13.03.1926
Efri deild: 27. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í D-deild Alþingistíðinda. (2791)

28. mál, ellitrygging

Frsm. (Jónas Jónsson):

Það er líklega meira en mánuður síðan jeg bar fram till. til þál., mjög svipaða að efni þeirri, sem hjer liggur fyrir; munurinn var aðeins sá, að jeg lagði þar til að skora á hæstv. stjórn að koma með frv. um þetta efni fyrir næsta þing, en í nefndinni varð það að samkomulagi að láta þetta atriði falla niður, og þó að jeg álíti þetta mál svo mikilsvert, eins og jeg tók fram við fyrri meðferð þess, þá viðurkenni jeg, að það skiftir ekki mjög miklu máli, hvort stjórnin kemur með frv. eða ekki, ef sú rannsókn aðeins verður gerð, sem frv. þarf að byggjast á. Þess vegna er jeg eins ánægður með það fyrirkomulag, sem hjer er farið fram á, vegna þess, að framkvæmd þessa máls hlýtur altaf að taka langan tíma, ekki síst til þess að verða að fullu skilið af þjóðinni, og þess vegna sýnist mjer þessi aðferð nálega eins góð og sú, er fyrst var um talað. Jeg vil aðeins skjóta því til hæstv. stjórnar, að það væri æskilegt að láta reikna út iðgjöld með nokkuð mismunandi fyrirkomulagi. Það gæti vel komið til mála, að ungir menn gætu borgað iðgjöld sín á 2–3 árum, og það segir sá hinn reikningsfróði maður, sem fengist hefir við útreikningana fyrir slíkan sjóð, að gæti að mörgu leyti verið heppilegt fyrir sjóðinn. Í öðru lagi vildi jeg mælast til þess, að hin árlega, útborgaða ellitrygging yrði ekki minni en 600 krónur á ári. Jeg vil svo mæla með því fyrir nefndarinnar hönd, að till. verði samþykt eins og hún liggur fyrir.