08.03.1926
Efri deild: 22. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (2820)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Fjármálaráðherra (JÞ):

Tildrög þessa máls eru þau, að árið 1921 veitti þingið stjórninni heimild til þess að taka ábyrgð á skuldum ýmsra togarafjelaga, er þau höfðu komist í vegna skipakaupa. Heimild þessi er í fjárlögunum 1922.

Í september 1923 tók svo stjórnin ábyrgð á 5000 sterl.pundum fyrir h. f. „Kára“, gegn 2. veðrjetti í skipum fjelagsins, næst á eftir 20000 sterl.punda skuld. Ábyrgð þessi var í þeirri mynd, að öll skuldin, 25000 sterl.pund, var við banka í Englandi, en Íslandsbanki tók að sjer ábyrgð á greiðslu 5000 sterl.punda og ríkissjóður gagnvart honum aftur.

Fyrir þessu fjelagi hefir nú gengið erfiðlega, og undir árslok 1924 varð Íslandsbanki að greiða þessi 5000 sterl. pund til enska bankans, en ábyrgð ríkissjóðs til Íslandsbanka var þá breytt í íslenskar krónur, með því gengi, sem var á sterl.pundum, er greiðsla fór fram. Síðan hafa bæst við vextir, og stendur nú svo, að ábyrgð ríkissjóðs nemur rúmlega 172 þús. kr.

Um síðastliðin áramót var hagur „Kára“-fjelagsins svo, að það gat ekki fengið lán í Íslandsbanka, vegna þess, að það hafði eigi getað skilað aftur því rekstrarfje, er bankinn hafði lánað því í fyrra. Þess vegna vildi bankinn eigi veita fjelaginu rekstrarlán á þessu ári. Þó fjelst hann á það að lokum að lána fje fram yfir vertíð, ef ríkissjóður vildi sleppa við sig 2. veðrjetti og færa sinn veðrjett aftur. Fyrir þessu er fram borin sú sanngirnisástæða, að sú upphæð, er fjelagið gat eigi skilað bankanum á s. 1. ári, hafi farið til viðgerðar á skipum fjelagsins, eða með öðrum orðum farið til þess að bæta það veð, sem ríkissjóður hefir.

Um sama leyti og farið var fram á það, að ríkissjóður færði aftur veðrjett sinn, hafði skuld fjelagsins við útlenda bankann aukist að mun frá því sem hún var, þá er Íslandsbanki greiddi þessi 5000 sterl.pund. Og sú aukning stafaði af því, að fjelagið hafði eigi getað greitt vexti af þeirri skuld. Má nú telja, að á skipunum hvíli með 1. veðrjetti 487 þús. ísl. kr., en þau eru bæði metin af trúnaðarmönnum stjórnarinnar á 500 þús. kr. Sýndist stjórninni því, að veðrjettur ríkissjóðs væri einskis virði, enda þótt skipin væru virt 13 þús. kr. hærra en á þeim hvílir á 1. veðrjetti, því að ef gengið væri að fjelaginu nú, þá mun falla á margvíslegur kostnaður, og hætt er við, að ýms sjóveð muni vera á undan 2. veðrjetti.

Stjórnin lítur svo á, að fyrst ríkissjóður tók á sig ábyrgð þessa til þess að bjarga fjelaginu, þá væri lítið samræmi í því, ef nú væri farið að stöðva rekstur fjelagsins, án þess að ríkissjóður fengi neitt í aðra hönd.

Jeg skal ekkert fullyrða um það, hvort þessi eftirgjöf ríkissjóðs nægir til þess að tryggja fjelaginu nægilegt rekstrarlán, en ef tilfærslan verður ekki til þess, að lánið fáist, þá verður hún ekki veitt.

Eftir fyrri ára reynslu um útgerðina hjer má búast við því, að fjelagið hafi einhvern tekjuafgang að vertíð lokinni. Og því er það betra, ef fjelagið á að fara yfir um á annað borð, að það verði ekki fyr en eftir vertíð.

Stjórninni virtist því rjett að verða við þessum tilmælum og mælir með því, að Alþingi veiti hina umtöluðu heimild.