08.05.1926
Neðri deild: 74. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í C-deild Alþingistíðinda. (2683)

81. mál, Landsbanki Íslands

Jón Baldvinsson:

Jeg hefði nú ekki kvatt mjer hljóðs aftur um þetta mál, ef jeg hefði ekki við nánari athugun fundið ákvæði í frv., sem mjer virðist varhugavert og vildi því skjóta til hæstv. fjrh. (JÞ) og hv. meiri hl. fjhn., hvort ekki mundi rjett að breyta því. Þetta ákvæði, sem jeg hnaut við, er í 1. málsgrein 12. gr. frv. og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar alveg sjerstaklega stendur á, svo sem vegna ófriðarástands eða afleiðinga þess, eða ef óvenjuleg peningakreppa skellur á, er heimilt með konunglegri tilskipun að veita bankanum undanþágu frá ákvæðum 7. gr., um innlausn seðla, þó aldrei um lengri tíma en eitt ár í senn.“

Þessi gr. í bankalöggjöf, sem menn hugsa sjer til frambúðar, álít jeg að þurfi ekki að standa. Það er yfirleitt bygt á því í frv., að gullgengi verði á seðlunum, og því ástæðulaust eftir anda frv. að hafa slíkt ákvæði í almennri bankalöggjöf, enda virðist mjer það að ýmsu leyti óheppilegt, einkum þó vegna þess, að greinin er þannig orðuð, að þetta gæti orðið misnotað í framkvæmdinni. Mjer finst, að slíkt ákvæði sem þetta ætti að falla undir bráðabirgðaákvæði, og falla svo niður eða vera úr gildi numið, þegar það ástand er læknað, sem það átti við.

Þessari athugasemd minni vildi jeg leyfa mjer að skjóta til hv. meiri hl. fjhn. eða hæstv. fjrh. (JÞ), og vænti þá, að mjer verði svarað, hvort fært þyki, að setja bráðabirgðalög um þetta efni, eða að þetta ákvæði 12. gr. verði algerlega strikað út úr frv. — nú, eða þá í þriðja lagi, að sett verði sjerstök lög, sem heimila ríkisstjórninni undanþágu um innlausn seðlanna, þegar svo stendur á, eins og þarna mælir fyrir um.

Í þessu sambandi vil jeg benda á það, að í sjerleyfislöggjöf Íslandsbanka er ekki þetta ákvæði um innlausn seðlanna, sem þó eru gulltrygðir. Heldur hafa bráðabirgðalög um undanþágu í þessu efni verið gefin út á hverju ári, eða í hvert sinn, sem nauðsyn hefir þótt. En ef þetta á að ílendast í bankalöggjöfinni, gæti svo farið, að ákvæði þetta, sem er svo teygjanlegt, yrði notað, þó til þess lægju ekki þær ástæður, sem ætlast er til, því vitanlega er það bankinn og stjórnin, sem eiga að dæma um, hvenær sjerstaklega stendur á.

Vilji hv. frsm. (MJ) eða hæstv. fjrh. (JÞ) ekki fallast á að taka upp þessar breytingar, þá mun jeg bera fram brtt. um, að þetta verði flutt aftur í 7. kafla, sem hljóðar um ýms bráðabirgðaákvæði.

Að vísu er það tekið fram í þeim kafla (í 64. gr.), að ákvæði 7. gr. eigi að ganga í gildi, þegar Alþingi ákveður. Og get jeg betur fallist á það, en finst varhugavert að láta upphaf 12. gr. standa eins og það er nú.

Þetta voru þá athugasemdir þær, er jeg vildi gera, og vænti, að þær verði teknar til greina.

Að öðru leyti ætla jeg ekki að blanda mjer inn í þær deilur, sem orðið hafa um þetta mál, enda hefir litlu verið beint að mjer, nema það, sem háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) var að tala um þróun bankanna og ástæður þær, sem orðið hafa því valdandi, hvernig farið hefir fyrir Íslandsbanka. Jeg sje ekki ástæðu til að karpa frekar um það efni, og álít, að jeg hafi fært eins sterk rök fyrir mínu máli eins og hann. Það hefir litið svo út, að prívatbankinn hafi verið sterkari en þjóðbankinn. Hann hefir fengið öll þau hlunnindi og fríðindi, sem hann hefir farið fram á, en alt hlaut það að verða til þess að veikja hinn bankann, að minsta kosti óbeinlínis. Nú er Íslandsbanki líka að nokkru leyti kominn undan yfirráðum ríkisins, eins og kom í ljós í umr. um fjárlögin nú í vetur, þar sem hæstv. fjrh. (JÞ) lýsti því yfir, að hann eða stjórnin hefðu engin ráð á bankanum, þó að skipaðir væru þar 2 bankastjórar að tilhlutun stjórnarinnar.

Út af því, sem hv. þm. N.-Þ. (BSv) sagði í gær um athugasemdir mínar, og játaði, að ekki væri nema stigmunur milli mín og hans, úr því jeg væri með því að fá Landsbankanum seðlaútgáfuna, þá vil jeg bæta því við, að mjer virðist meira ofríki felast í hans till. en mínum og sama „einokunin“ verða á seðlunum, en ekki „frjáls verslun“, verði það úr, að sjerstök seðlastofnun hafi útgáfuna með höndum. Það sem hann finnur aðallega að því, að Landsbankinn sje gerður að seðlabanka, er það, að bankinn sje þá samkepnisbanki eða hafi jafnframt með höndum áhættustarfsemi, þar sem hann láni fje til reksturs atvinnuvegunum.

Hv. þm. N.-Þ. (BSv) sagði það óþægilegt, að Landsbankinn, sem, þá væri seðlabanki, keypti víxla af hinum bankanum og fengi með því að vita um hag viðskiftamannanna, en jeg sje ekkert athugavert við það. Því að jeg geri ekki ráð fyrir, að aðrir víxlar gangi milli bankanna en þeir, sem teljast verða nægilega tryggir; hinsvegar get jeg tæplega búist við, að víxlar, sem aðeins nöfn manna standa á, án nokkurrar baktryggingar, verði teknir gildir í viðskiftum milli seðlastofnunarinnar, hvort sem hún er sjerstök eða í sambandi við Landsbankann og bankana.

Jeg ætla ekki að fara frekar út í þetta að sinni, en vik því til hv. frsm. meiri hl. (MJ), hvort hann mundi ekki sjá sjer fært að taka til athugunar að breyta 12. gr. á þá leið, sem jeg hefi talað um.