08.05.1926
Neðri deild: 74. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í C-deild Alþingistíðinda. (2693)

81. mál, Landsbanki Íslands

Benedikt Sveinsson:

Jeg skal ekki þreyta hv. þingdeild með langri ræðu að þessu sinni, enda sje jeg, að mjög dregur nú að lokum þessa máls hjer í deildinni. Jeg þarf heldur ekki að deila mikið við háttv. andstæðinga mína að þessu sinni, en vil aðeins gera fáeinar athugasemdir við ræðu hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Hann gat þess út af orðum hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að nefndin hafi verið óklofin, þegar mál þetta var lagt fyrir hina erlendu sjerfræðinga, og mun það vera rjett, að engin misklíð varð um það í nefndinni, hver skjöl skyldi leggja fram fyrir þessa menn, en að öðru leyti átti jeg ekki kost á að bera þetta mál munnlega undir sjerfræðinga, svo að mín afskifti ná ekki lengra en til þess, er gerðist hjer heima á Íslandi, en þessir þrír menn úr nefndinni fóru utan, lögðu málið fyrir og töluðu um það við sjerfræðingana. Hann drap á það, að skjöl þau, er afhent hefðu verið þessum útlendu sjerfræðingum, hefðu eindregnara flutt fram þann málstað, er jeg hefði aðhylst, og samkvæmt þeim plöggum hefði málstaður meiri hl. verið ofurliði borinn. Mun hann þar eiga við nefndarálit frá Ed. frá meðferð málsins þar. — Jeg held, að hv. þm. sje að segja þetta að gamni sínu, því að þótt ágætar röksemdir sjeu í þeim plöggum, sem hann á við, þá hefir mjer altaf skilist, sem hann hafi talið þær firrur einar, sem varla væru „teknar alvarlega“ hjer heima, og hefir sjálfsagt verið auðvelt að láta slíkar „skýringar“ fylgja munnlega, þegar skjölin voru lögð fram, enda á honum að heyra nú, sem líkt hefði verið á þau litið þar úti. Það gægðist og út hjá háttv. þm. (ÁÁ), að hann vildi sem fæst um það tala, hvernig orð hefðu fallið milli þeirra nefndarmanna og sjerfræðinganna, og þar sem mjer er það ókunnugt, skal ekki út í það farið frekara. Og hvernig málið hefði viðhorft, eða hvort öðruvísi hefði orðið niðurstaðan, ef jeg hefði farið utan og talað við sjerfræðingana, eins og háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) sagði, skal jeg ekki segja neitt um. Það, sem um er deilt, er það, hvernig skilja beri það, sem eftir þessum sjerfræðingum er haft.

Hv. þm. (ÁÁ) fór enn að tala um kostnaðinn við sérstakan seðlabanka og þótti hann helst til mikill, en játaði þó, að sjer ægði ekki, ef fyrirkomulagið yrði með þeim hætti betra. En kostnaðarsamanburður hans var ekki rjettur. — Hann og aðrir verða að minnast þess, að ríkisveðbankalögin verða að komast í framkvæmd á næstu árum, hvort sem er, svo að gífurlegur verður ekki aukakostnaðurinn við seðlaútgáfuna. Auk þess verður kostnaðurinn við Landsbankafyrirkomulagið langtum meiri en af er látið, þar sem við bætist nýtt bankaráð. Jeg verð og að benda á, að því eru ætluð mjög umsvifamikil störf, og býst við, að enginn ætlist til, að það starfi kauplaust. Þetta hefir því mikinn aukinn kostnað í för með sjer. Þetta stjórnarbákn er vitanlega gott og blessað í augum þeirra, sem að því standa, en það getur orðið fulldýrkeypt.

Þá var eitt atriði í nál. háttv. meiri hl., sem jeg þarf að gera aths. við og jeg drap á í gær, og vert er að gefa góða athygli. Þar er sagt, að ekki hafi komið fram neinar till. um seðlaútgáfuna, sem deilum hafi valdið, fyr en árið 1924. Þetta er að ýmsu leyti rjett. Það var ekki fyr en eftir kosningar 1923, sem mál þetta kom til athugunar frá nýju sjónarmiði. Það var í Ed. 1924, að ný og rökstudd tillaga kom fram, og var henni í fyrstu fremur lítill gaumur gefinn, en því meira, sem lengra liðu tímar fram, og þarf jeg ekki annað en að vitna til Alþt. um þetta, og til skipunar milliþinganefndarinnar og allrar þeirrar deilu, er síðan hefir risið um þetta. Nú er bankamálið orðið mál málanna, og er því mjög áríðandi, að þeim sje komið í sem tryggilegast form. Mun það draga eftir sjer langan slóða og illan, ef því er ekki ráðið til lykta og úr því leyst sem allra best, þar sem nú er eigi um að ræða að „tjalda til einnar nætur“ heldur á sú skipan að gilda um langan tíma ókominn, er tekin verður. Þess vegna tel jeg ótilhlýðilegt, að þessu stórmáli sje ráðið til lykta án þess að bera það áður undir kjósendur og dóm allrar þjóðarinnar. Því leyfi jeg mjer að bera hjer með fram svohljóðandi rökstudda dagskrá:

„Í því trausti, að stjórnin rjúfi Alþingi nú þegar og stofni til nýrra kosninga, er fram fari á komanda hausti, til þess að kjósöndum gefist kostur á að láta vilja sinn í ljós um helstu deiluatriði í stórmáli því, er hjer liggur fyrir og komið er upp eftir að síðustu kosningar fóru fram, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þessa dagskrá leyfi jeg mjer að afhenda hæstv. forseta.