29.03.1926
Efri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í D-deild Alþingistíðinda. (2845)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Sigurður Eggerz:

Þetta mál hefir nú verið nokkuð lengi á leiðinni í þessari hv. deild, og yfirleitt ganga málin seinlega í þessu háa Alþingi. Við heyrum aðeins óminn frá stóru málunum í hv. Nd., en yfir höfuð ríkir hjer hið mesta úrræðaleysi.

Utan þings fer landráðapjesinn sigurför um landið, umgeislaður af lofi stjórnarblaðanna. Hjer hafa staðið harðar umræður um þetta lítilfjörlega mál, og með því hefir það verið gert að stórmáli. En þetta mál er ofur einfalt og óbrotið. Ef maður tekur umbúðirnar utan af því, er hjer ekki um annað að ræða en það, að stjórnin hefir eftir beiðni h. f. „Kára“ gefið eftir til bráðabirgða veð, sem metið var 13 þús. kr., en líklegt er, að mundi verða metið enn minna nú. Hjer er um það að ræða, hvort betra hefði verið að stöðva fjelagið eða gera tilraun til að hjálpa því til að vinna sig upp, og gæti þá verið, að það gæti greitt ríkissjóði skuldir sínar. Þetta er í raun og veru alt málið, sem hjer er um að ræða, og jeg lít svo á, að það hafi verið sjálfsögð skylda ríkisstjórnarinnar að gera það, sem hún gerði. Eiginlega finst mjer þetta mál ákaflega einfalt, og mjer þykir það furðu sæta, að svo miklar umræður hafa átt sjer stað um það. Jeg get ekki með mínum góða vilja áfelst hæstv. fjármálaráðherra fyrir það, sem hann hefir gert. Það má auðvitað segja, að hann hafi skort heimild til þess að gera þessa ráðstöfun, og það er satt. En jeg álít ekki, að hægt sje að gefa neinum fjármálaráðherra að sök, þó að hann geri skynsamlega ráðstöfun, eins og þessa, í trausti til samþykkis þingsins.

Hvað sjálfa þáltill. snertir, þá hefir það komið fram hjá andmælendunum, að það væri engin meining að gefa eftir veðrjettinn nema því að eins, að Íslandsbanki trygði fjelaginu nóg rekstrarfje, a. m. k. til vertíðarloka. Nú verður veðrjetturinn ekki færður til ella, og er mjer því ómögulegt að skilja, hvað það er, sem getur komið hugum manna svo mjög í hræringu í þessu máli.

Jeg ætlaði ekki að taka til máls í þessu máli, en jeg finn ástæðu til að gera grein fyrir atkvæði mínu. Jeg lít svo á, að ef tillagan verður feld, þá sje ómögulegt að líta öðruvísi á það en sem vantraust á hæstv. fjrh. Ekki svo að skilja, að jeg sje að mæla hann undan vantrausti, en jeg get ómögulega gefið honum vantraust í þessu máli. Jeg verð að segja það, að mjer þykir það broslegt, ef stuðningsmenn stjórnarinnar yfirgefa hana í þessu máli og greiða atkv. á móti, Slíkt væri ómögulegt að líta öðruvísi á en sem beint vantraust, og gæti þá verið spurning, hvort hæstv. fjrh. (JÞ) neyddist ekki til að draga sig til baka. Þetta er svo stórpólitískt atriði, að jeg mátti til að gera lítilsháttar grein fyrir mínu atkv.