08.05.1926
Neðri deild: 74. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í C-deild Alþingistíðinda. (2691)

81. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Hv. 2. þm. Árn. (JörB) minti mig á það, þegar hann var að tala um það, hvað stjórn bankans væri snildarlega fyrirkomið, þegar hæstv. fjrh. (JÞ) varpaði því fram við 2. umr., að hann sæi ekki annan kost á sjerstökum seðlabanka en þann, að hjer væri pláss fyrir 6 menn í stjórn, í stað 3 áður. En hvað margir menn eiga að verða í stjórn Landsbankans? Þeir eiga ekki að verða aðeins 6, heldur nálega fjórfalt fleiri, eða svona 23. Það er höfuðkostur frv. frá þeirra sjónarmiði að geta komið að mörgum mönnum við Landsbankann. Þeim er að vísu ekki ætluð laun öllum að svo stöddu. En hvað lengi helst það? Það getur breyst áður en langt er um liðið. A. m. k. þarf sú mikla bankastjórn að fá einhver laun fyrir starfa sinn, ferðakostnað hingað til bæjarins og dagpeninga meðan þeir eru hjer á fundum. Og þegar um marga menn er að ræða, þá dregur það sig saman. Í raun og veru er fyrirkomulagið þannig, að bankastjórarnir eru fjórir, þar sem formaður bankaráðsins á að vera sístarfandi í stjórn bankans eftir því, sem þetta fyrirkomulag er hugsað, og það er enginn vafi á því, að með þessu fyrirkomulagi verður stjórn bankans dýrari en með því fyrirkomulagi, sem minni hl. stakk upp á, enda þótt bankarnir væru tveir. Jeg held, að þetta stjórnarbákn sje til engra bóta. Jeg held, að reynslan úti um lönd hafi sýnt það, að bankaráðin hafi ekki „spilað mikla rullu“ í stjórn bankanna, og um reynsluna hjer er óþarft að tala. Þetta var nú aðeins lauslegt innskot út af saklausum ummælum hv. 2. þm. Árn. (JörB).

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) vjek því til mín út af því, sem jeg sagði við 2. umr. og háttv. þm. N.-Þ. (BSv) hefir bent á, að þetta mál hefir ekki verið sem best lagt fyrir hina erlendu sjerfræðinga. Út af þessu beindi hv. þm. því til okkar, að áður en þetta mál hefði verið lagt fyrir þá, hefði nefndin verið öll í einu lagi, en hefði klofnað fyrst eftir það. Vildi hann því halda því fram, að sökin hvíldi á allri nefndinni. Það má e. t. v. til sanns vegar færa. En munurinn er sá, að minni hl. hefir dregið ályktanir af svörum sjerfræðinganna í samræmi við það, hvernig það var fyrir þá lagt, en meiri hl. eins og ekkert væri um það að athuga. Ber því meiri hl. sjerstaka ábyrgð á því, hvernig málið var borið fram, hvernig hann byggir á árangri málaleitunarinnar til hinna útlendu sjerfræðinga og á afleiðingunum af henni. Er þetta því engin afsökun fyrir meiri hl. Hinsvegar hefir hvorki frsm. meiri hl. (MJ) eða hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) mótmælt því, að jeg hefði lýst rjett, hvernig málið var lagt fyrir hina erlendu sjerfræðinga, sama sem sagt, að við hefðum ekki efni á að koma upp sjerstökum seðlabanka. Jeg verð að segja, að mjer finst vörn meiri hl. ljeleg, því að þessi ásökun í garð meiri hl., um, að hann hafi borið málið og lagt fyrir hina erlendu bankafræðinga mjög hlutdrægt, er mjög þung í sjálfu sjer, en meiri hl. ekki borið við að svara þessu (MJ: Jú, við 2. umr., og svo var skýrt frá þeim í nál.). Það var víst afskaplega ljelegt svar. Jeg minnist þess ekki, að nokkur úr meiri hl. hafi skýrt frá því, hversvegna ekki var lagt fyrir hina útlendu bankafræðinga sú tillaga að hafa seðlabanka í sambandi við veðlánsbanka.

Hæstv. fjrh. (JÞ) mælti með brtt. sinni á þskj. 485, um að breyta ákvæði, sem sett var inn í frv. við 2. umr. og jeg hafði greitt atkv. með, um ávöxtun opinbers fjár í bankanum. Hann sagði, að óheppilegt væri fyrir ríkisstjórnina að mega ekki hafa innlán í öðrum banka, og bætti því við, að bankinn hefði oft bandað við slíku fje. Jeg verð að segja, að nokkuð öðru máli gegnir um Landsbankann fyrir Landsbankann eins og hann nú á að verða, þegar hann sem seðlabanki á að fara að starfa með innlánsfje. En mjer skilst, að eigi hann að fara að starfa með innlánsfje, þá sje það mikill kostur að hafa einmitt það innlánsfje, sem hann getur best treyst á. En um annað innlánsfje veit bankinn ekki hvenær rifið verður út, en opinbert fje er aldrei rifið út. Gæti það alveg komið bankanum á kaldan klaka að hafa innlánsfje, sem þá og þegar væri rifið út. Þessvegna verð jeg að halda mjer við það, að eigi að halda þessu fyrirkomulagi, að til mikilla bóta sje fyrir bankann að hafa einnig opinbert fje. Þar að auki er meiri hluti þess að sjálfsögðu hlaupareikningsfje, sem sjerstöku máli gegnir um.

Hæstv. fjrh. sagði, að ekki þýddi að fást um ákvæði, sem er á tveim stöðum í frv. um það, að Landsbankinn megi ekki lána ríkissjóði nema ákveðna upphæð. Það mætti deila um, hve heppilegt þetta ákvæði er. Og þótt það standi í frv., má enn breyta því. Þótt það sje ekki hægt hjer í þessari deild, þá er hugsanlegt, að hv. Ed. tæki það til athugunar, og er nægur tími til þess að fá því breytt þar. Hæstv. fjrh. (JÞ) andmælti því, sem jeg hjelt fram, að með því að draga úr verðbrjefaeign væri bankinn gerður ótryggari. Hann sagði, að af því að síðan þetta ákvæði hefði verið sett inn til þess að gera bankann tryggari, þá væri nú gert ráð fyrir aðskilnaði milli sparisjóðsdeildar og seðladeildar. Jeg hefi áður lýst því, að jeg geri ekki svo mikið úr þessu atriði. Mjer finst, að það hafi í þessu sambandi litla þýðingu. Þessu fje er sjálfráðstafað í sparisjóðsdeildina. En það gæti haft áhrif á ráðstafanir þess fjár, sem fara ætti í seðladeildina, og er því sama nauðsynin að setja jafntryggar ráðstafanir um það og áður. Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), samnefndarm. minn og samherji í þessu máli, er ekki sammála mjer um ávöxtun opinbers fjár í bankanum. Það þýðir ekki að deila um það, við höfum ólíkar skoðanir á þessu. Og þótt við sjeum sammála um höfuðatriðið, að þessa starfsemi beri að aðskilja, þá held jeg þó fast við það, að gera eigi það, sem skárst er, og það er að tryggja bankanum sem best innlánsfje og hentugast að hægt er.

Þar sem talað er um, að ýmsir sjóðir sje stofnaðir með þeim fyrirmælum, að þeir skuli ávaxtast á sjerstakan hátt, þá má ekki setja það fyrir sig. Það liggur í hlutarins eðli, að það verður að gera, þegar gjafafjeð er beinlínis bundið skilyrði um, hvernig það skuli ávaxtast. Enda nær þetta ákvæði ekki til annars fjár en þess, sem óbundið er að þessu leyti.

Jeg hefi skrifað niður hjá mjer aths. hv. 2. þm. Reykv. (JBald) um upphaf 12. gr. Jeg felst á röksemdir hans fyrir því, að rjettara sje að hafa ekki þetta ákvæði um undanþágu frá innlausnarskyldu í frv., svo að hver og ein stjórn yrði að gera það á eigin ábyrgð, ef hún álítur þess þörf, án þess að henni væri gefið undir fótinn með það með slíku ákvæði. Og ef eitthvað bjátaði á, gæti þetta ákvæði leitt til þess, að gripið yrði til ráðstafana undir ástæðum, sem ekki væru forsvaranlegar.

Hæstv. fjrh. sagði, að þetta væri formleg breyting, en þessi breyting er þýðingarmikil, því að hún miðar að því, að koma ábyrgðinni á rjettan aðilja.

Hv. frsm. meiri hl. (MJ) beindi til mín nokkrum orðum, sem að vísu er ekki mikil ástæða til að fjölyrða um. Hann gerði lítið úr ummælum mínum um vaxtahlutföll bankanna, þar sem jeg hjelt því fram, að samkv. frv. yrði seðlabankinn að haga vöxtum sínum eftir einkabankanum. En eftir því, sem greinin hljóðar, er það nú svo. Þó taldi hann bót í máli, að bankinn hefði tök á því að fá einkabankann til þess að hækka vexti. Við litum nú misjafnt á þetta. En jeg er þess ókvíðinn, að til þess komi, að Landsbankinn þurfi að beita hörku við Íslandsbanka til hækkunar. Jeg held, að eftir því, sem efnahagur hans er, að ekki þurfi að gera því skóna í náinni framtíð.

Annarsvegar sagði hv. frsm. (MJ), að það væri auðvitað, að seðlabankinn gæti „diskonterað“ fyrir hinn bankann með vægari kjörum, ef hann vildi haga sjer eftir honum í vaxtapólitíkinni. En eftir því, sem ákveðið er í frvgr., verð jeg að efast um það, því að í henni er þessi ívilnun fastákveðin, og þessvegna skilst mjer, að hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) hafi komið fram með sína góðu brtt. Um gulltryggingarfyrirkomulagið var óþarft af hv. þm. (MJ) að halda nokkurn fyrirlestur, því að það er enginn ágreiningur milli okkar um það, enda engin breytingartillaga um það. Jeg játaði, að uppástunga mín mundi ekki fá byr, þar sem menn vildu helst sem mest fylgja sem fornustum kenningum og fara eftir því, sem annarsstaðar tíðkaðist aðeins í því, sem verst gefst og síst nær tilgangi sínum. Hinsvegar játaði hv. frsm., að það væri rjett, að mín trygging væri „effektivari“, þegar þyrfti að innleysa, og virðist. Það nú raunar aðalatriði málsins. Ýmislegt fleira hefði átt að athuga um fyrirkomulagið á gulltryggingunni, t. d., að hve miklu leyti ætti að hafa gulltryggingu fyrir þeim seðlum, sem aðeins eru í umferð stuttan tíma; gæti verið gott að hafa inneign í erlendum bönkum sem tryggingu fyrir þeim í stað gulls. En þetta hefir litið verið athugað af nefndinni og aðeins tekið upp það, sem hendi lá næst. En jeg held fast við það, að þessi trygging, sem frv. ákveður, sje sama sem engin trygging, því að hvenær sem til hennar á að taka, eru seðlarnir orðnir ótryggir, og verður þá að leysa bankann undan innlausnarskyldunni Jeg get hugsað mjer, að þetta hafi einhvernveginn birtst fyrir hugskoti nefndarinnar, og því hafi þetta ákvæði um greiðan veg til að veita undanþágu frá innlausnarskyldunni verið sett inn í 12. gr., því að hún hafi hugsað sjer, að það gæti einatt að höndum borið, að grípa þyrfti til þess að losa bankann við innlausnarskyldurnar.

Hv. frsm. (MJ) sagði, að þegar talað væri um gulltryggingu, þá væri þetta „ópraktiskt“ atriði, því að það hefði ekki komið til fyr en í ófriðnum mikla, að horfið var frá henni og bankanum gefin undanþága. En einmitt það atriði, sem hv. frsm. (MJ) líka benti á, hve þetta land er langt frá öðrum löndum, gefur sjerstakar ástæður til þess að athuga og yfirvega, hvort ekki sje rjettara að hafa hina tryggingaraðferðina en að hlaupa til og útvega gulltryggingu, þegar í harðbakkann slær eins og hjer er farið fram á. Fleira hefi jeg svo ekki ástæðu til að athuga af því, sem sagt hefir verið í þessu máli