25.03.1926
Efri deild: 37. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í D-deild Alþingistíðinda. (2828)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Þessi till. um tilfærslu á veðrjetti ríkissjóðs í togurum h/f. „Kára“ var borin fram af fjárhagsnefnd Nd. Það þarf eiginlega ekki að tala langt mál fyrir því, hvers vegna meiri hluti fjhn. hallast að því að leggja til, að till. þessi verði samþykt. Ástæðurnar fyrir því eru teknar fram í nál. á þskj. 176, og munu hv. deildarmenn hafa kynt sjer það. Er því óþarfi að endurtaka það hjer, nema eitthvað annað komi fram í málinu, sem gefur tilefni til andsvara. Jeg hefi tekið eftir því, að í nál. á þskj. 203, frá minni hl. fjhn., kemur fram rökstudd dagskrá um það að vísa málinu á bug vegna þess, að veðrjetturinn sje þegar færður aftur af hæstv. fjrh. (JÞ). En þó svo sje, þá hefir það aðeins verið gert um stundarsakir, til þess að fjelagið gæti starfað frá 1. janúar og til þess tíma, að þingið gæti tekið ákvörðun um málið. Ef till. er vísað á bug með rökstuddu dagskránni, þá er það sama og neita um heimildina. En þetta finst meiri hl. fjhn. ekki rjett, af ástæðum þeim, sem greindar eru í nál., og þótt fleiri ástæður mætti telja til, þá gerist þess ekki þörf, því þessar nægja. Það er þrent, sem bent er á í nál., sem leiða mundi af neituninni. Það getur verið, að aðstaðan hafi breyst eitthvað síðan nál. var samið, en þá leit svo út, að leiða mundi af neituninni, að fjelagið yrði að stöðva rekstur sinn, og þeir, sem vinna hjá því, verða atvinnulausir. Þetta virðist mjer vera alveg næg ástæða til þess að vera með því, að ríkissjóður slakaði til með þennan veðrjett, sem frá byrjun var svo að segja einskis virði, þegar svo mikið er í húfi, að 2 skip stöðvist um hávertíðina, þá er hart að gengið að neita um heimildina. Að minsta kosti liti það einkennilega út, ef Alþingi, að tilefnislausu, gerði sjer leik að því að bregða fæti fyrir útgerðina og þá, sem við hana vinna, bæði til lands og sjávar.