08.03.1926
Efri deild: 22. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í D-deild Alþingistíðinda. (2824)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það var yfirsjón í ræðu minni áðan, að jeg tók ekkert fram um það í lok máls míns, að jeg óskaði eftir, að málinu yrði vísað til nefndar. Jeg geri það því að tillögu minni, að þessu máli, að þessari umræðu lokinni, verði vísað til fjárhagsnefndar. Það var í fjhn. í Nd. og var ítarlega athugað þar, og það var ekki fyr en það kom aftur þaðan og fyrir einróma tilmæli nefndarinnar, að veitt voru afbrigði frá þingsköpum við afgreiðslu málsins í þeirri deild. Þess vegna tel jeg sjálfsagt, að málið fari einnig í fjhn. hjer. Þá getur sú háttv. nefnd einnig talað við stjórn fjelagsins og gengið úr skugga um það, hvort það hafi nokkra þýðingu, að málinu verði hraðað, því um það segi jeg ekki neitt.

Háttv. 3. landsk. þm. (JJ) talaði um það, hvers vegna Íslandsbanki vildi ná í veðrjett, sem ríkissjóði væri gagnslaus. Mjer finst þetta vera mjög auðskilið mál. Veðrjetturinn er ónýtur nú sem stendur, ef fjelagið verður leyst upp og gengið að eignum þess, en ef Íslandsbanki lánar fjelaginu nú, gerir hann það auðvitað í von um að fá eitthvað meira borgað frá fjelaginu en sem svarar því fje, er hann nú lánar fjelaginu, og að ef tekjuafgangur verður af rekstri fjelagsins þessa vertíð, þá lendi sá afgangur hjá bankanum. Íslandsbanki er að tryggja sjer, að hann geti fengið eitthvað fyrir að leggja fje sitt í hættu.

Jeg ætla ekki að ræða um efnahag fjelagsins hjer, því það á ekki við, en nefndin fær alt að vita, sem hún vill, um þau atriði, en jeg tek aðeins fram, að fjelagið skuldar Íslandsbanka mikið meira fje en það, sem veð er fyrir.

Ríkissjóður fær ekkert, ef fjelagið verður leyst upp nú þegar, og jeg get ekki einu sinni búist við, að ríkissjóður geri boð í skipin og leysi af þeim þau veðbönd, sem á þeim eru á undan veðrjetti ríkissjóðs. Ríkissjóður hefir ekki von um að hafa neitt upp úr því að fara að bjóða í skipin. Menn eru nú sem stendur ekki fíknir í togarakaup, og því ekki nein von til, að ríkissjóður geti selt þau aftur að skaðlausu. Hitt væri alt annað, ef Alþingi vildi veita fjelaginu lán, leggja því til rekstrarfje. Þá mundi enginn fara fram á að veita þessa eftirgjöf á veðrjettinum. Þá væri sjálfsagt, að ríkið eignaðist afganginn af tekjum fjelagsins, ef nokkur yrði. En þetta dettur hvorki mjer nje öðrum í hug að fara fram á. Að veðið batni við gengisbreytingu, — því má hver trúa fyrir mjer sem vill! Ábyrgðin var fyrir skuld, sem stofnuð var í sterl.pundum, og getur gengisbreytingin því í raun og veru ekki haft þar nein veruleg áhrif að öðru leyti en því, sem hagur er að því, að ísl. króna hefir hækkað í verði gagnvart gulli

Þar næst talaði háttv. 3. landsk. þm. (JJ) um ábyrgð hluthafa. Úr því að þetta var nefnt, verð jeg að segja frá eins og er. Þegar ábyrgð þessi var veitt, urðu þau mistök á, að engar „persónulegar“ tryggingar voru teknar til handa ríkissjóði. Áður en þetta varð, hafði þó fyrverandi stjórn veitt 3 togarafjelögum ábyrgðir, og þá var svo gengið frá þeim, að engin áhætta var fyrir ríkissjóð. Bæði voru veðin betri, og auk þess voru teknar „persónulegar“ tryggingar. En þessi ábyrgð Kára var, því miður, svo mikið vertrygð, að ekki er sambærilegt við þær, sem jeg nefndi áðan. Það hefði verið rjettast að krefjast „persónulegra“ ábyrgða að auki, þar sem ýmsir vel stæðir menn stóðu að fjelaginu, enda þótt einnig væru þar og margir smáhluthafar.

En að koma nú eftir á, þegar alt er sýnilega tapað, og krefjast þá „persónulegra“ trygginga, er orðið fullseint, þykir mjer, en það má háttv. 3. landsk. þm. (JJ) gjarnan reyna sjálfur, ef hann vill; hann skal fá fult leyfi og umboð frá mjer til að gera þetta, ef hann treystir sjer til. En jeg leiði minn hest frá því. Íslandsbanki krefst og frekari trygginga fyrir því fje, sem hann kann að lána í viðbót. Að það sje verið að stofna nýtt fjelag, er hugarburður. Það er aðeins verið að leitast við, að þetta fjelag, sem nú er, geti haldið starfsemi sinni áfram. Jeg veit ekki, hvort það, sem farið er fram á, nægir til að fleyta fjelaginu áfram, en jeg verð að telja það mjög æskilegt, að fjelagið geti starfað áfram. Fjelagið á t. d. stöðina í Viðey og er hinn eini atvinnurekandi, sem þar er, en þar er nú allmargt verkafólk búsett, og yrðu þar því mjög erfiðar kringumstæður hjá þessu fólki, ef sú atvinna, sem það hefir haft, hætti, af því að fjelagið yrði leyst upp. Þetta verður Alþingi að líta á, ef tekið skal tillit til þess, hvort fjelagið á að fara á höfuðið aðallega vegna viljaskorts „þess opinbera“ til að gefa eftir veðrjett, sem orðinn er einskis virði.

Háttv. 3. landsk. þm. skildi ekki, þegar jeg skýrði frá því, að Íslandsbanki teldi það sanngirnismál af hálfu ríkissjóðs, að tilfærslan yrði veitt, vegna þess, að teknir höfðu verið peningar, sem ella hefðu átt að renna til bankans, til að gera við skipin og bæta þannig veðið, og hann skaut því til mín, hvaða vit jeg teldi vera í þessu, eða hvernig jeg liti á það sem stjórnandi í stóru einkafyrirtæki? Jeg get sagt honum það, að jeg stýri engu einkafyrirtæki sem stendur, hvorki stóru nje smáu.

Fjelagið hefði átt að fá leyfi bankans til að verja fje hans til að bæta skipin, svo veðrjettur ríkissjóðs yrði betri. Þetta skeður oft um samsk. veð og er jafnan hagur þeirra, sem hafa lakari veðrjettina. Þetta var ekki gert, og ríkissjóður átti ekki kost á að líta eftir því, hvort þetta væri meira en venjulegt samningsbundið viðhald á veðinu.

Að lokum ætla jeg að minnast á það, sem hv. 3. landsk. (JJ) sagði um ástand útvegsins, enda þótt það komi þessu máli lítið við, þar sem ríkissjóður ætlar ekki að setja fje í hættu fyrir þessa útgerð, heldur Íslandsbanki.

Horfurnar fyrir útgerðinni eru mjög slæmar nú, af því að afurðaverðið er svo lágt. Verð á fiski hefir fallið um 25% niður fyrir hið eðlilega verð, í gulli reiknað. Nú má fá 120 kr. fyrir skippundið, sem eftir venjulegu verði ætti að vera 160 kr. Þetta er mjög erfitt útlit, en nú hefir það altaf verið svo um sjávarútveginn, að verð á afurðum hans hefir verið lágt stundum, en svo hefir batnað í ári, og verðið hefir hækkað, svo að ekki mun ástæða til að örvænta um það, að fyrirtæki, sem fær að lifa og halda áfram að starfa, geti ekki lifað svo lengi, að fiskverðið verði aftur eðlilegt.

Jeg mundi þó ekki hafa farið fram á þessa tilslökum, ef um nokkur útlát hefði verið að ræða fyrir ríkissjóð. En það er víst, að fjelagið er gjaldþrota á sömu stundu og neitað er um þessa tilslökun, en annars er von um, að það geti haldið áfram að starfa og ef til vill unnið sig svo upp, að ríkissjóður geti losnað úr sinni áhættu. Jeg álít rjett að nota þennan möguleika, þó að vonin sje veik um, að fjelagið geti greitt skuld þá, er ríkissjóður ábyrgist. En jeg held, að málið verði rætt með betri árangri, þegar það er búið að vera í nefnd, og sje því ekki ástæða til að lengja umræðurnar að sinni.