04.03.1926
Neðri deild: 21. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (2800)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg ætla aðeins að skjóta hjer fram örfáum orðum. Jeg kem ekki að efni sjálfrar tillögunnar, því að mjer er það mál lítið kunnugt, og jeg ætla ekki heldur að tala neitt um það, hvort rjett muni vera að veita þessa heimild. En jeg get ekki látið hjá líða að benda á, hve hjer er athyglisvert mál á ferðinni. Mjer virðist það kasta ljósi yfir ástandið í landinu, eins og það er nú. Hjer er um að ræða stórt útgerðarfjelag, sem svo er orðið illa statt, að það treystist eigi til að starfa áfram hjálparlaust, og forstjórar þess verða nú að ganga þau þungu spor, að biðja Alþingi hjálpar. Jeg spyr: Hvernig stendur á því, að svona er komið? Jeg er því ekki kunnugur. Er það af því, að fjelaginu hafi verið illa stjórnað? Jeg held ekki. Sá, er lengst hefir verið forstjóri fjelagsins, er einn af trúnaðarmönnum togaraútgerðarfjelagsins hjer, og jeg held, að hann sje vel virtur og talinn duglegur maður. Síðan fjekk fjelagið annan forstjóra, sem líka er talinn duglegur. Það verður því að álykta, að fjelaginu hafi ekki verið illa stjórnað.

Er það þá harðæri að kenna, er fjelagið þarf nú að stíga þessi þungu spor, að leita á náðir þingsins? Nei, það er síður en svo sje. Árið 1924 var svo sjerstakt góðæri, að menn muna varla annað eins, a. m. k. hvað viðkemur útveginum. Og í fyrra var líka mikið góðæri, svo því var a. m. k. haldið fram í gengisnefndinni alt fram á haust 1925, að það ár væri engu lakara en hitt, jafnvel betra. Það er því óhætt að segja, að það ár hafi verið mjög hagstætt útgerðinni, alt fram undir haust, er gengissveiflan hófst.

Nei, hjer er áreiðanlega ekki harðæri um að kenna. Heldur er það svo, að þó fjelaginu hafi verið allvel stjórnað, og þó alveg sjerstakt góðæri sje á undan gengið, þá er nú samt þannig komið hag þessa fjelags, að það neyðist til þess í lok þessa tímabils að koma til ríkisins og biðja um hjálp.

Það, sem er athugaverðast við þetta mál, er það, að hjer er ekki um neitt einsdæmi að ræða. Hjer hafa komið fram upplýsingar um það, að þrátt fyrir undangengið góðæri, þá er ástand atvinnuveganna, og einkum stórútgerðarinnar, svona ákaflega alvarlegt. Og jeg er ekki í vafa um ástæðuna. Ástæðan er sú, að ekkert hefir verið gert til þess af þingi eða stjórn að tryggja einhvern fastan verðlagsgrundvöll, sem atvinnuvegirnir geti treyst á. Í stað þess eru lagðar ógurlegar byrðar á herðar atvinnuvegunum og þeim íþyngt langt fram yfir það, sem dæmi eru til. Þetta er annað atriðið, sem jeg vildi benda á.

Hitt atriðið er svo þetta: Er nokkurt vit í því að halda áfram á sömu braut? Það er nú á valdi Alþingis að skera úr þessu, og jeg vildi ekki láta hjá líða að benda hv. deild á það í sambandi við þetta mál, að enn er eftir að ráða til farsællegra lykta stærsta vandamálinu, sem liggur fyrir þessu þingi. En þessi till. sýnir okkur enn nýtt dæmi um það, hve þýðingarmikið það er.