08.05.1926
Neðri deild: 74. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1441 í C-deild Alþingistíðinda. (2713)

81. mál, Landsbanki Íslands

Benedikt Sveinsson:

Jeg hefi lýst því áður, að ekkert stórmál, sem nú liggur fyrir þinginu, sje stærra en þetta. Það er langveigamesta málið, sem komið hefir upp eftir síðustu Alþingiskosningar. Þjóðin hefir því ekki haft tækifæri til að láta vilja sinn í ljós um það. En málið hefir þó vakið æ meiri og meiri athygli og snortið hugi manna um alt land. Jeg vil taka t. d. Ísafjarðarkaupstað. Mönnum þar verður síst talið það til einkennis, hve sammála þeir sjeu í þjóðmálum. Hefir jafnvel verið brosað að því, að þeir gætu gert sjer alt að deiluefni. Þetta sýnir þó aðeins, hve heitir hugir manna eru þar, og hve vakandi þeir eru í landsmálum. En svo kom þetta stórmál til sögunnar, og var boðað til þigmálafundar í Ísafjarðarkaupstað nú í vetur um þetta mál. — Menn hjer í Reykjavík töldu, að gaman yrði nú að frjetta af þeim fundi; þar mundi alt fara í bál og brand og víst gerast stórtíðindi.

Nú, sannarlega varð það og, að þar gerðust stórtíðindi, því að daginn eftir fundinn frjettist, að þar hefðu menn verið algerlega sammála. Og af hverju? Af því að þetta stórmál sameinaði alla einstaklinga beggja flokka, fátæka og ríka, til þess að reisa rönd við hinum óheillavænlegu tillögum stjórnarinnar og meiri hlutans og mótmæla þeim í einu hljóði. Satt að segja þykir mjer nú kynlega við bregða, er jafnfrjálslyndur maður og þjóðlegur sem hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), sem flest vill bera undir þjóðina, skuli verða sá fyrsti, sem reisir rönd gegn því, að þjóðin megi greiða atkvæði sitt um svo mikilvægt mál sem þetta, mál, sem aldrei hefir áður undir hennar atkvæði komið og nú á að ráða til lykta að henni fornspurðri.

En „ekki er sopið kálið, þótt í ausuna sje komið“. Málið á eftir að fara í gegn um Ed., og verður ef til vill hægt að opna augu manna þar. Og þó að formanni Framsóknarflokksins (ÞorlJ) og hæstvirtri stjórn takist nú að herja málið í gegn, án þess að þjóðin fái að segja álit sitt um það, þá mun nú margur dansa nauðugur, sem von er.