24.03.1926
Neðri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í C-deild Alþingistíðinda. (2731)

79. mál, ríkisbankar Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Já, jeg þarf ekki mörgu að svara. Háttv. þm. N.-Þ. (BSv) staðfesti það, sem jeg þóttist hafa sjeð á frv., að bankinn fái ekki með því þá möguleika í hendur, sem honum sjeu ætlaðir með 1. gr. frv. Hann getur ekki haft gjaldeyrisverslun á hendi, af því að hann má eigi taka við innskotsfje á vöxtu. Bið jeg þá háttv. nefnd, sem málið fær í sínar hendur, að athuga þetta vandlega. Gjaldeyrisverslun er áhættusamt fyrirtæki, eins og sjest af reynslunni í öllum þeim löndum, þar sem jeg þekki til. Allir þjóðbankar hafa orðið þar að taka á sig stórtöp, til þess að bæta gjaldeyrisverslunina og koma gjaldeyrinum á fastan grundvöll. Veit jeg, að hv. fjhn. hlýtur að sjá og kannast við þetta, er hún athugar málið.

Það, sem þessir þjóðbankar hafa í aðra hönd, er seðlaútgáfurjetturinn og arðurinn af honum. Þessvegna má ekki aðskilja þetta tvent. Áhættan verður að vera á sama stað, eða hjá þeim banka, sem fær arðinn af seðlaútgáfunni. Annað mál er, hvað gert hefir verið í einstökum tilfellum fyr og síðar, að ríkissjóðir hafa tekið á sig einhvern hluta áhættunnar. Sjálfsagt er þá, að aðalábyrgðin lendi á sama stað og arðurinn af seðlaútgáfurjettinum. Bankinn er líka ekki svo útbúinn, eftir frv., að hann geti notað ríkisábyrgð. Hann getur ekki heldur tekið lán til þess að kaupa og selja erlendan gjaldeyri.

Það er því ekki annar kostur, ef keyptur yrði einhver gjaldeyrir hjá þessari stofnun, en að hún verður að leggja andvirðið inn annarsstaðar, meðan það er í hennar eign.

En þetta er nú, ef til vill, ekki alveg ljóst hjá mjer. Það, sem jeg meina, er, að þar sem þeir menn, sem vilja fá erlendan gjaldeyri, geta ekki skift við þessa stofnun, verða þeir að hafa reikningsviðskifti í íslenskum krónum annarsstaðar, sökum þess að hún greiðir enga vexti af innlánsfje. Og yfir höfuð geta ekki sveiflurnar, annarsvegar í eign á erlendum gjaldeyri og hinsvegar í eign á ísl. kr. farið fram hjá slíkri stofnun. En ef til vill mætti laga þetta í frv.

Hvað því viðvíkur, að Landsbankinn eigi að vera samkepnisbanki, þá álít jeg, að sem seðlaútgáfubanki eigi hann ekki að vera það. Hann á ekki að keppa um innlánsfje, en hann getur auðvitað kept um útlán og yfir því er ekki að kvarta. Allir þjóðbankarnir á Norðurlöndum verja fje til útlána, en keppa ekki um innlánsfje.

Háttv. flm. (BSv) spurði, hvort skuld Landsbankans við ríkissjóð væri í gullverði. Það er nú álitamál og fer eftir því, hvort reiknað er í íslenskum kr. eða sterlingspundum. Jeg hefi nú reiknað það í íslenskum kr., með því gengi, er jeg áður nefndi. Reiknað í sterlingspundum á kr. 18.16, yrði það auðvitað lægra að krónutali. Hitt, sem hv. flm. (BSv) gat um, að gjörð yrði gangskör að því að rannsaka rjett innstæðueigenda í Landsbankanum, það liggur nú ekki fyrir. Þar er heldur engin hætta.

Hv. flm. (BSv) sagði, að fjárhagslegt traust landsins færi ekki eftir því, í hvaða banka ríkisfje væri lagt, heldur eftir því, hvernig skipulagi yrði komið á þessi mál. Og get jeg tekið undir þetta með honum. En þeir, sem helst mundu um þetta spurðir, hafa eindregið látið þá skoðun í ljósi, að þeir teldu einmitt þá leið heppilegasta, sem stjórnin hefir valið og felst í frv. hennar. Sama má segja um meiri hl. bankanefndarinnar. Getur hv. flm. því ekki tekið álit þeirra sínu máli til stuðnings.

Óska jeg svo, að nefndin taki bæði frv. til athugunar og samanburðar. En jeg vil undirstrika það, að jeg veit hvorki til, að einokun vaki fyrir stjórninni eða flm. Og meðan ekki er ágreiningur þar, er ekki vonlaust um, að til samkomulags kunni að draga. Því að það, sem á milli ber, er aðeins fyrirkomulagsatriði, en ekki stefnuatriði.