27.02.1926
Neðri deild: 16. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

3. mál, happdrætti og hlutaveltur

Frsm. (Árni Jónsson):

Það er ákaflega lítið um þetta frv. að segja, enda skal jeg vera fáorður. Frv. er komið fram til þess að lögfesta þær reglur, sem hingað til hafa tíðkast, þótt óskráðar sjeu, um happdrætti og hlutaveltur. Það hefir verið siður að sækja um leyfi, þegar happdrætti er haldið, þótt ekki hafi verið lagafyrirmæli um það. Í þessu frv. eru fyrirmæli um það, að til þess að halda happdrætti þurfi að fá leyfi dómsmálaráðuneytisins, en til þess að halda hlutaveltur þarf leyfi lögreglustjóra. Gildir þetta eins um happdrætti og hlutaveltur innan fjelaga.

En það, sem má telja aðaltilgang frv., er að koma í veg fyrir, að verslað sje hjer með happdrættismiða fyrir útlend fjelög. Hefir það færst mjög í vöxt á síðari árum, að menn hafi verslað með útlenda happdrættismiða, og er talið, að þannig hafi farið allmikil fjárfúlga út úr landinu, en lítið komið í aðra hönd. Samkvæmt frv. verður mönnum óheimilt að versla með þessa miða hjer á landi, en hinsvegar verður ekki við það ráðið, að keyptir verði happdrættismiðar beint frá erlendum lotteríum.

Mál þetta er komið til þessarar deildar frá Ed., og hafði allshn. þar gert smávægilegar breytingar á frv. Hefir allshn Nd. getað felt sig við þær.

Jeg skal geta þess, að okkur barst brjef frá borgarstjóra Reykjavíkur, þar sem hann fer þess á leit, að bætt sje inn í frv. ákvæði, er heimili sveitarstjórnum og bæjarstjórnum að setja reglugerð um hlutaveltur í viðkomandi sveit eða kaupstað.

Bæjarstjórnin hjer telur, að hlutaveltur hafi skaðleg áhrif á fjárhag manna, þar sem þær eru líka orðnar svo almennar, en sjerstaklega hafi þær þó skaðleg áhrif á andlegan þroska æskulýðsins. Vera má, að eitthvað sje til í þessu, en okkur fanst þó, meiri hl. nefndarinnar, vera nægilega vel um hnútana búið eins og gert er ráð fyrir í frv.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hefir skrifað undir nál. með fyrirvara. og mun það helst af því, að hann æski þess, að tillit sje tekið til þess, sem brjef borgarstjórans bendir á, þótt hann hafi ekki komið með brtt. í þá átt.