04.03.1926
Neðri deild: 21. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í D-deild Alþingistíðinda. (2798)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg ætla ekkert að fara út í það, sem hv. frsm. (BL) sagði um aðdraganda þessa máls, þar sem það gerðist fyrir tíð núverandi stjórnar. Jeg vil aðeins gera grein fyrir því, að núverandi stjórn mælir með því, að þetta sje samþ., og að till. er borin fram af fjhn. eftir beinum tilmælum stjórnarinnar. Hag þessa fjelags var svo komið nokkru fyrir síðustu áramót, að Íslandsbanki, sem hafði útvegað því rekstrarfje, neitaði að halda því áfram, af því að fjelagið hefði ekki getað staðið í skilum. Það var fyrirsjáanlegt, að ekki var um annað að gera fyrir fjelagið en að gefast upp, ef ekki tækist að fá rekstrarfje hjá Íslandsbanka. Bankinn gaf þá fjelaginu von um fje fram yfir næstu vertíð, ef ríkissjóður vildi þoka með veðrjett sinn. Þessi krafa af bankans hálfu er bygð á því, að á síðastliðnu sumri var varið allmikilli upphæð af rekstrarfjenu til viðgerðar skipunum og þannig bætt veð ríkissjóðs. Þessi tilmæli bankans eru því ekki alveg tilefnislaus.

Nú er svo ákveðið í íslenskum lögum, að veðhafi skuli hafa forgangsrjett að vöxtum í tvö ár, og er því upphæð sú, sem hvílir á 1. veðrjetti, nú nokkru hærri en 20 þús. sterl. pund. Hún mun nú vera orðin um 487 þús. ísl. krónur, og eftir þeim horfum, sem nú eru um atvinnureksturinn, vildi jeg ekki ráða ríkissjóði til þess að gera boð í skipin sem 2. veðhafi, ef fjelagið yrði að gefa sig upp. Jeg geri ekki ráð fyrir, að hann fengi neitt upp í sína skuld. Þó að nokkrar þúsundir kynnu að verða umfram skuldina á 1. veðrjetti skipanna, þá fer varla hjá því, þegar svona fjelag er stöðvað, að einhver sjóveð sjeu fallin á skipin, sem hafa forgangsrjett fyrir veðhöfum. Stjórnin leit svo á í vetur, að meiningarlaust væri fyrir ríkissjóð að velta þessu fyrirtæki, þar sem engin von var um, að hann fengi neitt upp í veðrjett sinn. Eina vonin fyrir skuldheimtumennina, þar á meðal fyrir ríkissjóðinn, er sú, að fjelagið geti unnið sig upp. Má vera, að sú von sje völt, en þar sem ekki er farið fram á, að ríkissjóður kosti hjer neinu til, tel jeg rjett, að samþ. verði að færa til veðrjettinn og. till. gangi fram. Um tekjuskatt þessa fjelags skal jeg taka það fram, að mjer var ljóst, þegar jeg gaf yfirlitið um fjárhaginn, að hann mundi ekki nást, og gerði ráð fyrir því í skýrslu minni.