02.03.1926
Neðri deild: 18. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í D-deild Alþingistíðinda. (2772)

18. mál, sæsímasambandið við útlönd o.fl.

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg finn mjer skylt að þakka hv. samgmn. fyrir afgreiðslu þessa máls. Jeg skal taka það fram, að jeg hefi alls ekkert að athuga við brtt. hv. nefndar. Jeg tel frekar til bóta, þó að forminu til sje alveg sama, hvort hún er samþ. eða ekki.

Það, sem hv. frsm. (KlJ) sagði um sögu þessa máls, var alveg rjett frá skýrt, og sú skýrsla, sem hann gaf um innihald samningsins, var sömuleiðls alveg rjett. Jeg vil þakka honum þau ummæli um samningana, er hann mælti frá eigin brjósti. En hvað það snertir, að það hafi haft heppileg áhrif á samningagerðina, að Alþingi átti að greiða atkvæði um þá á eftir, þá er jeg þar á öðru máli. Landssímastjóri hefir að vísu talið þetta hafa haft þýðingu til bóta. En þó jeg geti ekki fallist á þetta, þá skal jeg ekki fara neitt nánar út í það. Það er liðið og skiftir ekki máli framar. En þegar stjórnin fór fram á það að fá fulla heimild til samninganna, þá var það gert eftir beinni beiðni landssímastjóra og Jóns Krabbe.

Hvort stjórnin hafi haft heimild eða jafnvel skyldu til þess að endurnýja samningana við Stóra norræna umboðslaust af þinginu, skal jeg heldur ekki ræða um. En benda vil jeg á það, að hafi stjórnin ekki haft þessa heimild, þá hefir hún 1924 farið út fyrir umboð sitt, er hún leitaði samninga áður en heimild lá fyrir frá þinginu. En því vil jeg ekki halda fram. Og þó samningunum væri siglt í strand þá, þá vanst það þó á, að vjer fengum rjett til þess að senda skeyti með Norðursjávarsímanum fyrir sama gjald og Danir. Það fjekst ennfremur, að Stóra norræna tæki á sig niðurfærslu á gjöldum fyrir skeyti með Norðursjávarsímunum. En talsvert af hinum mikla gróða Stóra norræna hefir legið í því, hve gífurlegt gjald það hefir tekið af þessum skeytum. Nú hefir gjaldið fyrir þennan kafla verið fært ofan í 7 ctm. í stað 16½ ctm.

Út af því, að frumrit samningsins sje einungis á dönsku, þá er því að svara, eins og hv. frsm. (KlJ) tók fram, að stjórn Stóra norræna sagði, að íslenskan væri hrein hebreska fyrir sig og þeir gætu ekkert á því máli samið. Aftur kom til mála að semja á frönsku, en jeg taldi mig ekki svo góðan í því máli, að jeg vildi hleypa mjer út í það. En jeg get vel búist við því, að stjórn Stóra norræna fengist til þess að undirskrifa íslenska þýðingu samningsins sem frumrit, þegar búið væri að koma sjer saman um textann. En þar sem jeg lagði af stað hingað heim frá Kaupmannahöfn daginn eftir að samkomulag hafði náðst um danska textann, var enginn tími til að búa til ísl. þýðingu, en enn þá er tími til að athuga þetta í raun og veru þýðingarlitla atriði. Á sama hátt var samið 1905, og jeg get líka nefnt það, að steinolíusamningurinn 1923 var saminn eingöngu á enskri tungu. En annars er þetta formsatriði eingöngu og snertir lítið málið. Hjer er ekki að ræða um samning tveggja ríkja, heldur tvö ríki, sem gera samning við fjelag einstakra manna. En annars sanna aths. frsm. (KlJ), að ekki er auðvelt að þýða slíkan samning svo, að ekki verði ágreiningur um einstök atriði. Jeg get sagt það, að jeg hefi sjálfur gert þýðing þá, sem hann gerði að umtalsefni, og þóttist leggja mig þar fram um að þýða eins rjett og nákvæmt og þekking mín á danskri tungu leyfði. Og sannast að segja held jeg það, að þó finna megi kanske að einstökum atriðum, þá sje þýðing mín nærri rjettu lagi.

Jeg skal nú minnast ögn á aths. hv. frsm. (KlJ) við þýðinguna. Hann tók t. d. „undersöisk Telegrafkabel“; það hefi jeg þýtt: neðansjávarritsími, en „Kabel“ eingöngu: sæsími. Þetta held jeg að sje alveg rjett. A. m. k. fæ jeg ekki betur sjeð en „undersöisk Telegrafkabel“ sje nákvæmlega þýtt: neðansjávarritsími. Þá hefi jeg útlagt orðin: „Minister for offentlige Arbejder“ með: ráðherra opinberra verka. Hjer mætti ef til vill finna eitthvert annað heiti, en nákvæm þýðing er þetta samt. Það er rjett, að í þýðingunni á símasamningnum 1905 var þessi ráðherra nefndur „samgöngumálaráðherra“, enda munu samgöngur þá hafa heyrt undir það embætti. En það sjá allir, að ekki er það nákvæm þýðing.

Annars dettur mjer ekki í hug annað en taka vel upp þessi tilmæli hv. frsm. (KlJ), að athuga betur þýðinguna áður en hún er birt í Stjórnartíðindum.

Svo mintist hann á 5. gr. Þar er „Afbrydelser eller Fejl“ þýtt með „slit eða bilun“. Þetta finst mjer nákvæmlega þýtt, eftir því sem jeg skil orðið „slit“. „Kablet er afbrudt“ þýðir: síminn er slitinn. En „Fejl“ þýðir hjer „bilun“, sem veldur því, að erfitt er að síma. Slit er kallað, þegar algerlega er ómögulegt að síma og sæsíminn alveg í sundur.