22.02.1926
Efri deild: 11. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (2787)

28. mál, ellitrygging

Flm. (Jónas Jónsson):

Eins og tekið er fram í aths. við þessa till., þá er þetta ekki nýtt mál hjer í þinginu, heldur hefir því verið hreyft fyrir nokkrum árum. Ljet stjórnin gera talsverðan undirbúning og rannsókn í þessu efni. Var það vel og ítarlega gert, eftir því sem jeg best veit, og má því vafalaust byggja talsvert á þeirri rannsókn og reikningi nú.

Það, sem till. þessi fer fram á, er það, að stjórnin taki málið upp á ný. Að öllum líkindum yrði að gera einhverjar nýjar rannsóknir, af ástæðum, sem jeg kem að seinna. En það mun vera rjett álitið hjá hæstv. forseta að hafa ekki nema eina umr. um till., af því að kostnaðurinn við framkvæmd þessarar rannsóknar getur ekki orðið meiri en við venjuleg stjórnarfrv.

Þá vil jeg skýra með fáeinum orðum þá meginhugsun, sem liggur bak við þessa till. og eldri till. um þetta mál. Það, sem hjer er gert ráð fyrir að framkvæma, er það, að samin verði lög, er skyldi alla heilbrigða menn — þó væntanlega ekki alla í byrjun — á vinnualdri að leggja í tryggingarsjóð til elliáranna. Jeg get búist við, að þetta yrði ef til vill ekki vinsælt, að margur myndi heldur vilja eyða um leið þeim 20–30 kr., sem væntanlega verða að ganga árlega í tryggingarsjóð hvers manns, og líklega verður barátta nokkur um það, hvort kjósendur vildu leggja á sig þessa kvöð, til þess að vera öruggari um sinn fjárhag, þegar líður á æfina og vinnuþrótturinn dvínar. En það liggur ekki fyrir að svo vöxnu máli. Og reyndist ellitryggingarskatturinn svo óvinsæll, að ekki yrði hægt að koma honum á, þá yrði þar við að sitja.

Jeg vil nota tækifærið til að minna á það eftirsóknarverða í þessu fyrirkomulagi. Það er í raun og veru tvent: Annarsvegar tryggingin, sem veitt er, en hinsvegar sá mikli óbeini hagur af þeim peningum, sem safnast á þennan hátt.

Nýlega var jeg að blaða í þingtíðindum frá 1913. Út af máli, sem þá lá fyrir í þinginu, sagði Jón heitinn Ólafsson, sem þá var þingmaður, að hallæri fyr á öldum hefði fyrst og fremst stafað af því, að þjóðfjelagið hefði ekki trygt sína fátæklinga og veikluðu menn. Þegar eitthvað gekk illa, var ekki annað fyrir hina veikburða að gera en betla eða deyja úr hungri. Síðan hefir ástandið að vísu breyst mikið, svo nú hefir þjóðfjelagið tekið á sig að sjá fyrir þeim gömlu mönnum eða fátæku, er ekki geta það sjálfir. Þetta er vitaskuld mikil umbót frá því sem var, en altaf fylgja þó þessu fyrirkomulagi margsk. óþægindi fyrir þá, sem þiggja þurfa slíkan styrk. Það er ákaflega sárt fyrir gamalt fólk, sem hefir verið vel sjálfbjarga, að verða á efri árum að þiggja þann styrk, sem álitinn er gustukahjálp og oft er látinn úti með eftirtölum. Jeg tel þess vegna engan vafa á því, að í þessari till. felist stór umbót frá því sem nú er. Og eftir mannsaldur — en ekki fyr — myndi undir ellitryggarlögunum ekki verða nein þörf að grípa til sveitarstyrks vegna gamalmenna. Þau lifðu þá á sinni aldurstryggingu, sem þau hefðu sjálf unnið fyrir. Þá ljettir af hverri vinnandi kynslóð að sjá fyrir aldurhnignum þurfalingum. En hinsvegar álít jeg það sjerstaklega eftirsóknarvert fyrir aldraða fólkið að vita, að það hefir sjálft unnið fyrir því gjaldi, sem gengur því til lífsframfærslu.

Um leið vil jeg minnast á annað, sem kemur þessu máli a. m. k. óbeinlínis við. Það er ekki nærri altaf, að gamla fólkið fer á sveitina, þótt það geti ekki unnið fyrir sjer. Það styðst við vinnu barna sinna og er „í horninu“, eins og það er kallað hjer. Þetta er vitaskuld eðlilegt í sjálfu sjer, en þó ekki allskostar heppilegt. Í Danmörku t. d. er þessu öðruvísu farið, þar sem gamla fólkið — nema hjá hinum allra fátækustu — heldur áfram sjálfstæðu heimilislífi, þó að börnin sjeu uppkomin. Það er alkunnugt hjer á landi, hversu sambúð gamla fólksins og unga fólksins er oft ábótavant, og eru það ekki síst gamalmennin, sem líða við það. Náttúrlega er veran í „horninu“ eðlileg afleiðing af fátækt okkar. Sumpart hefir gamla fólkið ekki átt neitt til að styðjast við, eftir að vinnumátturinn var þrotinn, en sumpart hefir það látið börnum sínum í tje það sem það átti og gert um leið ráð fyrir að lifa á framfæri barna sinna síðustu árin. En nú er það gamall sannleikur, að ungt og gamalt á ekki saman. Og eitt af því, sem myndi leiða af efnalegu sjálfstæði gamla fólksins, er það, að það hjeldi á elliárunum sínum persónulegu venjum og lifði eftir sínu eigin skaplyndi og lífsskoðunum. En það er hvergi nærri ætíð, að gamalmennin geti lifað óháð, þegar í hornið er komið.

Það má ef til vill segja um ellitryggingu, að óþarft sje, að hún nái til þeirra, sem hafa aðra tryggingu, t. d. lífeyri. Náttúrlega er það líka óþarft fyrir þá, sem eru vel efnaðir. En það myndi þó sennilega að mörgu leyti heppilegra, að trygging þessi nái til allra, sem ekki kaupa sjer öðruvísi sjerstaka ellitryggingu. Það myndi verða vinsælla, ef ellitryggingin nær til allra, heldur en ef hún á eingöngu að vera til að ljetta af sveitarsjóðunum fátækraframfærslu.

Þá er síðari liðurinn í þessu máli.

Jeg geri ráð fyrir í till., að tekið verði fram í væntanlegu frv., að sjóð aldurstryggingarinnar skuli ávaxta í vaxtabrjefum ræktunarsjóðs og veðdeildar. Þetta síðara atriði er eiginlega ástæðan fyrir því, að jeg hreyfði þessu máli nú. Þegar við í meiri hluta milliþinganefndarinnar í bankamálinu vorum að fást við veðdeildarlögin, þá var okkur það ljóst, að fasteignalánskjörin eru ákaflega slæm, eins og sjest þegar lánskjör íslensku veðdeildarinnar eru borin saman við þau kjör, sem fasteignaeigendur í Danmörku hafa átt við að búa um langan aldur.

Dr. Ólafur Daníelsson reiknaði út, að þvílík ellitrygging myndi skapa geysilega mikinn sjóð, tugi miljóna á einum mannsaldri. Slíkur sjóður myndi geta bætt úr lánsþörf bæði þeirra, sem þurfa að byggja í kaupstöðum, og þeirra, sem byggja eða rækta í sveit. Jeg hygg, að dr. Ólafur hafi sagt, að slíkur sjóður mundi nema í fullri hæð 70 milj. kr. En nú mundi hann verða hærri, með þeim breytingum, sem nú á að gera, því að vafalaust yrði árgjaldið hærra nú en þá var áætlað. Aðalatriðið er að tryggja það, að sjóðurinn sje eingöngu notaður til að skapa markað fyrir fasteignaverðbrjef. Geri jeg ráð fyrir, að þannig verði um búið, að jafnrjetti sje milli sveita og kaupstaða.

Jeg býst við, að komið geti til mála að vísa máli þessu til nefndar, sem væri þá helst fjhn., og vil jeg leyfa mjer að skjóta því til hæstv. forseta. Vilji hæstv. stjórn ekki sinna málinu, eða vilji hún sinna því án frekari athugasemda, þarf málið vitanlega ekki að fara til nefndar.