04.03.1926
Neðri deild: 21. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í D-deild Alþingistíðinda. (2796)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Frsm. (Björn Líndal):

Jeg þóttist verða þess var í gær, þá er þáltill. þessari var útbýtt hjer í hv. deild, að ýmsum brygði í brún. Og það var ekki svo undarlegt, því að hjer er um allmikla fjárhæð að ræða, er snertir ríkissjóð, og sýnt, að hann mun tapa fje.

Jeg skal nú minnast á sögu máls þessa, eftir því sem mjer er hún kunn.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) skýrði frá því snemma á þinginu 1921, að þinginu hefði borist brjef frá stjórn „Fjelags íslenskra botnvörpuskipaeigenda“ um ríkisábyrgð á skipakaupalánum. Erindi þessu var vísað til peningamálanefndar. Síðan var skipuð þriggja manna undirnefnd, og bar hún fram svolátandi till., sem er að finna á þskj. 610:

„Ennfremur er stjórninni heimilt að taka, fyrir hönd ríkissjóðs, ábyrgð á skuldum, er eigendur íslenskra botnvörpuskipa hafa komist í á Englandi, vegna skipakaupanna, alt að 200000 krónum fyrir hvert skip, er stjórnin telur fært að taka ábygð á, með þeim skilmálum og þeim tryggingum, er hún tekur gildar“.

En er fram í umræður kemur, bólar þegar á misskilningi út af orðalagi till. Varð ágreiningur um, hvort þessar 200000 krónur ættu að vera trygðar með 1. veðrjetti í skipunum eða á eftir einhverri annari upphæð. Það virðist vera nokkurnveginn ljóst, að þannig hafi verið í pottinn búið, að skuldheimtumennirnir á Englandi hafi gefið samþykki sitt til þess, að 7000 sterlingspund hvíldu á hverju skipi með 1. veðrjetti, og án annarar tryggingar og að ábyrgðar ríkisins væri óskað fyrir frekari lánum, alt að 200 þús. kr. fyrir hvert skip. Þáverandi atvrh. (PJ) skildi þó tillöguna á annan hátt. Hann segist skilja hana þannig:

„Ætla jeg þá að taka það fram, hvernig jeg skil till. í höfuðdráttunum; sem sje það, að taka ábyrgð á skuldunum, alt upp að 200000 kr. fyrir hvert skip, og þá auðvitað að því tilskildu, að skipin sjeu veðhæf og stæðu fyrst og fremst í veði fyrir þeim 200000 krónum, hvert þeirra um sig“. (Alþt. 1921, B. 1386).

Þessi skilningur þáverandi atvrh. (PJ) er ljós og ákveðinn. Þáverandi fjrh. og núverandi hæstv. atvrh. (MG) virtist hafa skilið till. á líkan hátt, því að hann vakti athygli á mismunandi skilningi þm. á till. (Atvrh. MG: Og nefndarmannanna sjálfra). Alveg rjett. Samkvæmt orðalagi og tilgangi tillögunnar fæ jeg þó ekki betur sjeð en að þessar 200 þús. krónur hafi átt að koma næst á eftir þessum 7000 sterlingspundum, eins og. hv. 3. þm. Reykv. (JakM) tók þá fram við umr. í þessari hv. deild.

En þegar til hv. Ed. kemur, þá breytist skilningurinn enn skv. nál. fjvn. á þskj. 637. Þar segir svo:

„Þó gengur nefndin því aðeins að ábyrgðarheimildinni í 22. gr. fyrir skuldum íslenskra botnvörpuskipaeigenda á Englandi, að sá skilningur sje í hana lagður, að aðeins megi ábyrgjast fyrstu 200 þús. krónurnar af veðskuldum, er hvíla á hverju því botnvörpuskipi, er þar ræðir um“.

Frsm. fjvn., þáverandi 2. þm. S.-M. (SHK), leggur sterka áherslu á þetta í sinni ræðu, og virðist málið fara þannig út úr þinginu. Mjer virðist því þingviljinn hafa verið sá, að ekki hvíldi neitt á skipunum á undan þessum 200 þús. krónum. En þetta var lítil hjálp, því að telja mátti, að togaraeigendur ættu kost á nálega sömu upphæð ábyrgðarlaust, gegn 1. veðrjetti í togurunum sjálfum, eða 7 þús. sterlingspundum, og hver togari var þá miklu meira virði.

Jeg bendi á þetta aðeins til að sýna, hvað sum mál eru flausturslega og ógreinilega afgreidd frá hv. Alþingi.

Það var gert ráð fyrir því í öllum ræðum, sem þá voru haldnar um málið, að ekki ætti að taka ábyrgð á hættulegum skuldbindingum. Um þetta voru allir þingmenn sammála.

Árið 1923 er fyrst óskað eftir þessari ábyrgð af stjórn h. f. „Kára“, og ábyrgðarskjal ríkissjóðs er dags. 23. september 1923. Tekur hann sjer á hendur ábyrgð á £ 5000, næst á eftir 20 þús. £, er á skipum þessa fjel. hvíldu. Má segja, að hjer sje óvarlega farið, þótt tillagan og þingviljinn sje skilinn þannig, að 7000 sterlingspund mættu hvíla á hverju skipi á undan veðrjetti ríkissjóðs í skipunum. En þetta er óverjandi ráðstöfun, ef þingviljinn er skilinn þannig — eins og næst virðist liggja — að ríkissjóður mætti aðeins ábyrgjast gegn 1. veðrjetti í skipunum.

Hjer er einnig annað athugavert, og vildi jeg gjarnan fá upplýsingar um það. Fjárlögin 1922 gilda ekki nema fyrir það ár, en 26. september 1923 tekst ríkissjóður þessa ábyrgð á hendur. Það getur verið, að stjórnin hafi verið búin að gefa munnlegt loforð um þetta löngu áður eða nokkru, en engar upplýsingar liggja þó fyrir um það, og verður því frekar að gera ráð fyrir, að það hafi ekki verið. Heimildin var ekki endurnýjuð í fjárlögunum 1923. — Jeg leyfi mjer að telja það mjög efasamt, að ríkisstjórnin hafi löglega getað tekist á hendur þessa ábyrgð vegna ríkissjóðs í septemberlok 1923, samkvæmt heimild í fjárlögum 1922, sem þá voru löngu úr gildi gengin. Um þetta vildi jeg gjarnan fá upplýsingar hjá þeim, er fróðari kunna að vera í þessum efnum en jeg.

Nú má telja, að á skipum þeim, er hjer ræðir um, hvíli 22 þús. pund, eða ca. 487 þús. krónur. Það er dómur manna, sem gott vita hafa á þessum málum, að skipin bæði verði naumast talin meira en 500 þús. króna virði, og jeg get sagt, að jeg tel mjög hæpið, að hægt sje að fá svo mikið fyrir þau. Annað skipið er gamalt og hitt ekki meira en meðalskip. Um engar óveðsettar eignir er að ræða. Á Viðeyjarstöðinni hvíla 151 þús. danskar krónur með 1. veðrjetti. Íslandsbanki hefir þar 2. veðrjett. Fjhn. lítur svo á, að þegar athugaðar eru allar ástæður, sje ekki sæmilegt nje hagkvæmt fyrir ríkissjóðinn að verða til þess að velta fjelaginu, og leggur því til, að veðrjetturinn sje eftir gefinn. En þetta er, eins og sjá má af greinargerðinni fyrir tillögunni, skilyrði fyrir, að fjelagið fái lánað rekstrarfje til útgerðar á þeirri vertíð, sem nú er að byrja. En geti fjelagið ekki haldið útgerðinni áfram nú á vertíðinni, er engin von um, að það geti komist hjá gjaldþrotum.

En því miður tapast hjer meira. Fjelagið á ógreiddan 42 þús. króna tekjuskatt, sem ekki mun hægt að ná. Má benda á þetta til styrktar þeirri skoðun, sem kom hjer fram í fyrra, að ekki væri ástæðulaust að lækka dálítið skattana á togarafjelögunum.

Þó að þau hafi hingað til ekki farið eins flatt og þetta fjelag, er skiljanlegt, að þessi afarhái skattur flýti fyrir því.

Jeg óskaði í gær, fyrir hönd fjelagsins, að þessu máli yrði flýtt, og hefir hæstv. forseti hjálpað til þess með því að taka það á dagskrá strax. Jeg vil leyfa mjer að óska, að báðar umr. fari fram strax, og liggur mikið við, að enginn dráttur verði á, ef hjálpin á að koma að gagni.