30.03.1926
Efri deild: 41. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í D-deild Alþingistíðinda. (2865)

87. mál, rannsókn á veg- og brúarstæðum

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skal strax taka það fram, að stjórnin hefir ekkert við það að athuga, að rannsókn þessi fari fram, ef unt verður. En jeg ræð það af líkum, að talsvert verður að gera fyrir vegamálastjóra og þann mann, sem hann hefir sjer til aðstoðar á næsta sumri. Í fyrrasumar varð að taka 3. manninn þeim til aðstoðar, en jeg veit ekki enn, hvort svo verður að þessu sinni. Treysti vegamálastjóri sjer til að framkvæma þetta, hefir stjórnin ekkert við það að athuga og leggur fyrir hann að gera það. En þar sem þetta fer ekki gegnum nema aðeins aðra deildina, verður ekki ætlast til, að stofnað verði til sjerstakra útgjalda sakir þess.

Annars skal jeg, út af því, sem hv. flm. (JJ) sagði, geta þess, að tilætlunin hefir verið að tengja saman með bílfærum akvegi Borgarnes og Akureyri. En ef teknir verða fleiri spottar í einu á mörgum stöðum, líður ef til vill lengri tími uns fult gagn verður að brautinni. Að vísu hefir þetta eigi verið svo fastákveðið enn þá, að því verði eigi haggað, en þegar alt er athugað, hygg jeg, að það komi að betri notum að taka nokkuð stóra spotta í einu.

En það verður ef til vill örðugt að fá þær sveitir, sem röðin kæmi síðast að, til að sætta sig við þá tilhögun. Nú hefir það verið ákveðið að ráðast á ný í miklar verklegar framkvæmdir, ef sæmilega árar, og verður þá væntanlega hægt að herða á þessum vegum.

Hv. flm. (JJ) vjek ögn að járnbrautinni og ljet á sjer skilja, að þetta greiddi fyrir henni, með því að gera önnur hjeruð ánægðari, er þau sæju, að einnig væri hugsað um þau. En það hlýtur að fara eftir fjármagni ríkissjóðs, hvort hægt verður að ráðast í þetta hvorttveggja samtímis. Um járnbrautina get jeg sagt það, að með þeirri miklu umferð, sem nú er austur, og sá vegur, sem nú er, þolir engan veginn, er ekki nema um tvent að gera: Að leggja járnbraut eða dýran og öflugan veg. Og það verð jeg að segja, að eftir áætlununum er bitamunur en ekki fjár um kostnaðinn.

Auk þess vil jeg telja það járnbrautinni til gildis, að þeir, sem með lestinni fara, borga ætíð fyrir sig, en þeir, sem fara um veginn, borga ekkert. Með alt þetta fyrir augum er jeg hlyntur járnbraut, en það eru satt að segja heldur litlar líkur fyrir því, að hún nái fram að ganga á þessu þingi.

Vona jeg, að hv. flm. (JJ) geti verið ánægður með þessi svör mín.