27.03.1926
Neðri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

1. mál, fjárlög 1927

Fjármálaráðherra (JÞ):

Út af ummælum hv. 3. þm. Reykv. (JakM) verð jeg að segja það, að jeg hefði verið til með að fella fyr niður gengisviðaukann á vörutolli, en mjer var ekki ljóst, hvort stjórnin hefði heimild til þess. Bar jeg það því undir fjhn., þar sem þessi háttv. þm. (JakM) á sæti, og varð niðurstaðan sú, að það þyrfti að gera með lagaboði. Bar hv. nefnd fram frv. um það, og er það nú komið til hv. Ed. Finst mjer því, að ekki þurfi að koma ásakanir um þetta úr þessari átt, þótt jeg hafi eigi viljað leggja niður gengisviðaukann upp á mitt eindæmi.

Út af því, sem þessi hv. þm. sagði um áætlanir alment, vil jeg taka það fram, að ástæðan fyrir því, að áætla þarf tekjurnar varlega, er ekki aðeins sú, að það er gert svo löngu áður, heldur er gjaldaáætlunin einnig gerð fyrirfram, og getur verið ónákvæm. En nú eru hjer um bil öll gjöld, sem á áætlun standa, út goldin, sakir þess, að ýmsir hafa þar hagsmuna að gæta og reka nægilega á eftir. En nú er sú tíska komin á að framkvæma ýmislegt, sem ekki er í fjárlögum, en fje er veitt til samkvæmt öðrum lögum. Upp og ofan hygg jeg, að reynslan verði sú, að leggja þurfi 15% við gjaldaáætlunina, ef landsreikningurinn á að bera sig. Og jeg býst við því, að hvernig sem maður „vandar sig“, verði niðurstaðan svipuð þessu. Móti þessari útgjaldahækkun er ekkert til nema varleg tekjuáætlun. Það sýnir reynslan. — Ef við eigum að líta á árið 1927, liggur næst að bera það saman við árið 1924. Jeg hygg hæpið að treysta því, að það verði meira tekjuár. Það þótti gott ár á sínum tíma, þótt það atvikaðist nú svo, að 1925 fór langt fram úr því. Tekjurnar það ár voru 10,7 miljónir samkvæmt landsreikningunum, en nú eru þær áætlaðar liðlega 10 miljónir, með lítið breyttri löggjöf. Vantar því mikið á, að áætlaður sje nægilegur tekjuafgangur, sem þarf til þess að verjast ófyrirsjáanlegum útgjöldum, verði tekjurnar ekki meiri en 1924. Skora jeg því á hv. deild að halda uppteknum hætti um varlegar tekjuáætlanir, svo að þar komi það umfram, sem venjan hefir sýnt, að þarf til þess að standast ófyrirsjáanleg útgjöld.