27.03.1926
Efri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í D-deild Alþingistíðinda. (2841)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Það er margt búið að segja um þetta mál frá því jeg talaði síðast, en þó hefir ekkert nýtt komið fram.

Jeg ætla þá fyrst að snúa mjer að vini mínum, hv. 2. þm. S.-M. (IP).

Hann hefir haldið áfram uppteknum hætti, að vera með órökstudda dóma um afkomu fjelagsins. En það er einmitt sú hlið málsins, sem meiri hl. fjhn. hefir leitt hjá sjer, af því að hann telur það enga þýðingu hafa fyrir þessa tillögu, þó verið sje með slíka dóma og aðfinslur. Enda hafa skoðanir manna verið allmjög skiftar um gerðir fjelagsins á liðnum árum, öðrum hefir fundist þetta, en hinum hitt.

Veðrjettur sá, sem ríkissjóður fjekk hjá fjelagi þessu, hefir meiri hl. fjhn. og fleiri talið að hafi verið einskis virði frá byrjun, sakir þess, hve mikið hafi verið lánað út á 1. veðrjett. Á þetta hefir rjettilega verið bent bæði af hv. þm. Snæf. (HSteins) og fleirum. Af þessum ástæðum vill meiri hl. fjhn. leyfa tilfærslu þá, sem um er beðið á veðrjetti þessum, þar sem sýnilegt er, að engu getur verið að tapa. Má hv. 2. þm. S.-M. (IP) því vera viss um, að hefði hjer verið um veðhæfa eign að ræða fyrir ríkissjóð, þá hefði meiri hl. ekki lagt áherslu á, að tilfærsla þessi væri leyfð. En þar sem sýnilegt er, að ekkert er eftir að gefa, ef fjelagið ætti nú að gefast upp, en miklu frekar líkur til, að fjelagið geti rjett sig við og starfað, ef það fær þetta, þá horfir málið alt öðruvísi við.

Háttv. 3. landsk. (JJ) virtist vilja gera hvell út úr því, að fjármálaráðherra hafði gefið eftir til bráðabirgða, að rekstrarlán það, sem fjelagið þurfti frá nýári til vertíðar, væri fært fram fyrir þennan veðrjett, og til sönnunar því, að ráðherrann hefði ekki haft heimild til þess að leyfa þessa tilfærslu, las hann upp kafla úr brjefi frá honum. En ef hann hefði lesið dálítið lengra, þá hefði hann getað sannfærst um, að ráðherrann hefir ekkert gefið eftir af því, sem nú er farið fram á að fá eftir gefið.

Sannleikurinn er sá, að um áramót, þegar fjelagið er í vandræðum með að fá rekstrarlán, þá leyfir stjórnin, að það fje, sem fjelagið þarf til útgerðarinnar frá nýári til þess tíma, að þingið geti tekið ákvörðun um málið, verði látið ganga á undan þessum veðrjetti, þó aðeins með því skilyrði, að greiðsla á þeirri upphæð verði látin ganga á undan öllum öðrum greiðslum, sem á fjelaginu hvíla.

Þegar nú þess er gætt, að þetta er aðeins bráðabirgðaráðstöfun, gerð á þeim tíma, sem ómögulegt er að ná til þingsins, þá er ekki hægt að ásaka stjórnina fyrir hana. Það hefði þvert á móti verið ástæða til að ásaka hana, ef hún hefði ekki gert þetta.

Ásakanir þessar í garð núverandi stjórnar detta því með öllu niður, þegar málið er athugað til hlítar, og lenda á þeirri stjórn, sem gekk frá veðinu á sínum tíma.

Að stjórnin hafi leynt fjhn. einhverju í þessu máli, er hin mesta fjarstæða, því að öll gögn málsins var að finna í þeim skjölum, sem lágu fyrir.

Hv. 2. þm. S.-M. (IP) spurði meðal annars, hvað hefði orðið af gróða fjelagsins 1924. Að þessu hefði hann alls ekki þurft að spyrja, því að það var upplýst fyrir fjhn., að hann gekk til að borga skuldir fjelagsins.

Þá var hv. 3. landsk. (JJ) að harma það, að yfirleitt væri verið að styðja stórútgerðina, því að hún drægi svo mjög fólk úr sveitunum. Jeg skal fúslega játa, að það er mjög bagalegt, ef fólk dregst um of úr sveitunum. En hjer ber þess að gæta, að hjer er um að ræða þann atvinnuveg, sem gefur ríkissjóði langmestar tekjur, og á því illa við að vera að telja eftir, þó að eitthvað sje fyrir hann gert.

Ásakanir þessa hv. þm. í garð stjórnarinnar fyrir það, að hún hafi ekki náð tekjuskatti af fjelagi þessu, eru bara út í bláinn, því að það er vitanlegt, að allur sá afli, sem fjelagið fær, er fyrst og fremst veðsettur þeim banka, sem lánar fjelaginu rekstrarfje til útgerðarinnar. Sje svo ekkert afgangs fyrir skattinum, er vitanlega ekki hægt að ná honum.

Þegar slept er öllum spádómum um væntanlega afkomu útvegarins yfir höfuð og menn fást til að tala um ástandið eins og það er, þá finst mjer það mjög einfalt mál, að ríkissjóður eigi að gefa eftir veðrjett, sem sannanlegt er að er einskis virði, ef það gæti meðal annars orðið til þess, að fjelagið gæti starfað og veitt því fólki atvinnu, sem unnið hefir hjá því, að minsta kosti nú um hábjargræðistímann. Þetta finst mjer háttv. minni hl. ekki hafa athugað sem skyldi. Og það ætti honum að vera ljóst, að yrði fjelagið gjaldþrota nú, þá mundi það taka mjög langan tíma þangað til rekstur þessara skipa væri kominn í gang aftur. Mundi því fjöldi manna, sem hefir atvinnu við fjelagið nú, tapa stórfje.

Það hefir rjettilega verið tekið fram, að ekki er fullvíst, að fjelagið fái rekstrarlán, þó að þessi tilfærsla verði leyfð. En það eru mjög miklar líkur til þess, því að bæði bankastjórnin og framkvæmdarstjóri fjelagsins gáfu fyllilega í skyn, að lánið myndi fást, ef tilaga þessi yrði samþykt. En eins og marglýst hefir verið yfir, verður heimildin ekki notuð, ef fjelagið fær ekki lánið.

Það er ekki, eins og háttv. þm. Snæf. (HSteins) komst að orði, til þess að lýsa blessun sinni yfir því, að vilja þingsins hefir verið traðkað í þessu máli, að meiri hl. er með tillögunni, og ekki heldur af því, að hann sje ánægður með, hvernig gengið var frá þessu veði í byrjun. Heldur fylgir hann henni til þess að reyna að bjarga atvinnu þeirra manna, sem vinna hjá fjelaginu nú, og því verðmæti, sem skipin afla yfir þennan tíma, vertíðina.