03.03.1926
Neðri deild: 19. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (2742)

41. mál, leiga á skipi til strandferða

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg er samþykkur till. hv. samgmn. og get tekið undir margt hjá hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Jeg vil þó geta þess, að mín hugsun hefir ekki verið sú, að skip það, sem leigt yrði í haust, færi hringinn í kringum landið, heldur starfaði á einhverju ákveðnu svæði, t. d. Vestfjörðum, eða annarsstaðar sem þurfa þykir. (SvÓ: Það er fyrirkomulagsatriði). Mjer skildist hv. þm. ætlast til, að það tæki allar tafsömustu hafnirnar á landinu. Það var margt rjett athugað hjá hv. þm. í því, sem hann sagði um strandferðirnar. Þær hafa ekki verið svo góðar sem skyldi, en þó hefir „Goðafoss“ bætt mikið úr þeim á Norður- og Austurlandi, og „Gullfoss“ á Vesturlandi. Það er því ekki allskostar rjett, að strandferðaskip hafi ekki verið nema eitt. Þau hafa eiginlega verið þrjú, auk flóabátanna. Jeg efast um, að strandferðirnar hafi verið verri nú á síðari tímum en þær voru á síðasta tímabilinu fyrir stríð. Það er rjett, að Nielsen framkvæmdarstjóri álítur gott að fá tvö skip til strandferða, en þó leggur hann meiri áherslu á sumt annað. Það er vitanlegt, að strandferðimar verða ekki nægilega góðar fyr en skipin eru orðin tvö, en það kostar mikið fje. Aðalspurningin er hjer, hversu mikið fje Alþingi sjer sjer fært að leggja fram til þessara hluta. En jeg er þess fullviss, að Nielsen er því ekki samþykkur, að skip það, er starfaði við hlið „Esju“, tæki að sjer smáhafnirnar á öllu landinu, heldur mundi hann vilja, að skipin skiftu landinu á milli sín og önnuðust bæði vöru- og farþegaflutning, eins og „Austri“ og „Vestri“ gerðu hjer fyrir stríð. Mjer skildist á hv. 1. þm. S.-M., að hann legði mesta áhersluna á það, að þetta skip tæki að sjer minstu og erfiðustu hafnirnar, en til þess yrði það of dýrt, og kæmi auk þess ekki að fullum notum á þann hátt, því að aðalatriðið fyrir litlu hafnirnar er að hafa góð og greið sambönd við hinar stærri hafnir.