08.03.1926
Efri deild: 22. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (2825)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Jónas Jónsson:

Það hefir komið í ljós af ræðu hæstv. fjrh. (JÞ), að afbrigði hafa verið í hv. Nd., og hann bar ekki á móti því, að þau hefðu verið veitt tvisvar. Þetta er dálítið óvenjulegt, og get jeg ekki sjeð annað en að mín orð í sambandi við þetta standi föst. Næst viðurkennir hæstv. ráðh. (JÞ), að þessi veðrjettur sje einskis virði fyrir landið nú, en samhliða því kemur í ljós, að Íslandsbanki vill meta veðrjettinn að nokkru. Þá fanst hæstv. ráðh. (JÞ) fjarstæða að gera ráð fyrir því, að hluthafar vildu á sig leggja að taka á sig persónulega ábyrgð.

Af því að bankinn hefir farið fram á persónulega tryggingu, er sjálfsagt fyrir Alþingi að gera sömu kröfur, og ef hluthafar vilja ekki sinna því, hafa þeir engan rjett til að ætlast til hjálpar.

Hæstv. ráðh. (JÞ) hjelt því fram, að það hefðu verið mistök að heimta ekki ábyrgð af þessum mönnum fyr, og er jeg honum samdóma í því. En jeg vil bæta úr því nú, með því að heimta af þeim, að þeir sýni einhvern lit á að vilja þakka hjálp ríkissjóðs. Hæstv. ráðh. (JÞ) tók fram, að margir af þessum mönnum væru vel stæðir. Þá ætti ekki einu sinni að gera þá kröfu, að þeir taki á sig persónulega ábyrgð, heldur skoða það sem sjálfsagt atriði, að þeir standi skil á sínum skuldum. Mjer finst bera á tortrygni hjá hæstv. ráðh. (JÞ) á „karakter“ þessara manna. Hann segir, að ekki sje við það komandi, að hluthafarnir gangi í ábyrgð. Þetta er mótsögn við það, sem hann sagði um, að þeir hafi gengið í ábyrgð gagnvart Íslandsbanka. Þetta minnir á orð hins fræga konungs um þingmennina, sem átti að reka út, en þeir sátu sem fastast: „Látum þá sitja, fyrst þeir vilja ekki fara“. En jeg trúi því ekki, að hæstv. ráðh. (JÞ) vilji feta í fótspor þessa konungs.

Þá hefir hæstv. ráðh. (JÞ) haldið því fram, að veðið verði bætt með viðgerð skipanna, en ekki hefir fyrir því lagast skýringin á, hvernig það á að koma ríkissjóði til góða, þegar búið er að sleppa því.

Að síðustu tók hæstv. ráðh. (JÞ) fram, að ástand útvegsins kæmi ekki málinu við, en gaf um leið þá góðu skýringu, að verð á fiski væri 25% fyrir neðan eðlilegt verð. Þá fer manni að lítast illa á fyrir Kárafjelaginu, þegar horfurnar eru svona, og formaður togaraeigendafjelagsins er nýbúinn að lýsa því yfir, að vegna kaupgjaldsins sje líklega rjettasta ráðið að leggja skipunum upp. Það má segja um þá, sem halda, að Kárafjelagið græði á vertíðinni: „Mikil er trú þín, kona!“