22.02.1926
Efri deild: 11. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í D-deild Alþingistíðinda. (2789)

28. mál, ellitrygging

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg hefi ekki nema fáum orðum við að bæta, — Hvort tryggingin ætti heldur að heita ellitrygging eða aldurstrygging, er aukaatriði. En það leiðir af sjálfu sjer, að það getur engin aldurstrygging verið nema sú, sem nær til gamalmenna.

Jeg fór ekki mikið út í tölur í sambandi við þetta mál, því mjer er ekki nógu kunnugt um útreikninga dr. Ólafs Daníelssonar til þess. Nýlega hefi jeg spurt hann um álit sitt um það, hvað yrði að hækka mikið það, sem hvert gamalmenni fengi á ári. Taldi hann, að með núverandi peningagildi væri varla hugsanlegt annað en að breyta 200 kr. útborgun í 500 kr. Við það hækkaði árgjaldið náttúrlega.

Jeg ætla ekki að fara að deila við hæstv. ráðh. (MG) um það hjer, hvort gjaldið ætti að vera nefskattur eða ekki. Það er í sjálfu sjer öðru máli að gegna um þetta en berklalögin, þó jeg ætli ekki að fara út í það hjer. Því að líkurnar fyrir því, að menn verði gamlir, eru svo langsamlega miklu meiri en fyrir því, að menn fái berklaveiki. Það er um tvent að ræða viðvíkjandi árgjaldinu, hvort það ætti eingöngu að borgast af einstaklingunum sjálfum eða að ríkið styrkti trygginguna. Þetta er rannsóknaratriði og bíður úrskurðar í framtíðinni.