27.03.1926
Efri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í D-deild Alþingistíðinda. (2843)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Fjármálaráðherra (JÞ):

Mjer finst þessi forustufugl Framsóknarflokksins, sem fór vængbrotinn af fundum sínum í sumar fyrir ámæli, sem hann hlaut vegna mælgi sinnar á síðasta þingi, vera nú farinn að gróa sára sinna og sýna það fjaðraflug, sem við áttum að venjast hjer áður. Það gleður mig, að þessi hv. þm. sýnir enn á ný sitt sanna eðli, og jeg vona, að hann haldi áfram bæði innan deildar og utan því myndarlega starfi, sem hann hefir haft á hendi síðustu ár: Að vera besti stuðningsmaður þess flokks, sem jeg heyri til. Þeir, sem fælast hann, koma yfir til okkar. (SE: Ekki allir!). Jeg mundi unna hv. 1. landsk. (SE) þess vel, þótt eitthvað kynni að reka á hans fjörur af þessum landburði handan að.

Jeg hefi ekki haft tækifæri til að hlýða á umræðurnar hjer, en hv. 3. landsk. hefir gert mjer þann greiða að endurtaka helstu höfuðatriðin, sem hann hefir haft hjer á prjónunum, og er mjer ánægja að fá tækifæri til þess að svara honum. Þegar jeg kom inn, var hv. 3. landsk. (JJ) að tala um skjalafals í sambandi við skjal eitt úr stjórnarráðinu, sem ekki er alt skrifað með sömu hendi. Ef fyrir hv. 3. landskjörna liggur sá frami, sem hann sækist nú mjög eftir, að komast í ráðherrastól, þá mun hann finna mörg dæmin upp á þetta í handritum stjórnarráðsins, að einn breytir eða bætir við það, sem annar hefir ritað. Það getur ekki verið neitt merkilegt í augum þeirra, sem til þekkja, þó að svona skjal berist í þingið. En það má hv. þm. vita, að fullar sannanir eru fyrir því, hvernig hvert skjal er afgreitt úr stjórnarráðinu, því jafnan er tekið hreinrit af því, sem sent er. En þau hreinrit eru ekki lánuð út, heldur eru notuð til þess handrit, sem vel geta verið með fleiri en einni hendi.

Þá spurði hv. þm., hvaða rjett jeg hefði haft til þess að ganga í ábyrgð fyrir „Kára“-fjelagið. Jeg hafði engan rjett til þess, og jeg hefi heldur ekki gert það. Það var gert í tíð fyrverandi stjórnar. Alt málæði hv. þm. og vafstur út af þessu máli er aðeins tilraun til

að breiða yfir það, að fyrv. stjórn varð það á að ganga í þessa ábyrgð, án þess full trygging væri fyrir hendi. Hann reynir að láta líta svo út, að jeg eða núverandi stjórn hafi eitthvað aðhafst, sem svift hafi ríkið þeirri von að þurfa ekki að greiða þessa ábyrgð upp í topp. Því fer fjarri, að jeg hafi ástæðu til að borga nokkuð sjálfur. Jeg get aftur á móti vikið því til hv. 3. landskjörins, hvort hann vill fara til fyrv. fjrh. og spyrja hann, hvort hann vilji borga það, sem ábyrgst var.

Þá spurði hv. þm., því jeg hefði ekki krafið inn þessa skuld. Því er þar til að svara, að til þess hafði jeg enga heimild, því að engin ákvæði höfðu verið sett um afborgun skuldarinnar, þegar ábyrgðin var gefin. Jeg varð að fara eftir því, sem enski bankinn vildi vera láta. Í árslok 1924 tilkynti Íslandsbanki, að enski bankinn gengi eftir þessu 5000 punda láni. Íslandsbanki, sem var til neyddur að borga, fór fram á, að ábyrgð ríkissjóðs yrði færð í þá upphæð í ísl. krónum, sem þurfti til að borga skuldina. Þetta var krafa, sem Íslandsbanki átti fulla heimtingu á. Jeg samþykti þetta, en setti það skilyrði, sem mátt hefði setja þegar í upphafi, að skuldin yrði ekki framlengd nema greiddur væri í afborgun einn fimti hl. á ári. Samkvæmt þessu átti skuldin að færast niður um einn fimta við síðustu áramót. En þá fór fjarri því, að fjelagið gæti borgað, heldur þurfti það ný lán, til þess að geta haldið áfram rekstrinum.

Það er ekki jeg, sem hefi vanrækt að ganga eftir greiðstu. Ef einhver er sekur í því efni, þá er það fyrv. fjrh., sem setti enga greiðsluskilmála í upphafi.

Þá kem jeg að afbrigðunum í Nd. Jeg heimtaði þau ekki. Þau voru boðin. En jeg áleit alls vegna æskilegt, að málið yrði afgreitt sem fyrst.

Jeg hefi svarað þessu um blýantskrotið. Hafi hv. 8. landsk. haft grun um, að eitthvað væri rangt í handritinu, þá var honum innanhandar að bera það saman við hreinritið í stjórnarráðinu.

Þá talaði hv. þm. um, hvers vegna jeg hefði ekki ýtt undir tollheimtumennina með að innheimta gjöld frá þessu fjelagi. Jeg get sagt hv. þm., að það hefir orðið mitt hlutskifti að ýta undir innheimtu slíkra gjalda, en það er þessu máli óviðkomandi. Að því er snertir tekjuskatt þessa fjelags er rjett að geta þess, að jeg bar það undir fjhn. Nd. hvað hún teldi rjett að langt væri gengið, þegar svona stæði á, með innheimtu á tekjuskatti. Það er venja gagnvart einstaklingum í svona tilfellum að framkvæma lögtak. En þegar lögtak reynist árangurslaust, er ekki krafist skiftameðferðar og gjaldþrots. Jeg bar undir fjhn., hvort fylgja skyldi sömu reglu gagnvart hlutafjelögum. Hún hefir gefið skriflegt svar, þar sem hún telur rjett að láta sitja við lögtak, einnig hjá hlutafjelögum.

Þá endurtók hv. þm. það, sem líka má finna út úr nál., að um einhverja ávirðing sje að ræða, þar sem jeg hafi ekki sagt frá því þegar í byrjun, að búið væri að festa veðrjettinn.

Jeg held nú, að þetta hafi komið fram í umræðunum í Nd., að minsta kosti hafði jeg enga ástæðu til þess að draga dul á þetta. Jeg held, að stjórnin hafi aðeins gert það, sem sjálfsagt var í þessu máli. Hjer var ekki um það að ræða að gefa eftir neitt fje, sem ríkið átti annars kost á að fá, eins og jeg hefi gert grein fyrir, og þegar hv. 3. landsk. talar um, að jeg sje ábyrgur fyrir þessu fje, þá er jeg alveg rólegur. Ed. má gjarnan fella tillöguna mín vegna. Þá einmitt kæmi það skýrast fram, að ríkissjóður hefir ekki beðið neinn halla af mínum völdum. Þá verða skipin sett undir hamarinn, og þá sjest, hver afgangur verður handa ríkissjóði.

Jeg veit með vissu, að þau fullnægja ekki meira en 1. veðrjetti, og að ekkert verður eftir handa hinum. Ef þessi leið verður farin, þá fæst lögfull sönnun þess, að jeg hefi ekki bakað ríkissjóði tjón. — Jeg hefi áður tekið fram, að jeg hefi ekki gefið þinginu neina falska hugmynd um þetta mál. Öll skjöl hafa legið fyrir. Hv. 3. landsk. getur gjarna notað sjer að hlaupa á hundavaði yfir skjöl og segjast svo hafa fengið vitneskju um eitthvað, sem jeg hafi viljað leyna. Það er aðeins vitnisburður um þann lausalopahátt, sem hvílir yfir gerðum og ferli þessa hv. þm., að hann hefir skjöl undir höndum í nefnd án þess að vita hvað í þeim stendur.

Þá talaði hv. þm. um fisk frá 1924, en það var svo óljóst, að jeg skildi ekki fyllilega, hvað hann fór. Eftir samningunum hafði jeg enga aðstöðu til að heimta neina greiðslu upp í þessa skuld.

Þá spurði hv. þm., hvers vegna stjórnin hefði hjálpað skipunum til að ganga þennan magra tíma. Jeg hefi margsagt, að tilgangurinn hafi verið sá, að láta koma til Alþingis kasta að kveða formlega á um, hvort þessi veðrjettur ríkissjóðs skyldi látinn verða til þess að enda lífdaga fjelagsins.

Hv. þm. sagði, að fjártap mundi orðið á þessum rekstri. Um það skal jeg ekkert segja, en það liggur í hlutarins eðli, að þeim rekstri er ekki lokið, þar sem þingið er ekki enn búið að útkljá málið. Ef um fjártap er að ræða, var það næg ástæða til að flýta málinu, til þess að tapið yrði sem minst, þó að það komi raunar ekki niður á ríkissjóði, heldur Íslandsbanka, hafi hann ekki getað útvegað sjer tryggingar í annari átt, því veðrjetturinn í skipunum er Íslandsb. einskis virði, ef fjelagið fer yfir um nú.

Þá kom hv. þm. í ræðulokin með Gróusögu um það, að stjórnin hafi gengið í ábyrgð fyrir kolakrana hjer við höfnina. Sannast að segja veit jeg ekki, við hvað þm. á. En jeg get sagt honum það, að öll kolakranakaup hjer á landi eru stjórninni óviðkomandi. (JJ: Það er gleðilegt). Já, það er gleðilegt, að sögumenn hv. þingmanns skuli hafa reynst svona. (JJ: Það voru íhaldsbroddar).

Að síðustu skal jeg minnast á þau ummæli hv. þm., þar sem hann spurði, hvort jeg áliti vit í að halda við svona fyrirtæki eins og „Kára“-fjelaginu. Það er rjett, að það getur verið álitamál. En það var ekki það, sem vakti fyrir þingmanninum. Í þessari spurningu kom fram allur hugur hans til stórútgerðarinnar. Hún hefir altaf verið honum þyrnir í augum. Þegar fyrsti togarinn var keyptur hingað, löngu áður en hv. 3 landsk. varð þingmaður, hljóp hann upp til þess að benda á, að hjer væri auðvaldshætta á ferðum.

Hann var hræddur um, að þarna kynni að vaxa upp máttugur atvinnuvegur og meiri fjársöfnun en áður gæti hjer orðið, en til þess mátti hann ekki hugsa. Þarna skilur okkur allmikið á. Það er ekki hægt að neita því, nema með því að loka augunum fyrir staðreyndum, að sjávarútvegurinn, þ.e. stórútgerðin svokallaða, ber uppi að mestu leyti fjárhag ríkissjóðs, og það, að hægt hefir verið að leggja allmikið fje af hálfu þess opinbera til ýmsra þjóðþrifafyrirtækja og styrkja með myndarlegum fjárframlögum framkvæmdir ýmsar í sveitum, stafar m. a. af því, að fjár til þessa hefir útgerðin aflað. Þessi atvinnuvegur hefir borið þunga skatta og stór útgjöld til opinberra þarfa og verið allhörðu beittur, þegar um hefir verið að ræða að ná þaðan auknum tekjum í ríkissjóð. En jeg verð að segja það, að þegar einhverjum slíkum fyrirtækjum gengur erfitt og þau eiga í vök að verjast að geta starfað áfram, eiga þau skilið fullkomna samúð og skilning á ástæðum þeirra af hálfu þess opinbera. Jeg lít svo á, að það, sem í þessari till. felst, sje ekki annað en samúðartilkynning — að þing og stjórn vill ekki fyrir sitt leyti og án ávinnings fyrir ríkissjóð hamla því, að fjelagið geti haldið áfram að starfa og þannig ef til vill átt kost á að rjetta við fjárhag sinn. Jeg veit vel, að í þessu efni greinir mig mikið á við hv. 3. landsk. (JJ). Jeg veit, að hann hefir ávalt óskað, að alt, sem ofar ber frá fjárhagslegu sjónarmiði, yrði jafnað við jörðu, og svo gæti hann þá sjálfur staðið einn uppi á öskuhaugum og rústum þessa atvinnuvegar og horft yfir eintóma efnahagslega, ósjálfbjarga amlóða. (JJ: Er „Kára“-fjelagið eitt af þessum stóru efnahagslega sterku fjelögum?).

Háttv. spyrjandi, 3. landsk. þm. (JJ), hefir gefið mjer ástæðu til að koma fram með þessa raunverulegu lýsingu á stjórnmálastefnu hans.

Jeg hafði ekki ætlað mjer að draga fram ávirðingar fyrirrennara míns í þessu embætti, en jeg komst ekki hjá því að minnast á sögu þessa máls, úr því að það var notað sem árásarefni á mig og núv. stjórn, sem ekkert tilefni hefir gefið til þess. Jeg vil því segja hjer frá því, sem jeg tók fram í hv. Nd., að þetta er hin eina af öllum togaraábyrgðum ríkissjóðs, sem sýnilegt er að ríkissjóður þurfi að greiða. Samkvæmt heimildum í fjárlögum fyrir árið 1922 voru veittar ábyrgðir 3 togarafjelögum í tíð þeirrar stjórnar, sem ljet af völdum í mars 1922, og var svo frá þeim öllum gengið og svo góðar tryggingar teknar fyrir ábyrgðunum, að engin hætta er á, að ríkissjóður hafi nokkurn tíma óhag af því. Þar tók ríkissjóður 1. veðrjett í skipunum, og auk þess voru honum veittar persónulegar ábyrgðir eða aðrar góðar tryggingar að auki.

Sum af þessum lánum eru nú þegar að fullu greidd og eru því úr sögunni; eitt er að vísu ekki alveg búið að borga upp enn þá, en það er svo lítið eftir af því, og auk þess er fyrir því 1. veðrjettur í skipum o. fl., að engin hætta getur af því stafað. En lán það, sem hjer ræðir um („Kára“-fjel.), sker sig úr þegar frá upphafi. Tryggingamar voru allar mjög ljelegar eða ónýtar, engar aðrar en 2. veðrjettur í skipunum. Engar tryggingar fyrir endurgreiðslu lánanna til ríkissjóðs. Af hverjum orsökum þetta er, eða hverjum þetta er að kenna, fer jeg ekki út í, en þetta er eina lánið enn, sem ríkissjóður hefir fengið skell af að ábyrgjast eða útlit er fyrir að sje tapað. Eina vonin til þess, að ríkissjóður losni við að greiða þetta, er að allir hlutaðeigendur — þing og stjórn, geri sitt til, að fjelagið geti haldið áfram að starfa, því þá er ekki vonlaust um, að fjelagið geti rjett svo við, að ríkissjóður sleppi skaðlaus og fjelagið geti sjálft greitt lánið.