02.03.1926
Neðri deild: 18. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í D-deild Alþingistíðinda. (2774)

18. mál, sæsímasambandið við útlönd o.fl.

Frsm. (Klemens Jónsson):

Jeg vildi einungis taka það fram, að það var eðlilegt, að samningurinn frá 1905 væri á dönsku, eins og þá stóð á um sambandið milli Íslands og Danmerkur. Hvað steinolíusamninginn snertir, þá er það rjett, að hann var skrifaður eingöngu á ensku. En þar var sá munur, að það voru umboðsmenn frá báðum aðiljum, sem sömdu, en ekki ráðherra sjálfur og stjórn British Petroleum Co. Annars er ekki þar með sagt, að ekki hafi verið rjett að hafa steinolíusamninginn frá 1923 á íslensku. Jeg sje ekki, að neitt hefði verið unnið við að hafa ritsímasamninginn á frönsku, eins og hæstv. atvrh. (MG) upplýsti, að komið hefði til tals.

Jeg er sammála hæstv. ráðh. (MG) um það, að oft sje álitamál, hvernig eigi að þýða þetta og þetta, og þýðing getur verið alveg orðrjett, þótt hún sje ekki í alla staði sem heppilegust. „Undersöisk Telegrafkabel“ er „neðansjávarritsími“. En orðið „Kabel“ felur ekkert sækent í sjer. Það þýðir ekkert annað en sími, og getur verið á landi líka. Úr því orðið „Kabel“ er þýtt með „sæsími“, sem er gott orð, þá hefði jeg kunnað betur við að halda því alveg í gegn, samræmis vegna. Annars man jeg ekki betur en að þegar ritsímalögin voru á ferðinni, hafi komið upp nafn fyrir „Kabel“. Það var „kafsími“, og er gott nafn.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara út í sennu út af þessu, því fremur sem jeg vona, að hæstv. atvrh. (MG) taki þýðinguna til gagngerðrar yfirvegunar. Efa jeg ekki, að hæstv. ráðh. taki það til greina, ef hann finnur rjettmæti í mínum athugasemdum, og lagfæri, eftir því sem betur má fara.