03.03.1926
Neðri deild: 19. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í D-deild Alþingistíðinda. (2743)

41. mál, leiga á skipi til strandferða

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Aðeins örfá orð. Jeg get verið hæstv. atvrh. (MG) þakklátur fyrir undirtektir hans í þessu máli, og gefa þær von um, að tillagan fái byr. Út af því, sem hann sagði um strandferðaviðaukann, „Gullfoss“ og „Goðafoss“, skal jeg geta þess, að fyrir stríð, á árabilinu 1905–1912 voru fleiri skip um strandferðirnar en nú. Þá voru fyrir utan strandferðaskipin bæði Thorefjelagsskipin og skip þess „Sameinaða“, og vora viðkomustaðir fleiri. Nú er um miklu færri skip að ræða. Það er rjett hjá hæstv. ráðh. (MG), að þegar um strandferðir er að ræða, þá er það fyrst og fremst peningaspursmál. Góðar samgöngur og tíðari strandferðir fást ekki nema með auknu fjárframlagi. En í þessu sambandi rís líka önnur spurning: Hvað á að gera til þess að hamla á móti flóttanum úr sveitunum? Ef bœttar samgöngur geta orðið til þess að hamla á móti þeim flótta, þá á ekki að sjá eftir auknu fjárframlagi til þeirra.

Um álit Nielsens framkvæmdarstjóra á því, hvernig skip það ætti að vera, sem leigt yrði eða keypt, skal jeg ekki ræða mikið hjer. Jeg hefi skilið hann svo, að hann teldi best, að skipið væri lítið, svo nota mætti það á hinar vangæfari hafnir, svo sem Hornafjörð og Raufarhöfn, þar sem „Esjan“ kemst trauðla inn. Annars skiftir það ekki svo miklu máli. Reynslan mun sýna, hvaða tillögur helst ber að taka til greina, áður en þær verða framkvæmdar.