fari einnig með seðlaútgáfurjettinn. Satt er það, að margir óttast þetta og er það alls eigi af ótta við sjerstaka menn eða sjerstaka stjórn, heldur við það skipulag, sem hlýtur að hafa einræði í för með sjer.

Veit jeg það að vísu, að ýmsir telja þetta einmitt höfuðkost, að fá einveldi og einræði í fjármálum. Vil jeg þar fyrst til nefna „stjórnlyndu“ mennina, og er þessi skoðun alveg eðlileg frá þeirra sjónarmiði. Mig undrar því síst, heldur tel það allskostar eðlilegt, er hv. 2. þm. Reykv. (JBald) gerist andvígur minni hl. og fylgir frv. stjórnarinnar. Það er alveg í samræmi við stefnu hans, að fjármálin lúti öll einum vilja. Hann er því rjettmætur fylgismaður stjfrv. En torskildara er hitt, hve þetta „stjórnlyndi“ hefir gripið um sig meðal ýmissa annara manna innan þingsins.

Nefndin vill þó ekki telja einveldið kost og reynir að draga fjöður yfir hættu, er af því standi. Segir hún, að hægt sje að losna við „hlutdræga bankastjóra“ o. s. frv. En það er einmitt löggjöfin, sem býr bankastjórninni svo í hendur, að torstýrt er hjá skerjum einveldis og hlutdrægni, hver sem við stýrið situr.

Það er mikill munur á, hvort sjerstakur seðlabanki á hlut að máli, sem sjálfur stendur utan við dagleg viðskifti og er óháður atvinnurekendum og stofnunum, er skifta við bankana, og hefir enga sjerstaka hagsmuni að misjafna með þeim, heldur halda atvinnumálum landsins yfir höfuð á rjettum kili — eða einum samkepnisbankanum, sem rígbundinn er af fortíð sinni við ýmsar stofnanir, sem hann verður, meðfram sín vegna, að halda lífinu í. Hann hlýtur þá, sjálfrátt og ósjálfrátt, að draga taum þeirra stofnana, sem hann á fje undir, stundum á þann hátt, sem þjóðinni, eða einstökum stofnunum og atvinnuvegum getur verið óhollara, einungis af þeirri ríku hvöt, sem hann hefir til þess að sjá sínum viðskiftavinum og þar með sínum eigin hagsmunum sem best borgið. Til þess beitir hann þá þeim vopnum, sem hann hefir, og verður því seðlaútgáfan mjög öflugt vopn í höndum hans. Slíkur banki getur sagt við annan banka, er leita þarf til hans seðlaláns gegn trygging í víxlum, að þessa og þessa víxla taki hann alls ekki sem tryggingu og jafnvel neitað um seðla, nema hinn hafni framvegis viðskiftum við þessa menn og stofnanir, eða að minsta kosti dragi saman seglin við þá. Og þetta getur eingöngu stafað af fyrnefndum hagsmuna ástæðum.

Fyrir alt þetta er girt með sjerstökum seðlabanka, og er þetta atriði mjög þungt á metunum. Mun það hafa valdið einna mestu um það, hve allur almenningur hjer um slóðir hefir gersamlega snúið baki við till. meiri hl.

Bankastjórn, sem á annan veg er bundin í báða skó af fyrri viðskiftum sínum og árlegum stuðningi við sjerstakar stofnanir og menn — en á hinn bóginn á að hnitmiða vogarskálir rjettlætisins og skifta rjett milli sín og keppinautarins, er sett í þann vanda, sem fáir mundu leysa. Mundi þar koma fram hið fornkveðna, að ilt er tveimur herrum að þjóna. Banki, sem hefir stórfje í veltunni fyrir almenning og sjálfan sig, verður fyrst og fremst að sjá sínum hag og þeirra borgið. Athygli hans hlýtur mest að verða bundin við hin daglegu viðskifti og störf, sem honum sjálfum koma beint við. Seðlaútgáfan hlýtur að verða aukastarfsemi. Sjerstök stofnun hefir alt aðra aðstöðu til þess að ná rjettu yfirliti um hag einstaklinga og stofnana, við hvern banka sem þeir skifta og haga seðlastarfseminni með langtum meiri viðsýni, sanngirni og rjettlæti.

Það eru lagafyrirmælin í stjfrv., sem ójöfnuðinum koma af stað, ef þau ná fram að ganga. — Jeg benti áðan á, hversu viðsjárvert þetta væri fyrir keppinauta, sem skifta sinn við hvern banka og skal bæta því við, að slíkum keppinautum, hvort sem eru kaupmenn, kaupfjelög, verksmiðjur eða önnur fyrirtæki, mundi eigi ávalt vera geðfelt, að víxlum þeirra væri „flaggað“ sem endurtryggingarvíxlum frammi fyrir stofnun, sem styddi og styrkti keppinauta þeirra.

Nefndin drepur aftur á það, að seðlabankinn eigi að vera sterkur, og telur það kosti, sem Landsbankinn hafi. Jú, það er alveg rjett, að seðlabanki á að vera sterkur, en hann á ekki að keppa við aðra banka og koma þeim í hel. Hann verður og nógu sterkur, þótt hann sje eingöngu seðlabanki. Þetta ber og með sjer þroskun bankanna í útlöndum.

Þá kemur 4. atriðið, og er þar talað um, að veltufje mundi skifta um starfsvið, en ekki í sjálfu sjer minka, þótt bankinn festi allmikið fje sitt í verðbrjefum. Árlegt veltufje hlýtur þó að minka við þessa breyting. Og bankarnir hafa nú þegar of lítið veltufje, en allir telja æskilegast, að þeir hefðu það nóg, svo að úr þessum bresti er síst bætt með þessu fyrirkomulagi.

Það á nú að friða menn með því, að hjer á þinginu sje frv. um nýjan einkabanka, sem bæti nokkuð úr fjeskortinum. Saki því minna, þótt Landsbankinn dragi eitthvert fje úr veltu. — Milliþinganefndin taldist fylgjandi stofnun nýrra einkabanka, og var jeg þar sömu skoðunar. — En jeg tel þetta frv. um nýjan banka eigi svo mikils virði, að það bætti úr þeim vandræðum, sem nú eru og til er stefnt með minkandi veltufje Landsbankans, enda óvíst, að nýi bankinn komi fyrst um sinn, því að sjálf hæstv. stjórn telur jafnvel á því tormerki.

Þá snýr nefndin sjer enn að því, að telja fram þau rök, er beint mæli með því, að Landsbankinn fái seðlaútgáfurjettinn. Fyrst er talað um þessa „eðlilegu þróun“ og „sögulegu rök“ og þarf ekki frekari skýringa, hver heilaspuni það er.

Þvínæst er talin sú aðalástæða, að bankinn þurfi að vera sterkur. Jú, um það eru allir sammála. En eigi hann að verða sterkur, þarf ríkissjóður að hlaupa undir bagga, og gildir þá einu, að því leyti, hvor leiðin er farin, því að það kemur í sama stað niður.

Það er talað um, að ef alvarlega kreppu bæri að höndum, yrði svo erfið aðstaða seðlabanka, að fyrirtæki mundu hrynja unnvörpum. Þetta er ekkert annað en slagorð út í loftið. Stórkostleg hrun hafa allra helst komið fyrir í útlöndum, þar sem fylgt hefir verið hinu gamla og úrelta fyrirkomulagi. — Hlutverk seðlabankans er einatt að vera banki bankanna, og getur hann ávalt „stýrt og stjórnað“ í samvinnu við aðra banka landsins á miklu hagkvæmari og tryggari hátt, heldur en samkepnisbanki með seðlaútgáfurjetti, því að slíkur banki verður fyrst og fremst að hugsa um „sig og sína“ á krepputímum og sinnir síður almennigshag.

Undir staflið b. er svo sagt: „Þá má og búast við, að seðlabanka mundi ganga erfitt að neyða svo mikla ofjarla, sem hjer væri um að ræða, til þess að taka upp forvaxtabreytingar þær, sem hann teldi nauðsynlegar.“

Jeg hefi áður minst lauslega á þessa „ofjarla“ og finst nærri því, að með þessu sje gert gys að þessum góðu peningastofnunum vorum. Þeir geta ef til vill orðið ofjarlar einstökum mönnum, en aldrei yfirbankanum.

Jeg efast um það, að Landsbankinn geti fyrst um sinn fært niður vexti, því að hann hafi orðið að kenna á tapi því, sem orðið hefir í atvinnugreinum vorum á síðustu árum. En sú stofnun, sem hefir óbundnar hendur og enga fortíð, getur orkað miklu meira.

Þá er sagt undir staflið c.: „En augljósastur verður vanmáttur seðlastofnunarinnar, þegar um það er að ræða, að hafa erlendis þær miklu inneignir, sem nauðsynlegar eru til þess að vernda gengi gjaldeyrisins.“

Það má nú segja þetta og því líkt, en hvernig ferst nú þessum stóru bönkum, þessum „ofjörlum“ og jötnum í augum meiri hl. fjhn., að halda uppi genginu? Reynslan sýnir, að það er engin minsta trygging fyrir því, að þeim farist það betur en seðlabanka. Og svo er því haldið fram, að þessir stóru jötnar geti ekki neitt stutt að viðhaldi gengisins, nema því aðeins, að annar þeirra, Landsbankinn, fari með seðlaútgáfuna. Geta þeir eigi verið í samvinnu við seðlabankann um það efni? Nei, Nei. Það er einungis þessi eini, sanni, ósvikni Brama-Lífs-Elixir, sem nefndin hefir fundið upp, sem á að vera allra meina bót í fjármálum.

Þá er 3. liður. Þar segir svo: „Mjög er hætt við því, að bankastjórn seðlabankans, sem engin bein viðskifti á að hafa við atvinnurekendur, mundi fara á mis við þann kunnugleik, sem nauðsynlegur er.“

Jeg hefi aldrei heyrt meiri fjarstæðu. Það er dálítill mismunur á Íslandi og öðrum löndum, að því, er hjer til kemur. Hjer eru aðeins 100 þús. manna og atvinnuvegir svo fábreytir, að menn eiga hægt með að sjá í stórum dráttum, hvernig ástatt er. Og eins og jeg tók fram við 1. umr., þá er hægra fyrir stjórn seðlabanka hjer að fylgjast með högum manna yfirleitt, heldur en fyrir bankastjóra í öðrum bönkum, því að allskonar smáviðskifti við allan almenning taka mestan tíma þeirra.

Í 4. lið er talað um hinn „afarmikla kostnað“, er leiddi af því að hafa sjerstakan seðlabanka, og að einkennilegt sje „að láta tugi þúsunda til þess eins, sem annar banki ríkisins hefir betri aðstöðu til að rækja“.

Þetta eru ekki annað en órökstuddar fullyrðingar. Hefir margsinnis verið sýnt fram á það, að Landsbankinn hefir ekki hóti betri aðstöðu til þess að rækja þetta starf, að því er til kostnaðarins kemur, heldur en seðlabankinn, svo sem ráð er fyrir gert um stjórn hans.

Menn verða vel að taka eftir því, að enn eru óskipaðir þrír menn til þess að stjórna Ríkisveðbankanum, sem skipað er fyrir með lögum. Þessir sömu þrír menn, sem þegar er lögboðið að skipa, eiga jafnframt að stýra seðlabankanum. Það þýðir því ekki að fleygja þessari kostnaðargrýlu framan í kjósendur, nema því aðeins, að alt eigi að verða tómur skollaleikur, sem gert var hjer á þingi, þegar Ríkisveðbankalögin voru sett. Þau voru þó næsta vel undirbúin. Fyrst var ágætur maður sendur út í lönd til þess að kynna sjer málið, og undirbjó hann það og rannsakaði mjög vel og rækilega. Málið hafði ágætan byr á Alþingi, lög um ríkisveðbanka sett á þingi og staðfest af konungi, — en svo er látið þar við sitja og bankinn ekki stofnaður. Er þetta vísvitandi blekkingaleikur?

Hjer horfir því málinu svo, að óskipaðir eru 3 bankastjórar, sem lög mæla fyrir, til þess að stýra hinum margþráða ríkisveðbanka, og í annan stað þarf að koma seðlaútgáfunni í sama horf sem aðrar þjóðir hafa gert. Þetta hvorttveggja er samrækilegt, svo að ekki er um neina nýja bankastjórn að ræða fyrir seðlabankann. Kostnaðargrýlan er því einber fjarstæða og öfugmæli.

En þá er á hitt að líta, hvort enginn nýr kostnaður stendur af því, að fá Landsbankanum seðlaútgáfuna. Lítum á. Fyrst eiga þingflokkarnir að skipa 15 manna bankanefnd. þessi „ytri hringur“ á víst ekki að kosta neitt, en hann á að velja 5 manna bankaráð, sem á að fylgjast með öllum daglegum störfum bankastjórnar. Eiga þessir 5 menn að fá þrjú þúsund kr. hver á ári. Jeg skal eigi segja neitt um það, hve lengi er hægt að fá valda úrvals fjármálamenn til þess að vinna daglega í bankanum og fylgjast með öllum störfum bankastjórnar fyrir slíka þóknun, en ekki kæmi mjer á óvart, þótt hún reyndist oflág áður langt um liði

Jeg hygg, að allur þessi her sje til lítilla bóta, og mun sú raun á orðin, að slíkar nefndir og ráð komi sjaldan að haldi. Er jeg eigi mjög ginkeptur fyrir þessu umstangi öllu saman, jafnvel þótt kjósa eigi þennan 15 manna flokk á Alþingi, og veit ekki, hvort það hefir nokkur góð áhrif á stjórn bankans. En kostnaðarauki verður mikill að þessu. **

Þá kemur 5. liður, sem er nýtt atriði. Þar er sagt, að ef stofnaður sje sjerstakur seðlabanki, þá sje hætt við „að prívatbönkunum þætti þröngt fyrir dyrum, ef ríkið ætti hjer að reka tvo banka, fyrst seðlabanka og síðan venjulegan banka, með þeim hlunnindum, er jafnan fylgja þeim stofnunum. Alt öðru máli er að gegna með Landsbankann einan sem seðlabanka, því að seðlaútgáfan „hlýtur að kippa honum út úr beinni samkepni“. — Þarna slær alveg í bakseglin fyrir þeim. Fyrst er það, að seðlabanki, sameinaður Landsbankanum undir einni stjórn, hlýtur að vera hættulegri keppinautur „privatbanka“ heldur en Landsbankinn væri án þessa valds, sem seðlaútgáfunni fylgir. Sjerstakur seðlabanki hefir alt aðra aðstöðu gagnvart „prívatbönkum“ heldur en keppinautur þeirra. Í annan stað eru forsendur meiri hl. mjög ósammála um ýms höfuðatriði, er hjer að lúta. Jeg heyrði á hæstv. fjrh. (JÞ), að hann vildi draga úr sparisjóðsstarfsemi bankans, en hv. þm. (ÁÁ) vildi auka hana. Svona eru nú skoðanirnar skiftar. Nú telja sumir, að Landsbankinn yrði svo afskaplega sterkur, ef hann fengi ekki seðlaútgáfurjettinn, en í hinu orðinu segja þeir, að það sje sama sem að drepa Landsbankann, fái hann ekki seðlaútgáfurjettinn. Ennfremur segja þeir ýmist, að seðlabankinn sjerstakur fái engu orkað, eða þá að hann verði sá ofdólgur, sem privatbönkum hljóti að standa hin mesta ógn af. Ja, hverju á nú að trúa? þegar menn eru svona ósammála, en fylgjast þó fast að því að koma málinu fram, þá er eins og þeir viti ekki sitt rjúkandi ráð, og gái einskis fyrir einberum þráa og ofurkappi.

Jeg vil ennfremur biðja menn að athuga þessi orð í nál., að Landsbankanum verði kipt út úr beinni samkepni, ef honum er fenginn seðlaútgáfurjetturin n, en þó á það að vera lífsskilyrði seðlabanka að reka beina útlánsstarfsemi. — Það er gott að koma þessu saman!

Þessu næst telur hv. meiri hl. sjer til stuðnings „þau afareindregnu ummæli allra þeirra sjerfræðinga erlendra, sem leitað hefir verið til í þessu máli, og skal ekki frekar um það talað, því [að] þau eru prentuð með nefndaráliti meiri hluta milliþinganefndarinnar. — Þegar þess er gætt, að hjer eru umsagnir bankastjóra allra seðlabanka Norðurlanda, og auk þess frá einhverjum fremsta fræðimanni utan bankastjórnanna, þá verður einróma álit þeirra mjög þungt á metunum“.

Jeg veit, að þessu er mótmælt áður, enda veitir síst af, þegar hv. meiri hl. talar um „einróma álit“ og „afareindregin ummæli“ þessara manna. En þó að tveir guðfræðingar sjeu í hv. meiri hl., verður vart annað sagt en að þeir hafi lesið brjef þessara manna eins og einn gamall höfðingi las biblíuna forðum (MJ: Nú finst mjer hv. minni hl. höggva nærri sjálfum sjer!) — Í fyrsta lagi er mikið undir því komið, hvernig málið er lagt fyrir hina erlendu fræðimenn, eins og bent var á í umræðunum í hv. Ed. í fyrra. Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hefir nú sýnt fram á, hvernig það var lagt fyrir þá góðu menn, — að það var gert þannig, að varla mátti vænta nema eins svars. Enda eru svörin eftir því. — En í annan stað er það síður en svo, að ummæli þessara manna sjeu meðmæli með stjfrv., þó að sumt hjá þeim bendi í þá átt, að þeir geti ekki fullyrt, að það þurfi að verða til skaða að fela Landsbankanum seðlaútgáfuna. Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) athugaði þetta atriði nokkuð við 2. umr., en þó langar mig til að sýna enn frekar fram á, hve lítill stuðningur hv. meiri hl. er að ummælum þessara manna. Vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp nokkur orð úr brjefum þeirra. Má enginn skilja orð mín svo, að jeg telji mig nokkurn jafnoka þessara lærðu manna, en þó þykist jeg mega sýna, hve varfærnir þeir eru í ummælum sínum, og hve svör þeirra eru óákveðin. Enda er hjer spurt um hluti, sem þá skorti næga þekkingu á staðháttum til að dæma um — svo sem þeir sjálfir játa, og þannig spurt, að varla mátti vænta nema eins svars.

Það er þá fyrst Risto Ryti, aðalbankastjóri Finnlandsbanka. Hann svarar spurningu þeirri, sem honum hafði verið flutt munnlega, um það hvort skaðlegt væri, að seðlabanki ræki innlánsstarfsemi, á þessa leið: „Spurningu yðar um mitt álít mundi jeg svara svo, að það mundi vera eiginlegra og meira í samræmi við reglurnar um seðlabanka, að þeir reki ekki innlánsstarfsemi. Finnlandsbanka hefir t. d. verið sett þessi regla, en hann er eini seðlabankinn í voru landi. — Samt sem áður getum vjer ekki fullyrt, að það þurfi að gera seðlabanka nokkurn skaða, þótt hann starfi jafnframt að innlánum......“

Þetta eru ekki „afareindregin“ ummæli, heldur varnaðarorð hins vitra manns, svo sem hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) benti á í hinni skarplegu ræðu sinni. — Setjum svo, að einhver maður byði að selja mjer bát, en mjer litist allskriflislega á hann. Símaði jeg þá til bátasmiðs og bæði hann að segja mjer, hvort ekki mundi óhætt að fara á sjó á bátnum. Hann svaraði: „Jeg get ekki fullyrt, að þú þurfir að drepa þig, þótt þú róir á bátnum.“ Þetta væru víst „afareindregin“ meðmæli með því, að jeg keypti bátinn! — Jeg veit, að hinir vitru, góðu og tungumjúku sendiboðar hafa talað vel máli sínu og með því stuðlað til þess, að ummæli bankastjóranna urðu sum nokkuð loðin. En ætli það hefði ekki verið hægt að haga spurningunum svo, að svörin hefðu orðið „öðruvísi loðin“, eins og hv. 2. þm. Reykv. (JBald) sagði, ef einhverjir aðrir hefðu talað við þá? — Þetta, sem jeg las upp, er nóg til að sýna andann í ummælum R. Ryti. Hann er bersýnilega hræddur við að fá Landsbankanum seðlaútgáfuna.

Bankastjóri danska þjóðbankans segir, að það muni „varla geta talist hættulegt“, að Landsbankinn fái seðlaútgáfuna, og haldi áfram innlánsstarfsemi. Það eru „afareindregin“ ummæli“!

Forseti sænska ríkisbankans, Adolf af Jochnick, vill, að Landsbankinn fái seðlaútgáfurjettinn smám saman og taki jafnframt við útlendum viðskiftum Íslandsbanka og verslunarvíxlaviðskiftum hans. „í staðinn lætur Landsbankinn Íslandsbanka eftir sparisjóðsviðskifti sín og fær hann (Íslb.) væntanlega einnig að reka veðdeild.“ — Jeg hefi nú ekki orðið var við það í frv. hv. meiri hl. eða hæstv. stjórnar, að Landsbankinn eigi að láta af hendi sparisjóðinn, og hvergi hefir heyrst um nokkra veðdeild handa Íslandsbanka. Síðan heldur bankastjórinn áfram: „Landsbankinn stofnar útibú í öllum hinum stærri kauptúnum — en sparisjóðs og lánsviðskifti útibúanna skulu eftirlátin sparisjóðum á hverjum stað.“ — Jeg fæ nú ekki sjeð, að þetta komi alveg heim við það, sem hv. meiri hl. nú vill vera láta. Hvar kemur fram, að skilyrði bankastjórans sjeu tekin til greina í frv.? — Bankastjórinn talar raunar um, að Landsbankinn ætti að geta veitt hlaupareikningslán og tekið við samskonar innlánum, sennilega vaxtalaust. En síðar segir hann: „Annars ættu aðallánsviðskiftin að vera í höndum sparibankanna, e. t. v. með nokkuð frjálsara formi en nú er. En til þess að seðlabankinn hafi stöðugt yfirlit yfir ástand sparibankans, þá ætti eftirlitsmaður sparisjóða að vera sjálfkjörinn í stjórn Landsbankans.“ — Jeg hefi hvergi orðið þess var í nál. eða frv. hv. meiri hl., að gert sje ráð fyrir nokkru af þessu. En öll þessi skilyrði setur hinn spakvitri maður fyrir því, að fá megi Landsbankanum seðlaútgáfuna.

Þá kemur sá fjórði, N. Rygg, aðalbankastjóri Noregsbanka. Er hann einna íhaldssamastur, einkum fyrir Ísland, og heldur hann, að Íslendingar megi vel við una það skipulag, sem Norðmenn hafa lagt niður. Talar hann um það, að vikið hafi verið frá „almennum reglum, á meðan alt var einfaldara og skemmra á veg komið“. Þó viðurkennir hann, að „rás tímanna“ hafi „leitt í áttina að reglum þeim, sem nú eru taldar gildandi“. Síðan segir hann: „Það skal tekið fram, að Noregsbanki veitir enn þá lán beina leið til almennings“, og er það mest úti um land. — En bæði jeg og aðrir hafa tekið það fram, að ekkert væri á móti því, þótt seðlabankinn lánaði alöruggum fyrirtækjum, svo sem þeim, er Noregsbanki lánar. En gallinn er sá, að slík fyrirtæki finnast, að heita má, ekki hjer á landi. — Þá segir bankastjórinn, að Noregsbanki hafi „eftir því sem tímar liðu, færst meira í það horf að verða banki bankanna . . . . “ Auðvitað er æskilegt að hagnýta eftir megni viðurkendar meginreglur annara landa“; en þessar „meginreglur“ eru einmitt þær, að seðlabankar eigi að vera bankar bankanna. Mjer er því alveg óskiljanlegt, hvernig hv. meiri hl. og Morgunblaðið geta talið ummæli þessa manns „afareindregin“; því að það er algerlega tilhæfulaust og gagnstætt því sanna. — Þá segir Rygg bankastjóri ennfremur: „Gjarna skal það játað, að ýmsir ókostir fylgja því að sameina svo ólíkar stofnanir (sem seðlaútgáfu og almenna lánsstofnun), en með viðeigandi varúðarreglum má draga úr þeim. “Hann viðurkennir þannig, að miklir ókostir sjeu á því að fá Landsbankanum seðlaútgáfuna, þótt hægt sje að draga úr þeim. En hvað er gert til þess að draga úr hættunum, þegar ekki sjest, að neinar varúðarreglur þessara erlendu bankastjóra sjeu teknar til greina? Væri ekki best að útrýma þessum ókostum alveg, með því að stofna sjerstakan seðlabanka þegar í stað? — Það er næsta auðsjeð, að þessi bankastjóri heldur, að Ísland sje mjög skamt á veg komið. Er það eðlilegt, þar sem hjer eru aðeins 100 þús. íbúar, og er þá við að búast, að ókunnugir hugsi, að vjer megum bjargast við alt ófullkomnara, en aðrar þjóðir. En það virðist sjálfsagt að taka það form, sem fullkomnara er, þegar lítill eða enginn kostnaðarauki er að því. — Þessi sami bankastjóri telur, að æskilegt sje „að takmarka aðstreymi sparifjár að því leyti, sem auðvelt er að koma því fyrir í öðrum bönkum — og haga öllu svo til, að hægt verði á sama tíma að losa bankann alveg við þá starfsgrein, sem kringumstæðurnar rjeðu, að sameinuð var seðlaútgáfunni.“ — Þessar „kringumstæður“ geta ekki verið aðrar en þær, að hjer sje alt svo skamt á veg komið fyrir fátæktar sakir, að því verðum vjer að una við hið úrelta og afrækta. En nú vitum vjer sjálfir, að oss er eigi ofvaxið að hafa það fyrirkomulag, er best hentar. Fellur því þessi ástæða alveg niður. Hitt játar bankastjórinn, að það brjóti viðurkendar meginreglur, að fá Landsbankanum seðlaútgáfuna. — Hann tekur það einnig fram, að eigi bankinn að taka við innstæðum almennings, leggi það bankastjórninni auknar varúðarskyldur á herðar, „því að ef innstæðum er óvarlega ráðstafað, lendir öll starfsemin í hættu.“

Þá kemur Axel prófessor Nielsen hinn danski. Sje jeg ekki ástæðu til að fara um hann eða brjef hans mörgum orðum. Er það þó enganveginn fyrir þá sök, að hann sje ekki vafalaust merkur maður, heldur fyrir hitt, að hv. 1. þm. G.-K. (BK) og fleiri sýndu berlega, þegar á þingi í fyrra, fram á, hve lítið er á röksemdum hans að byggja í þessu efni. Hann játar þó, að menn hafi í „ýmsum löndum verið nokkurnveginn sammála um það, að seðlabankarnir eigi ekki að taka við fje til ávöxtunar. Nefna má sem dæmi, að Deutsche Reichsbank hefir með lögum frá 1875 fengið leyfi til þess að veita viðtöku innlánsfje gegn vöxtum, en þó ekki takmarkalaust, en þetta hefir hann ekki fært sjer í nyt í mörg ár, og það hefir verið almenn skoðun, að ávaxtabær innlán í seðlabanka muni freista hans til að taka tillit til hagnaðarins, og gæti auðveldlega orðið til þess, að bankinn geigaði frá þeirri meginstefnu sinni, að halda uppi gengi gjaldeyris landsins, en það markmið er ekki allajafna samrýmanlegt hagnaðarmarkmiðinu.“

Þetta tel jeg hárrjett. Því hefir bönkunum hjer gengið illa að halda uppi gjaldeyrisversluninni, að þeir eru hagsmunabankar, og má því eigi gera sjer bjartar vonir um, að það breytist, þótt Landsbankinn fái seðlaútgáfuna.

Skal jeg nú ekki þreyta hv. deild með því að vitna meira í skrif þessara manna. En það tel jeg viturlega ráðið af hv. meiri hluta fjhn., að prenta ekki upp ummæli þeirra, heldur láta sjer nægja að tala um, að þetta sje þeirra bjargföst skoðun, og vísa að öðru leyti í nál. meiri hl. bankanefndarinnar — í þeirri von, að menn skygnist ekki of djúpt í það. En ef brjefin, sem nál. fylgja, eru lesin ofan í kjölinn, sjest, að þar er hver höndin upp á móti annari. Og þótt bankafræðingarnir sjeu ekki allir sammála um öll atriði, þá koma fram ástæður hjá þeim öllum í heild, svo að einhver þeirra er á móti nær hverju atriði í frv. hv. meiri hl. milliþinganefndarinnar og hæstv. stjórnar. — Hefi jeg þá lokið að tala m „þau afareindregnu ummæli allra þeirra sjerfræðinga erlendra, sem leitað hefir verið til,“ og hið „einróma álit“(!) þeirra.

Þá er talað um það í nál. meiri hl. fjhn., „að fela þeim banka, sem ríkið á nú, seðlaútgáfuna.“ En jeg vil í allri vinsemd benda hv. meiri hl. á, að einnig er ætlast til þess, að ríkið eigi seðlabankann, svo að í því tilliti er ekki mikill munur á tillögum vorum.

Þá er talað um að gera bankann „svo vel úr garði, að hann verði sem hæfastur til að leysa hlutverk sitt af hendi.“ — Það á að gera með ýmsu móti: „l. Bankinn er gerður sæmilega fjesterkur með því að leggja honum til ríflegt stofnfje, sem hann þarf ekki að ávaxta frekar en ástæður allar leyfa honum það, og gefa honum mjög góða aðstöðu til að safna að sjer varasjóði.“ — En hvaða banki verður ekki „sæmilega fjesterkur“, ef honum er fengið „ríflegt stofnfje“ og að öðru leyti „mjög góð aðstaða?“ — Það hefir farið fyrir hv. meiri hl. í þessu eins og greinir í hinu forna máltæki: Sá, sem sannar of mikið, sannar ekkert. — Það er vitanlega rjett, að með þessu móti má gera Landsbankann „sæmilega sterkan,“ — en á það ekki eins við um sjerstakan seðlabanka?

Þá heldur nál. áfram: „2. Bankastarfsemin er takmörkuð, bæði með því að festa talsvert af fje hans í verðbrjefum, sem hann getur gripið til, þegar snögga fjárþörf ber að höndum, og með því að skylda hann til þess að hafa fje sitt í eins stuttum víxlum og hægt er að heimta hjer á landi.“ — Þarna á að fara að takmarka starfsemi bankans, en stundum er látið í veðri vaka, að hún verði aukin með breytingunni. Enda virðist svo, sem þarna og víðar logist þeir á hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), sem vill láta Landsbankann gleypa alt, og hæstv. fjrh. (JÞ), sem takmarka vill starfsemi hans. — Það er vitanlega rjett, að með því að festa fje bankans í verðbrjefum fæst tryggari geymsla á fjenu. En er þetta fje ekki þar með tekið frá hinni daglegu viðskiftaþörf, og hvað á að gera við alla þá skuldunauta, sem þannig verður vísað út á gaddinn? — Það má einnig vera, að þægilegt sje fyrir bankann að lána fje sitt í sem allra stystum víxlum. En ætli viðskiftamönnum bankans þyki mikil bót að því? Það er viðskiftavenja hjer í landi, að menn fái víxillán framlengd árum saman, í stað þess að fá ábyrgðarlán og önnur föst lán, eins og tíðkast víðast erlendis. Væri sennilega til lítillar þurftar að bregða þeirri venju. Þessu hafa menn tekið eftir, og hefir það ásamt öðru orðið til þess, að allir kaupsýslumenn eru á móti stjfrv. — Það mun því óhætt að fullyrða, að þetta með stuttu víxlana verði afskaplega skaðlegt fyrir viðskiftin hjer á landi.

Þá heldur nefndarálitið áfram: ,3. Leitast er við að gefa bankanum öfluga og trygga stjórn, bæði með því að leggja aðalþungann á herðar eins manns, sem hægt er að velja án tillits til launakrafna, með bankaráði, sem verður að vera starfandi og fylgjast með í öllu starfi bankans, og með því að kippa bankanum sem mest undan áhrifum af stjórnmáladeilum og dægurþrasi.“ Jeg fæ nú ekki betur sjeð en að verið sje að skirrast við, að einn verði yfirbankastjóri með frv., því að ekki má gera upp á milli þeirra, sem nú eru þar. Er því fullsnemt að byggja mikið á þessum eina aðalbankastjóra, meðan þar eru þrír bankastjórar, sem allir eru innan við fimtugt. En nú vill svo vel til, að reynslan sýnir, að bankastjórar Landsbankans verða manna langlífastir. Síðan bankinn var stofnaður hefir aðeins einn bankastjóri fallið frá. kominn á níræðisaldur. Hinir lifa enn, og eru sumir orðnir allgamlir, en þó ernir og hraustir. Nú vona eflaust allir, að þeir ungu bankastjórar, sem nú sitja, verði eigi skammlífari. En þá má búast við því, að þeir verði allir við bankann í svo sem fjóra tugi ára ennþá. Á meðan væri lítið gagn að hafa lög um yfirbankastjóra. — Þá á að koma 5 manna bankaráð, sem fylgist með í öllu starfi bankans daglega. Það er þá líklega betra, að þeir, er þetta bankaráð skipa, hafi ekki ákaflega mörgu öðru að sinna. En hvað eiga þeir svo að hafa í laun? Mjer er til efs, að nokkur fáist í það, nema þá kannske einhverjir gamlir uppgjafa dannebrogsmenn.

Og með 15 manna bankanefnd, sem kosin er af pólitískum þingflokkum, ætla þeir svo „að kippa bankanum sem mest undan áhrifum af stjórnmáladeilum og dægurþrasi.“ Þarna hafa þeir víst sannarlega þótst „hitta naglann á höfuðið!“

En hvort dægurþrasið verði minna meðal þessa grúa af pólitískum flokka fulltrúum, sem hrúga á utan um bankann, heldur en hjá þeim friðsömu bankastjórum, sem nú eru við völd, það er eftir að vita.

Enn fremur er mælt með því, að bankanum sje skiftideildir, til þess að bankastj. „fái skýrt yfirlit um einstakar starfsgreinir hans og geti því ráðstafað fje hans nákvæmlega“. Eftir þessum ummælum ætti þá fje bankans nú að vera ráðstafað ónákvæmlega og bankastjórnina að skorta yfirlit yfir starfsgreinir hans? Þetta eru þungar ákærur, ef nokkurt mark væri á þeim takandi. Svo er bætt við: „að bankinn verði hæfur til fullrar framþróunar í þá átt, sem annarsstaðar hefir stefnt“. Hjer er kannast við, að það sje full framþróun að fá sjerstakan seðlabanka, sem annarsstaðar hafi verið stefnt að og náð. Jeg get ekki annað sagt en jeg sje ánægður með þessa niðurstöðu meiri hl., en finst þeir fara óþarfa krókaleið að takmarkinu. Samkvæmt þessu skora jeg á hv. meiri hl. að taka aftur sitt frv., en taka upp í staðinn mitt frv., laga á því misfellur, sem á kunna að vera, og koma því gegnum þingið áður en því lýkur.

Þeir segja „án örðugleika“, af því að banki í 3 deildum verður það aðeins að forminu til. Ofríki verður eins mikið og ef tvær eru ríkisstofnanir, sem önnur hefir seðlaútgáfurjettinn, en hin annast sparisjóðsviðskifti og almenn viðskifti.

Það vakir fyrir mjer að koma íslenskum bankamálum í lag, koma nútíma skipulagi á útgáfu seðla og reisa úr rústum ríkisveðbankann, sem er þjóðinni bráðnauðsynlegur. Með því væri hrundið í framkvæmd hinu öflugasta fyrirtæki til viðreisnar landbúnaði vorum, og framtíð hans langtum betur trygð en með því, sem hv. þm. Str. (TrÞ) hefir lagt til, að ákveða honum vissan hluta af fje Landsbankans, enda veit jeg, að háttv. þm. muni einnig líta svo á málið.

Öflugt og fast skipulag á fasteignalánum, með fyrirkomulagi ríkisveðbanka, mundu allir verða ánægðir með. Enginn aukakostnaður þyrfti af því að leiða, að seðlabankinn lyti sömu stjórn, annar en nauðsynlegur stofnkostnaður. En sá er munurinn, að seðlaútgáfurjetturinn væri þá í höndum banka, sem ekki er samkepnisbanki og stendur alveg utan við innanlandsdeilur.

Seðlabanki sem þjóðbanki mundi samkvæmt tilgangi sínum og skyldu halda verndarhendi yfir bankastarfsemi í landinu. Hann mundi gera peningastofnunum jafnhátt undir höfði, og er síst ástæða til að óttast, að hann kynni að halla á Landsbankann.

Skal jeg nú ekki ræða mál þetta meira. Þykir mjer sem háttv. nefndarmenn hafi sótt með ofurkappi sinn málstað. En þó er svo mikið víst, að fylgi við tillögur þeirra þverr óðum innan hv. deildar. Utan þings hefir það aldrei verið svo mikið, að það hafi þar nokkuð að missa.