24.03.1926
Neðri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í C-deild Alþingistíðinda. (2729)

79. mál, ríkisbankar Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Í umr. um frv. stjórnarinnar til laga um Landsbanka Íslands hefir nú þegar komið fram ýmislegt af því, sem rjettmætt væri að segja um þetta frv. hjer við 1. umr. þess. Jeg ætla þó að setja fram í stuttu yfirliti þær höfuðástæður, sem fyrir mjer eru til þess, að mjer sýnist ekki, að þetta frv. eitt út af fyrir sig og í aðalatriðunum eins og það er, geti orðið viðunandi eða fullnægjandi löggjöf á þessu sviði. Fyrsta höfuðástæðan er sú, að þessum seðlabanka, sem hjer á að stofna, er, að því er mjer virðist, ekki ætlað að hafa á hendi gjaldeyrisverslun, en að minsta kosti meðan búið er við pappírspeninga, og í rauninni líka á öðrum tímum, þá er verslun með erlendan gjaldeyri eitt af höfuðverkefnum seðlabanka, og á meðan pappírsgengi er, þá er það stærsta og veigamesta viðfangsefnið. Þessum banka er ætlað að fá sjálfseignarfje frá ríkinu, sem samsvari þeim gullforða, sem hann þarf að hafa, er svo myndi fljótlega fara vaxandi, nálægt þeirri upphæð, sem hv. flm. (BSv) nefndi, þrjár miljónir kr., en þessi upphæð á altaf að vera bundin í gulli. Þar fyrir utan á hann að ráða yfir seðlunum, og lögin ætlast beinlínis til þess, að hann láni öðrum bönkum í landinu seðla, með því að kaupa af þeim víxla og láta þá fá reikningslán, og eftir frv. er honum því ekki heimilt að ráðstafa seðlum sínum á annan hátt. Það er að vísu sagt, að hann eigi að kaupa og selja erlenda mynt, en mjer skilst, að það eigi aðallega að vera víxlarastarfsemi, en ekki það, sem við köllum gjaldeyrisverslun. Seðlar þeir, sem hann ræður yfir, eiga að vera í útlánum hjá bönkum, og hann má ekki taka við neinu innlánsfje til að ávaxta og fær því ekkert innlánsfje, því að engum íslenskum manni dettur í hug að leggja fje sitt inn á banka, ef hann ekki fær vöxtu af því. Jeg verð að líta svo á, sem það sje tilætlun hv. flm. (BSv), að þessi banki hafi ekki gjaldeyrisverslunina á hendi, en þá verður líka að ætlast til þess, að einhverjir aðrir hafi hana, en eins og löggjöf landsins þá er orðin, þegar þetta frv. er orðið að lögum, og bankalöggjöfin að öðru leyti óbreytt, þá er ekki til nein stofnun í landinu, sem hefir skyldu til þess að hafa gjaldeyrisverslun á hendi, enda á hún hvergi að vera nema hjá seðlabankanum, og viðurkennig á því kemur í raun og veru fram í 1. gr. frv., þeim köflum hennar, sem teknir eru óbreyttir úr frv. stjórnarinnar frá 1925, úr frv. til laga um Landsbanka Íslands. Þar er meðal annars gert ráð fyrir því, að þessi banki hafi á hendi kaup og sölu á erlendum gjaldeyri, og í því frv. er sjeð fyrir því, að sá banki geti haft þá verslun á hendi, en hjer er ákvæðið tekið upp í 1. gr. frv., án þess að bankanum að öðru leyti sje gefinn möguleiki til að framkvæma þann hluta af verkefni sínu. Jeg ætla að bíða með að færa frekari rök fyrir þessu, þangað til hv. flm. (BSv) hefir mótmælt því, því að ef það er meining hans, að þessi banki eigi að hafa gjaldeyrisverslun á hendi að því leyti, sem einkabanki ekki kæri sig um það, þá vænti jeg þess, að hv. flm. (BSv) geri grein fyrir því. Það er svo í öðrum löndum, að „víxlarar“ og einkabankar reka aðeins slíka verslun eftir því, sem þeirra hagnaði hentar. En ef ekki er banki, sem hefir þá skyldu, þá getur hvert augnablik komið það ástand, að erlendur gjaldeyrir verði ófáanlegur, og þá getur líka komið fyrir, að erlendur gjaldeyrir sje óseljanlegur í landinu á einhverju tímabili. En þannig má ekki ganga frá löggjafarstarfinu á þessum tíma, því að það þýðir það, að þá verður enginn hemill hafður á gengissveiflunum, ef stundum eru engir kaupendur og stundum engir seljendur erlends gjaldeyris. Og ef gjaldeyrisverslunin fer þannig út um þúfur, þá er það orðið þýðingarlaust, sem annars hefir mikla þýðingu, að seðlastofnun hafi góða tryggingu fyrir sínum seðlalánum, því að það er ekki nægilegt til að halda uppi verði gjaldmiðilsins, ef ekki er hugsað fyrir nógu öflugri framkvæmd á hinu sviðinu, þar sem verð gjaldeyrisins verður í raun og veru ákveðið, og það er einmitt í gjaldeyrisversluninni. Jeg mintist á það í umr. um það frv., sem var hjer næst á undan, hversu mikið það fjármagn er, sem má búast við að þurfi að standa í þessari gjaldeyrisverslun, eftir okkar reynslu, þar sem við höfum á síðastliðnu ári komist upp í það að þurfa að geyma erlendan gjaldeyri fyrir 12–14 miljónir króna, og við getum búist við á einhverju tímabili að þurfa að skulda alt að því ámóta upphæð, svo að búast má við, að sveiflan geti orðið um 20 miljónir króna. Nú má að vísu búast við, að bankar, sem enga lagaskyldu hafa á hendi í því efni, sjái sjer hag í því að taka eitthvað af þessu á sínar herðar, en löggjafarvaldið verður að sjá fyrir því, að til sje stofnun, sem bæði hefir bolmagn og skyldu til að bera megnið af þessum sveiflum.

Þá er annað atriði, sem jeg tel næsta athugavert, og það er það, að með því að byggja upp seðlabanka á þessum grundvelli, þá tel jeg það alveg sjálfgefið, að þó að honum sje sniðinn svo þröngur stakkur, eins og gert er í frv. því, sem hjer er fram borið, að hann muni tæpast eiga sjer lífsvon í þeim stakki, þá verður bráðlega að rýmka stakkinn, svo að stofnunin geti lifað og int af hendi nauðsynlegustu verk seðlabanka. En með því að halda svo Landsbankanum, eins og hann er, á að koma þeirri tilhögun á afstöðu ríkisins gagnvart bankamálum, sem er einsdæmi í allri álfunni, vestan Rússlands, þannig, að ríkið sje eigandi seðlabankans, og jafnframt eigandi annars banka, sem er einhver stærsti banki í landinu, starfar öldungis á sama sviði og aðrir einkabankar, og hlýtur að keppa við þá um það innlánsfje, sem bankarnir eiga að lifa af. Það er ákaflega hætt við, að það drepi niður öllum möguleikum fyrir því, að einkafyrirtæki geti þrifist á þessu sviði, dragi blóð og merg úr þeirri einkabankastarfsemi, sem til er í landinu og girði fyrir það, að þeir bankar og sparisjóðir, sem ekki hafa ríkið á bak við sig, geti náð þeim þroska og vexti, sem þeir þurfa að hafa. Jeg gerði grein fyrir því áður, á hverju jeg bygði það, að þegar mönnum þykja sjerstakar ástæður til að fara varlega, er altaf hætt við því, að innlánsfje streymi frá þeim fyrirtækjum, sem ekki hafa ríkið á bak við sig, og til ríkisbanka, sem álitið er, að hafi fjármagn ríkisins að bakhjarli, hvort sem svo er ákveðið í lögum eða ekki.

Ef menn vilja ráða fram úr seðlaútgáfunni á þann hátt, að stofna nýjan seðlabanka, þá væri rökrjett afleiðing þess sú, að gera Landsbankann jafnframt að einkafyrirtæki, t. d. að hlutafjelagsbanka.

Þá kem jeg að þriðju ástæðunni, og hún er sú, að það er miklu meiri erfiðleikum bundið fyrir ríkissjóð að leggja fram fje handa nýjum banka heldur en þeim, sem fyrir eru. Ríkissjóður hefir þegar lagt bönkum þessum fje og getur ekki kipt að sjer hendinni og tekið það aftur. Þetta er að miklu leyti lánsfje, og það eru engir sjerstakir erfiðleikar á því, að breyta því í framlög eða stofnfje. Ríkissjóður á nú 6 miljónir króna hjá Íslandsbanka, og var það fje veitt þannig í upphafi, að þá var óráðið, hvort heldur það væri sem hlutafje á nafn ríkissjóðs, eða þá sem lánsfje. Um Landsbankann er það að segja, að honum eru með lögum veittar 2 miljónir króna af ríkisfje sem framlag eða stofnfje, og eru greiddir 2/3 hlutar þess, og auk þess hefir honum verið veitt um 2 milj. kr. lán af enska láninu frá 1921. Það væri auðvelt að breyta þessu í stofnfje, og þá þarf ríkissjóður ekki að taka nýtt lán, eins og fara mundi, ef hann þyrfti að leggja í nýjan banka. Þá yrði að taka nýtt ríkislán. Og jeg efast um, að það muni auka trú manna erlendis á því, að hjer sjeu trygg bankamál, ef ríkissjóður fer að veita hverjum bankanum á fætur öðrum tiltölulega hátt fjármagn. Jeg segi þó ekki, að þessi leið sje ófær, en erfiðleikarnir eru miklu meiri heldur en ef t. d. væri tekið það lán, sem Landsbankanum hefir verið veitt, og lagt í þann banka sem stofnfje eða hlutafje.

Þótt jeg telji það ekki ókost á frv., að ráð er fyrir gert, að hann sje settur undir sömu stjórn og ríkisveðbanki Íslands, þá er það nú samt svo, hvernig sem maður veitir málinu fyrir sjer, að Ríkisveðbankinn kemst ekki til framkvæmda, nema rjett á pappírnum, meðan vjer búum við óinnleysanlega pappírsspeninga. Og það er sannað af áliti meiri hl. bankanefndarinnar, að af þessum ástæðum verðum við að bíða með það, að koma Ríkisveðbankanum í framkvæmd. En úrlausn seðlabankamálsins má ekki bíða eftir því, nje eftir því, að krónan komist í gullgildi.

Jeg hefi svo ekki meira að segja að svo stöddu. Jeg hefi gert grein fyrir því, af hvaða ástæðum mjer finst frv. vera ófullnægjandi úrlausn þessa máls. Jeg hygg, að mig greini ekki á um fleira við hv. flm. (BSv), um aðalkjarna þessa máls. Jeg geri ekki ráð fyrir því, að fylgismenn frv. þessa ætli sjer með því að koma á ríkiseinokun á peningamálum landsins. Það mun vaka fyrir þeim, að hjer sje einn seðlabanki, er sje ríkiseign. En vilji þeir draga öll peningamál undir ríkisrekstur, með því að láta ríkið bæði reka seðlabanka og halda Landsbankanum sem samkepnisfyrirtæki við allar aðrar peningastofnanir í landinu, og hafa þannig socialistiska tilhögun á þeim, þá er jeg þeim algerlega ósammála. En eins og jeg drap á áðan, þá geri jeg ekki ráð fyrir því, að það sje þeirra hugsun.