08.05.1926
Neðri deild: 74. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1443 í C-deild Alþingistíðinda. (2715)

81. mál, Landsbanki Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg hefi að sönnu engu að bæta við það, sem hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) hefir nú sagt. En minna vil jeg á það, út af ummælum þeirra hv. 3. þm. Reykv. (JakM) og hv. þm. N.-Þ. (BSv), að þeir hafa kynt sjer illa þær þingmálafundargerðir, sem legið hafa hjer á lestrarsal þingsins nú um þingtímann. En þar má sjá frá meiri hluta kjördæma landsins skýrar samþyktir um það, að Landsbankinn skuli verða seðlabanki landsins og fara með seðlaútgáfuna, svo það er í sjálfu sjer alls ekki næg undirstaða til að reisa kröfu um nýjar kosningar, að þetta mál sje ekki nægilega kunnugt og rætt meðal landsmanna.