08.05.1926
Neðri deild: 74. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í C-deild Alþingistíðinda. (2697)

81. mál, Landsbanki Íslands

Jón Baldvinsson:

Þessi dagskrártillaga felur í sjer annað og meira en úrlausn þessa eina máls, bankamálsins, hún felur í sjer þingrof, sem vitanlegt er, að hafa muni mjög víðtækar afleiðingar. Jeg geri ekki ráð fyrir, að mín skoðun í þessu máli breytist í nokkru, þó að nýjar kosningar fari fram, því jeg mun fylgja þessu máli fram, eins eftir sem áður. Hitt er annað mál, hvort menn vilja sýna það frjálslyndi af sjer, að leyfa kjósendum að kveða upp sinn dóm í stórmáli þessu. Þetta þarf engin áhrif að hafa á skoðun mína til þessa máls, jeg mun halda því jafnt fram í kosningabaráttunni og jeg hefi stutt það með atkv. mínu hjer á þingi. Þó segi jeg ekki með þessu strax, hvernig jeg ætla mjer að snúast við þessari dagskrártillögu, jeg er jafnvel ekki viss um, að jeg geti sagt það strax, þó að þessi frestur verði veittur, sem jeg hefi beðið um, og jeg álit því best, að þessu máli yrði frestað til næsta dags.